Old/New Testament
45 Þegar þér skiptið landinu með hlutkesti til arfleifðar, skuluð þér gefa Drottni fórnargjöf af því, heilaga landspildu, 25.000 álna á lengd og 20.000 álna á breidd. Skal hún heilög vera innan takmarka sinna í allar áttir.
2 (Þar af skal falla undir helgidóminn ferhyrndur flötur, fimm hundruð álna á hvern veg, og fimmtíu álna teigur skal vera kringum hann.)
3 Af þessum mælda reit skalt þú mæla spildu 25.000 álna langa og 10.000 álna breiða. Á henni skal helgidómurinn, hinn háheilagi, standa.
4 Það er helgigjöf í jarðeign. Skal hún tilheyra prestunum, þeim er gegna þjónustu við helgidóminn og nálgast mega Drottin til að þjóna honum. Skal það vera húsastæði handa þeim og tilheyra helgidóminum sem heilagt svæði.
5 Og 25.000 álna löng landspilda og 10.000 álna breið skal falla undir levítana, þá er þjónustu gegna við musterið, sem þeirra land fyrir borgir til þess að búa í.
6 Og sem fasteign borgarinnar skuluð þér tiltaka 5.000 álna breiða spildu og 25.000 álna langa, jafnlanga hinni heilögu fórnargjöf. Skal hún vera eign allra Ísraelsmanna.
7 En handa landshöfðingjanum skuluð þér tiltaka landshluta beggja vegna við helguðu landspilduna og borgarreitinn, meðfram hinni helguðu landspildu og meðfram borgarreitnum, vestanmegin til vesturs og austanmegin til austurs, og skal hann vera jafnlangur einum erfðahluta ættkvíslanna og ná frá vesturtakmörkum til austurtakmarka landsins.
8 Þetta skal vera landeign hans í Ísrael, svo að höfðingjar mínir veiti eigi framar þjóð minni yfirgang, heldur fái Ísraelsmönnum landið eftir ættkvíslum þeirra.
9 Svo segir Drottinn Guð: Látið yður nægja þetta, þér Ísraels höfðingjar! Látið af ofríki og yfirgangi, en iðkið rétt og réttlæti! Látið af að reka þjóð mína af eignum hennar! _ segir Drottinn Guð.
10 Þér skuluð hafa rétta vog, rétta efu og rétta bat.
11 Efa og bat skulu vera jafnar að máli, svo að bat taki tíunda part gómers og sömuleiðis efa tíunda part gómers. Eftir gómer skal hvort tveggja mælast.
12 Sikill skal vera tuttugu gerur. Fimm siklar skulu vera réttir fimm og tíu siklar réttir tíu. Fimmtíu siklar skulu vera í mínu.
13 Þetta er fórnargjöfin, sem þér skuluð gefa: 1/6 efu af hverjum gómer hveitis og 1/6 efu af hverjum gómer byggs.
14 Og ákvæðið um olífuolíuna er þetta: 1/10 úr bat af hverju kór (því að tíu bat eru í einu kór).
15 Enn fremur einn sauð af hjörðinni, af hverjum tveim hundruðum, sem fórnargjöf frá öllum kynkvíslum Ísraels til matfórnar, brennifórnar og heillafórnar, til þess að friðþægja fyrir þá _ segir Drottinn Guð.
16 Allur landslýðurinn skal vera skyldur til að færa landshöfðingjanum í Ísrael þessa fórnargjöf.
17 En landshöfðinginn skal vera skyldur að leggja til brennifórnir, matfórn og dreypifórn á hátíðum, tunglkomum og hvíldardögum við allar hátíðasamkomur Ísraelsmanna. Hann skal láta fram bera syndafórnina og matfórnina og brennifórnina og heillafórnirnar til þess að friðþægja fyrir Ísraelsmenn.
18 Svo segir Drottinn Guð: Á fyrsta degi hins fyrsta mánaðar skalt þú taka ungan uxa gallalausan og syndhreinsa helgidóminn.
19 Og presturinn skal taka af blóði syndafórnarinnar og ríða á dyrastafi musterisins og á fjóra hyrninga altarisstallanna og á dyrastafi hliðsins að innri forgarðinum.
20 Og eins skalt þú gjöra á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar vegna þeirra, sem af vangá eða fákænsku kynnu að hafa misgjört eitthvað, og þannig skuluð þér þiggja musterið í frið.
21 Á fjórtánda degi hins fyrsta mánaðar skuluð þér halda páskahátíðina, í sjö daga skulu etin ósýrð brauð.
22 Og á þeim degi skal landshöfðinginn láta bera fram uxa í syndafórn fyrir sig og allan landslýðinn.
23 Og sjö daga hátíðarinnar skal hann láta fram bera sem brennifórn Drottni til handa sjö uxa og sjö hrúta gallalausa, á hverjum degi þessa sjö daga, svo og daglega geithafur í syndafórn.
