Old/New Testament
57 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál.
2 Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.
3 Ég hrópa til Guðs, hins hæsta, þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig.
4 Hann sendir af himni og hjálpar mér, þegar sá er kremur mig spottar. [Sela] Guð sendir náð sína og trúfesti.
5 Ég verð að liggja meðal ljóna, er eldi fnæsa. Tennur þeirra eru spjót og örvar, og tungur þeirra eru bitur sverð.
6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina!
7 Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína, sál mín er beygð. Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig, sjálfir falla þeir í hana. [Sela]
8 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika.
9 Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.
10 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,
11 því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna.
12 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.
58 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Davíðs-miktam.
2 Talið þér í sannleika það sem rétt er, þér guðir? Dæmið þér mennina með sanngirni?
3 Nei, allir aðhafist þér ranglæti á jörðu, hendur yðar vega út ofbeldi.
4 Hinir illu eru frá móðurlífi viknir af leið, lygarar fara villir vegar frá móðurskauti.
5 Eitur þeirra er eins og höggormseitur, þeir eru eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum
6 til þess að heyra ekki raust særingamannsins né hins slungna töframanns.
7 Guð, brjót sundur tennurnar í munni þeirra, mölva jaxlana úr ljónunum, Drottinn!
8 Lát þá hverfa eins og vatn, sem rennur burt; miði hann örvum sínum á þá, þá hníga þeir,
9 eins og snigillinn, sem rennur í sundur og hverfur, ótímaburður konunnar, er eigi sá sólina.
10 Áður en pottar yðar kenna hitans af þyrnunum, hvort sem þyrnarnir eru grænir eða glóandi, feykir hann hinum illa burt.
11 Þá mun hinn réttláti fagna, af því að hann hefir fengið að sjá hefndina, hann mun lauga fætur sína í blóði hinna óguðlegu.
12 Þá munu menn segja: Hinn réttláti hlýtur þó ávöxt; það er þó til Guð, sem dæmir á jörðunni.
59 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann.
2 Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum.
3 Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum,
4 því sjá, þeir sitja um líf mitt, hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn.
5 Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á!
6 En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela]
7 Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
8 Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að _ "Hver heyrir?"
9 En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum.
10 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín.
11 Guð kemur í móti mér með náð sinni, Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta.
12 Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi, lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli, þú Drottinn, skjöldur vor,
13 sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra, og lát þá verða veidda í hroka þeirra, og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala.
14 Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til, og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt, allt til endimarka jarðar. [Sela]
15 Á hverju kveldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
16 Þeir reika um eftir æti og urra, ef þeir verða eigi saddir.
17 En ég vil kveða um mátt þinn og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni, því að þú hefir gjörst háborg mín og athvarf á degi neyðar minnar.
18 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín, minn miskunnsami Guð.
4 Hvað eigum vér þá að segja um Abraham, forföður vorn, hvað ávann hann?
2 Ef hann réttlættist af verkum, þá hefur hann hrósunarefni, en ekki fyrir Guði.
3 Því hvað segir ritningin: "Abraham trúði Guði, og það var reiknað honum til réttlætis."
4 Þeim sem vinnur verða launin ekki reiknuð af náð, heldur eftir verðleika.
5 Hinum aftur á móti, sem ekki vinnur, en trúir á hann sem réttlætir óguðlegan, er trú hans reiknuð til réttlætis.
6 Eins og líka Davíð lýsir þann mann sælan, sem Guð tilreiknar réttlæti án tillits til verka:
7 Sælir eru þeir, sem afbrotin eru fyrirgefin og syndir þeirra huldar.
8 Sæll er sá maður, sem Drottinn tilreiknar ekki synd.
9 Nær þá sæluboðun þessi aðeins til umskorinna manna? Eða líka til óumskorinna? Vér segjum: "Trúin var Abraham til réttlætis reiknuð."
10 Hvernig var hún þá tilreiknuð honum? Umskornum eða óumskornum? Hann var ekki umskorinn, heldur óumskorinn.
11 Og hann fékk tákn umskurnarinnar sem staðfestingu þess réttlætis af trú, sem hann átti óumskorinn. Þannig skyldi hann vera faðir allra þeirra, sem trúa óumskornir, til þess að réttlætið tilreiknist þeim,
12 og eins faðir þeirra umskornu manna, sem eru ekki aðeins umskornir heldur feta veg þeirrar trúar, er faðir vor Abraham hafði óumskorinn.
13 Ekki var Abraham eða niðjum hans fyrir lögmál gefið fyrirheitið, að hann skyldi verða erfingi heimsins, heldur fyrir trúar-réttlæti.
14 Ef lögmálsmennirnir eru erfingjar, er trúin ónýtt og fyrirheitið að engu gjört.
15 Því að lögmálið vekur reiði. En þar sem ekki er lögmál, þar eru ekki heldur lögmálsbrot.
16 Því er fyrirheitið byggt á trú, til þess að það sé af náð, og megi stöðugt standa fyrir alla niðja hans, ekki fyrir þá eina, sem hafa lögmálið, heldur og fyrir þá, sem eiga trú Abrahams. Hann er faðir vor allra,
17 eins og skrifað stendur: "Föður margra þjóða hef ég sett þig." Og það er hann frammi fyrir Guði, sem hann trúði á, honum sem lífgar dauða og kallar fram það, sem ekki er til eins og það væri til.
18 Abraham trúði með von, gegn von, að hann skyldi verða faðir margra þjóða, samkvæmt því sem sagt hafði verið: "Svo skal afkvæmi þitt verða."
19 Og ekki veiklaðist hann í trúnni þótt hann minntist þess, að hann var kominn að fótum fram _ hann var nálega tíræður, _ og að Sara gat ekki orðið barnshafandi sakir elli.
20 Um fyrirheit Guðs efaðist hann ekki með vantrú, heldur gjörðist styrkur í trúnni. Hann gaf Guði dýrðina,
21 og var þess fullviss, að hann er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað.
22 "Fyrir því var það honum og til réttlætis reiknað."
23 En að það var honum tilreiknað, það var ekki ritað hans vegna einungis,
24 heldur líka vor vegna. Oss mun það tilreiknað verða, sem trúum á hann, sem uppvakti Jesú, Drottin vorn, frá dauðum,
25 hann sem var framseldur vegna misgjörða vorra og vegna réttlætingar vorrar uppvakinn.
by Icelandic Bible Society