Old/New Testament
10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?
2 Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.
3 Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.
4 Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.
5 Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.
6 Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."
7 Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.
8 Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.
9 Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.
10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.
11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."
12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.
13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?
14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.
15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.
16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.
17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.
18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.
11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"
2 Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.
3 Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?
4 Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.
5 Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.
6 Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.
7 Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.
12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.
2 Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.
3 Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.
4 Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,
5 þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"
6 "Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."
7 Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.
8 Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.
9 Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.
19 Meðan Apollós var í Korintu, fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina.
2 Hann sagði við þá: "Fenguð þér heilagan anda, er þér tókuð trú?" Þeir svöruðu: "Nei, vér höfum ekki einu sinni heyrt, að heilagur andi sé til."
3 Hann sagði: "Upp á hvað eruð þér þá skírðir?" Þeir sögðu: "Skírn Jóhannesar."
4 Þá mælti Páll: "Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði lýðnum að trúa á þann, sem eftir sig kæmi, það er á Jesú."
5 Þegar þeir heyrðu þetta, létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú.
6 Er Páll hafði lagt hendur yfir þá, kom heilagur andi yfir þá, og þeir töluðu tungum og spáðu.
7 Þessir menn voru alls um tólf.
8 Páll sótti nú samkunduna í þrjá mánuði og talaði þar djarflega og reyndi að sannfæra menn um Guðs ríki.
9 En nokkrir brynjuðu sig og vildu ekki trúa. Þegar þeir tóku að illmæla veginum í áheyrn fólksins, sagði Páll skilið við þá, greindi lærisveinana frá þeim, og síðan talaði hann daglega í skóla Týrannusar.
10 Þessu fór fram í tvö ár, svo að allir þeir, sem í Asíu bjuggu, heyrðu orð Drottins, bæði Gyðingar og Grikkir.
11 Guð gjörði óvenjuleg kraftaverk fyrir hendur Páls.
12 Það bar við, að menn lögðu dúka og flíkur af Páli á sjúka, og hurfu þá veikindi þeirra, og illir andar fóru út af þeim.
13 En nokkrir Gyðingar, er fóru um og frömdu andasæringar, tóku og fyrir að nefna nafn Drottins Jesú yfir þeim, er höfðu illa anda. Þeir sögðu: "Ég særi yður við Jesú þann, sem Páll prédikar."
14 Þeir er þetta frömdu, voru sjö synir Gyðings nokkurs, Skeva æðsta prests.
15 En illi andinn sagði við þá: "Jesú þekki ég, og Pál kannast ég við, en hverjir eruð þér?"
16 Og maðurinn, sem illi andinn var í, flaug á þá, keyrði þá alla undir sig og lék þá svo hart, að þeir flýðu naktir og særðir úr húsinu.
17 Þetta varð kunnugt öllum Efesusbúum, bæði Gyðingum og Grikkjum, og ótta sló á þá alla, og nafn Drottins Jesú varð miklað.
18 Margir þeirra, sem trú höfðu tekið, komu, gjörðu játningu og sögðu frá athæfi sínu.
19 Og allmargir er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi. Þær voru samtals virtar á fimmtíu þúsundir silfurpeninga.
20 Þannig breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans.
by Icelandic Bible Society