24 Og sem matfórn skal hann láta fram bera efu með hverjum uxa og efu með hverjum hrút, og olíu, hín með hverri efu.
25 Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, á hátíðinni, skal hann í sjö daga láta fram bera jafnmikið þessu, bæði syndafórn og brennifórn og matfórn og olíu.
46 Svo segir Drottinn Guð: Hlið innri forgarðsins, það er snýr í austur, skal lokað vera sex virku dagana, en hvíldardaginn skal opna það og tunglkomudaginn skal opna það.
2 Og landshöfðinginn skal koma að utan og ganga inn um forsal hliðsins og nema staðar við dyrastafi hliðsins. Þá skulu prestarnir bera fram brennifórn hans og heillafórn, en hann skal falla fram á þröskuldi hliðsins og ganga síðan út aftur, og hliðinu skal ekki loka til kvelds.
3 Og landslýðurinn skal falla fram fyrir auglit Drottins við dyr þessa hliðs á hvíldardögum og tunglkomudögum.
4 Brennifórnin, sem landshöfðinginn á að færa Drottni, skal vera: Á hvíldardegi sex sauðkindur gallalausar og einn hrútur gallalaus,
5 og auk þess í matfórn ein efa með hverjum hrút, og með sauðkindunum slík matfórn, er hann vill sjálfur gefa, og ein hín af olíu með hverri efu.
6 Á tunglkomudögum skal hún vera ungneyti gallalaust og sex sauðkindur og einn hrútur, allt gallalaust.
7 Og hann skal láta fram bera efu með uxanum og efu með hrútnum í matfórn og með sauðkindunum svo sem hann má af hendi láta, og hín af olíu með hverri efu.
8 Þegar landshöfðinginn gengur inn, skal hann ganga inn um forsal hliðsins og fara sömu leið út aftur.
9 Og þegar landslýðurinn gengur fram fyrir Drottin á löghátíðunum, þá skal sá, er inn hefir gengið um norðurhliðið til þess að falla fram, aftur út fara um suðurhliðið, og sá, er inn hefir gengið um suðurhliðið, skal aftur út fara um norðurhliðið. Enginn skal aftur út fara um það hlið, sem hann hefir inn gengið, heldur skal hann út fara um það hlið, sem gegnt honum er.
10 Og landshöfðinginn skal ganga inn mitt á meðal þeirra, þegar þeir ganga inn, og fara út, þegar þeir fara út.
11 Á hátíðum og löghelgum skal matfórnin vera efa með uxanum og efa með hrútnum, og með sauðkindunum slíkt, er hann vill sjálfur gefa, og hín af olíu með hverri efu.
12 Og þegar landshöfðinginn ber fram sjálfviljafórn, brennifórn eða heillafórn sem sjálfviljafórn Drottni til handa, þá skal upp ljúka fyrir honum því hliðinu, sem í austur snýr. Síðan skal hann bera fram brennifórn sína og heillafórn, eins og hann er vanur að gjöra á hvíldardögum, og ganga síðan út, og þegar hann er farinn út, skal loka hliðinu á eftir honum.
13 Á degi hverjum skal hann láta fram bera ársgamla sauðkind gallalausa í brennifórn Drottni til handa, á hverjum morgni skal hann fram bera hana.
14 Og sem matfórn skal hann fram bera með henni á hverjum morgni 1/6 efu og 1/3 hínar af olíu til þess að væta með mjölið, sem matfórn Drottni til handa. Skal það vera stöðug skyldugreiðsla.
15 Og þannig skulu þeir fram bera sauðkindina og matfórnina og olíuna á hverjum morgni sem stöðuga brennifórn.
16 Svo segir Drottinn Guð: Ef landshöfðinginn gefur einhverjum sona sinna nokkuð af óðali sínu að gjöf, þá skal það tilheyra sonum hans. Það er erfðaeign þeirra.
17 En gefi hann einhverjum þjónustumanna sinna nokkuð af óðali sínu að gjöf, þá skal hann halda því til lausnarársins. Þá skal það hverfa aftur til landshöfðingjans. En óðal sona hans skal haldast í eign þeirra.
18 Og ekki má landshöfðinginn taka neitt af óðali lýðsins og veita honum með því yfirgang. Af sinni eigin eign verður hann að veita sonum sínum arfleifð, til þess að enginn af lýð mínum verði flæmdur burt frá eign sinni."
19 Því næst leiddi hann mig gegnum ganginn, sem liggur fast við hliðið, til hinna heilögu herbergja, sem ætluð eru prestunum og vita í norður. En þar var rúm í ysta horni mót vestri.
