Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Old/New Testament

Each day includes a passage from both the Old Testament and New Testament.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 18-19

18 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.

Hann mælti: Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn.

Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!

Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.

Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,

snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.

Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Hann heyrði raust mína í helgidómi sínum, og óp mitt barst til eyrna honum.

Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður,

reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.

10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.

11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.

12 Hann gjörði myrkur að skýli sínu, regnsorta og skýþykkni að fylgsni sínu allt um kring.

13 Frá ljómanum fyrir honum brutust hagl og eldglæringar gegnum ský hans.

14 Þá þrumaði Drottinn á himnum, og Hinn hæsti lét raust sína gjalla.

15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði óvinum sínum, lét eldingar leiftra og hræddi þá.

16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum.

17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.

18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.

19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.

20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.

21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna geldur hann mér,

22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.

23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum, og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér.

24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.

25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.

26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,

27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.

28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir hrokafulla niðurlúta.

29 Já, þú lætur lampa minn skína, Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu.

30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.

31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum.

32 Hver er Guð nema Drottinn, og hver er hellubjarg utan vor Guð?

33 Sá Guð sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan,

34 sem gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum,

35 sem æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.

36 Og þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.

37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum, og ökklar mínir riðuðu ekki.

38 Ég elti óvini mína og náði þeim og sneri ekki aftur, fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.

39 Ég molaði þá sundur, þeir máttu eigi upp rísa, þeir hnigu undir fætur mér.

40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.

41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, og fjendum mínum eyddi ég.

42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.

43 Og ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem saur á strætum.

44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna, lýður sem ég þekkti ekki þjónar mér.

45 Óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér, útlendingar smjaðra fyrir mér.

46 Útlendingar dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.

47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns,

48 sá Guð sem veitti mér hefndir og braut þjóðir undir mig,

49 sem hreif mig úr höndum óvina minna. Og yfir mótstöðumenn mína hófst þú mig, frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.

50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.

51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.

19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.

Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________

Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.

Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.

10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.

11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.

12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.

13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!

14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.

15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!

Postulasagan 20:17-38

17 Frá Míletus sendi hann til Efesus og boðaði til sín öldunga safnaðarins.

18 Þegar þeir komu til hans, sagði hann við þá: "Þér vitið, hvernig ég hef hagað mér hjá yður alla tíð frá þeim degi, er ég kom fyrst til Asíu.

19 Ég þjónaði Drottni í allri auðmýkt, með tárum og í raunum, sem að mér hafa steðjað af launráðum Gyðinga.

20 Þér vitið, að ég dró ekkert undan, sem yður mátti að gagni verða, heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum

21 og vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.

22 Og nú er ég á leið til Jerúsalem, knúinn af andanum. Ekki veit ég, hvað þar mætir mér,

23 nema að heilagur andi birtir mér í hverri borg, að fjötrar og þrengingar bíði mín.

24 En mér er líf mitt einskis virði, fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu, sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.

25 Nú veit ég, að þér munuð ekki framar sjá mig, engir þér, sem ég hef komið til og boðað ríkið.

26 Þess vegna vitna ég fyrir yður nú í dag, að ekki er mig um að saka, þótt einhver glatist,

27 því að ég hef boðað yður allt Guðs ráð og ekkert dregið undan.

28 Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði.

29 Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni.

30 Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.

31 Vakið því og verið þess minnugir, að ég áminnti stöðugt sérhvern yðar með tárum dag og nótt í þrjú ár.

32 Og nú fel ég yður Guði og orði náðar hans, sem máttugt er að uppbyggja yður og gefa yður arfleifð með öllum þeim, sem helgaðir eru.

33 Eigi girntist ég silfur né gull né klæði nokkurs manns.

34 Sjálfir vitið þér, að þessar hendur unnu fyrir öllu því, er ég þurfti með og þeir, er með mér voru.

35 Í öllu sýndi ég yður, að með því að vinna þannig ber oss að annast óstyrka og minnast orða Drottins Jesú, að hann sjálfur sagði: ,Sælla er að gefa en þiggja."`

36 Þegar hann hafði þetta mælt, féll hann á kné og baðst fyrir ásamt þeim öllum.

37 Allir tóku að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann.

38 Mest varð þeim um þau orð hans, að þeir mundu aldrei framar sjá hann. Síðan fylgdu þeir honum til skips.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society