Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Old/New Testament

Each day includes a passage from both the Old Testament and New Testament.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 40-42

40 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Ég hefi sett alla von mína á Drottin, og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.

Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju, og veitti mér fótfestu á kletti, gjörði mig styrkan í gangi.

Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni.

Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.

Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.

Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.

Þá mælti ég: "Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar.

Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér."

10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!

11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði.

12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn, lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.

13 Því að ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur.

14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig, skunda, Drottinn, mér til hjálpar.

15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.

16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni, er hrópa háð og spé.

17 En allir þeir er leita þín skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Drottinn!"

18 Ég er hrjáður og snauður, en Drottinn ber umhyggju fyrir mér. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, tef eigi, Guð minn!

41 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.

Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.

Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.

Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."

Óvinir mínir biðja mér óbæna: "Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"

Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga.

Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa:

"Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar."

10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.

11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim.

12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.

13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________

14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.

42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.

Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?

Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.

Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.

Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.

10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"

11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Postulasagan 27:1-26

27 Þegar ákveðið var, að vér skyldum sigla til Ítalíu, voru Páll og nokkrir bandingjar aðrir seldir í hendur hundraðshöfðingja, er Júlíus hét, úr hersveit keisarans.

Vér stigum á skip frá Adramýttíum, sem átti að sigla til hafna í Asíu, og létum í haf. Aristarkus, makedónskur maður frá Þessaloníku, var oss samferða.

Á öðrum degi lentum vér í Sídon. Júlíus sýndi Páli þá mannúð að leyfa honum að fara á fund vina sinna og þiggja umönnun þeirra.

Þaðan létum vér í haf og sigldum undir Kýpur, því að vindar voru andstæðir.

Þá sigldum vér yfir hafið undan Kilikíu og Pamfýlíu og komum til Mýru í Lýkíu.

Þar fann hundraðshöfðinginn skip frá Alexandríu, er sigla átti til Ítalíu, og kom oss á það.

Siglingin gekk tregt allmarga daga. Komumst vér með herkjum móts við Knídus, en þar bægði vindur oss. Þá sigldum vér undir Krít við Salmóne.

Vér beittum þar hjá með naumindum og komumst á stað einn, sem kallast Góðhafnir, í grennd við borgina Laseu.

Enn leið drjúgur tími, og sjóferðir voru orðnar hættulegar, enda komið fram yfir föstu. Páll vildi því vara þá við

10 og sagði við þá: "Það sé ég, góðir menn, að sjóferðin muni kosta hrakninga og mikið tjón, ekki einungis á farmi og skipi, heldur og á lífi voru."

11 En hundraðshöfðinginn treysti betur skipstjóra og skipseiganda en því, er Páll sagði.

12 Höfnin var óhentug til vetrarlegu. Því var það flestra ráð að halda þaðan, ef þeir mættu ná Fönix og hafa þar vetrarlegu. Sú höfn er á Krít og veit til útsuðurs og útnorðurs.

13 Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi.

14 En áður en langt leið, skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur.

15 Skipið hrakti, og varð ekki beitt upp í vindinn. Slógum vér undan og létum reka.

16 Vér hleyptum undir litla ey, sem nefnist Káda. Þar gátum vér með naumindum bjargað skipsbátnum.

17 Þeir náðu honum upp og gripu til þeirra ráða, sem helst máttu til bjargar verða, og reyrðu skipið köðlum. Þeir óttuðust, að þá mundi bera inn í Syrtuflóa; því felldu þeir segl og létu reka.

18 Daginn eftir hrakti oss mjög undan ofviðrinu. Þá tóku þeir að ryðja skipið.

19 Og á þriðja degi vörpuðu þeir út með eigin höndum búnaði skipsins.

20 Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna, og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um það, að vér kæmumst af.

21 Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: "Góðir menn, þér hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þér komist hjá hrakningum þessum og tjóni.

22 En nú hvet ég yður að vera vonglaðir, því enginn yðar mun lífi týna, en skipið mun farast.

23 Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég heyri til og þjóna, og mælti:

24 ,Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Og sjá, Guð hefur gefið þér alla þá, sem þér eru samskipa.`

25 Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

26 Oss mun bera upp á einhverja eyju."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society