20 Og hann sagði við mig: "Þetta er staðurinn, þar sem prestarnir skulu sjóða sektarfórnina og syndafórnina, og þar sem þeir skulu baka matfórnina, til þess að þeir þurfi ekki að bera það út í ytri forgarðinn og þann veg helga lýðinn."
21 Og hann leiddi mig út í ytri forgarðinn og lét mig ganga í gegn, út í fjögur horn forgarðsins, og sjá, lítill forgarður var í hverju horni forgarðsins.
22 Í fjórum hornum forgarðsins voru aftur minni forgarðar, fjörutíu álnir á lengd og þrjátíu álnir á breidd. Voru þeir allir fjórir jafnir að máli.
23 Og í þeim var múrveggur allt í kring, allt í kring í þeim fjórum, og eldstór voru gjörðar neðan til við múrveggina allt í kring.
24 Og hann sagði við mig: "Þetta eru eldhúsin, þar sem þjónustumenn musterisins skulu sjóða sláturfórnir lýðsins."
2 Börnin mín! Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.
2 Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.
3 Og á því vitum vér, að vér þekkjum hann, ef vér höldum boðorð hans.
4 Sá sem segir: "Ég þekki hann," og heldur ekki boðorð hans, er lygari og sannleikurinn er ekki í honum.
5 En hver sem varðveitir orð hans, í honum er sannarlega kærleikur til Guðs orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum.
6 Þeim sem segist vera stöðugur í honum, honum ber sjálfum að breyta eins og hann breytti.
7 Þér elskaðir, það er ekki nýtt boðorð, sem ég rita yður, heldur gamalt boðorð, sem þér hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið, sem þér heyrðuð.
8 Engu að síður er það nýtt boðorð, er ég rita yður, sem er augljóst í honum og í yður, því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
9 Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu.
10 Sá sem elskar bróður sinn, hann er stöðugur í ljósinu og í honum er ekkert, er leitt geti hann til falls.
11 En sá sem hatar bróður sinn, hann er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer, því að myrkrið hefur blindað augu hans.
12 Ég rita yður, börnin mín, af því að syndir yðar eru yður fyrirgefnar fyrir sakir nafns hans.
13 Ég rita yður, þér feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég rita yður, þér ungu menn, af því að þér hafið sigrað hinn vonda.
14 Ég hef ritað yður, börn, af því að þér þekkið föðurinn. Ég hef ritað yður, feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég hef ritað yður, ungu menn, af því að þér eruð styrkir og Guðs orð er stöðugt í yður og þér hafið sigrað hinn vonda.
15 Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins.
16 Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.
17 Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.
18 Börn mín, það er hin síðasta stund. Þér hafið heyrt að andkristur kemur, og nú eru líka margir andkristar komnir fram. Af því vitum vér, að það er hin síðasta stund.
19 Þeir komu úr vorum hópi, en heyrðu oss ekki til. Ef þeir hefðu heyrt oss til, þá hefðu þeir áfram verið með oss. En þetta varð til þess að augljóst yrði, að enginn þeirra heyrði oss til.
20 En þér hafið smurning frá hinum heilaga og vitið þetta allir.
21 Ég hef ekki skrifað yður vegna þess, að þér þekkið ekki sannleikann, heldur af því að þér þekkið hann og af því að engin lygi getur komið frá sannleikanum.
22 Hver er lygari, ef ekki sá sem neitar, að Jesús sé Kristur? Sá er andkristurinn, sem afneitar föðurnum og syninum.
23 Hver sem afneitar syninum hefur ekki heldur fundið föðurinn. Sá sem játar soninn hefur og fundið föðurinn.
24 En þér, látið það vera stöðugt í yður, sem þér hafið heyrt frá upphafi. Ef það er stöðugt í yður, sem þér frá upphafi hafið heyrt, þá munuð þér einnig vera stöðugir í syninum og í föðurnum.
25 Og þetta er fyrirheitið, sem hann gaf oss: Hið eilífa líf.
26 Þetta hef ég skrifað yður um þá, sem eru að leiða yður afvega.
27 Og sú smurning, sem þér fenguð af honum, hún er stöðug í yður, og þér þurfið þess ekki, að neinn kenni yður, því smurning hans fræðir yður um allt, hún er sannleiki, en engin lygi. Verið stöðugir í honum, eins og hún kenndi yður.
28 Og nú, börnin mín, verið stöðug í honum, til þess að vér getum, þegar hann birtist, átt djörfung og blygðumst vor ekki fyrir honum, þegar hann kemur.
29 Þér vitið, að hann er réttlátur. Þá skiljið þér einnig, að hver sem iðkar réttlætið, er fæddur af honum.
by Icelandic Bible Society