Old/New Testament
119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.
2 Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta
3 og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.
4 Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.
5 Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.
6 Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.
7 Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.
8 Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.
9 Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.
10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.
11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.
12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.
13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.
14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.
15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.
16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.
17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.
18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.
19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.
20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.
21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.
22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.
23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.
24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.
25 Sál mín loðir við duftið, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig, kenn mér lög þín.
27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar.
28 Sál mín tárast af trega, reis mig upp eftir orði þínu.
29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.
30 Ég hefi útvalið veg sannleikans, sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.
31 Ég held fast við reglur þínar, Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.
32 Ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.
33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda.
34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.
35 Leið mig götu boða þinna, því að af henni hefi ég yndi.
36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi.
37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma, lífga mig á vegum þínum.
38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum, sem gefið er þeim er þig óttast.
39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við, því að ákvæði þín eru góð.
40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín, lífga mig með réttlæti þínu.
41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,
42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.
43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.
44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,
45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,
46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,
47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,
48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.
49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.
50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.
51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.
52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.
53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.
54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.
55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.
56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.
57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.
58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.
59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum.
60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín.
61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.
62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.
63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.
64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín.
65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns eftir orði þínu, Drottinn.
66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.
67 Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt.
68 Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.
69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.
70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri, en ég leita unaðar í lögmáli þínu.
71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín.
72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri.
73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.
74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt.
75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.
76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.
77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín.
78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.
79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar.
80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar.
81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu.
82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig?
83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.
84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?
85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.
86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.
87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.
88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.
20 Hver og einn sé kyrr í þeirri stöðu, sem hann var kallaður í.
21 Varst þú þræll, er þú varst kallaður? Set það ekki fyrir þig, en gjör þér gott úr því, en ef þú getur orðið frjáls, þá kjós það heldur.
22 Því að sá þræll, sem kallaður er í Drottni, er frelsingi Drottins. Á sama hátt er sá, sem kallaður er sem frjáls, þræll Krists.
23 Þér eruð verði keyptir, verðið ekki þrælar manna.
24 Bræður, sérhver verði frammi fyrir Guði kyrr í þeirri stétt, sem hann var kallaður í.
25 Um meyjarnar hef ég enga skipun frá Drottni. En álit mitt læt ég í ljós eins og sá, er hlotið hefur þá náð af Drottni að vera trúr.
26 Mín skoðun er, að vegna yfirstandandi neyðar sé það gott fyrir mann að vera þannig.
27 Ertu við konu bundinn? Leitast þá ekki við að verða laus. Ertu laus orðinn við konu? Leita þá ekki kvonfangs.
28 En þótt þú kvongist, syndgar þú ekki, og ef mærin giftist, syndgar hún ekki. En þrenging munu slíkir hljóta hér á jörð, en ég vildi hlífa yður.
29 En það segi ég, bræður, tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki,
30 þeir sem gráta, eins og þeir grétu ekki, þeir sem fagna, eins og þeir fögnuðu ekki, þeir sem kaupa, eins og þeir héldu ekki því, sem þeir kaupa,
31 og þeir sem nota heiminn, eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.
32 En ég vil, að þér séuð áhyggjulausir. Hinn ókvænti ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, hversu hann megi Drottni þóknast.
33 En hinn kvænti ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hann megi þóknast konunni,
34 og er tvískiptur. Hin ógifta kona og mærin ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, til þess að hún megi vera heilög, bæði að líkama og anda. En hin gifta kona ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hún megi þóknast manninum.
35 Þetta segi ég sjálfum yður til gagns, ekki til þess að varpa snöru yfir yður, heldur til þess að efla velsæmi og óbifanlega fastheldni við Drottin.
36 Ef einhver telur sig ekki geta vansalaust búið með heitmey sinni, enda á manndómsskeiði, þá gjöri hann sem hann vill, ef ekki verður hjá því komist. Hann syndgar ekki. Giftist þau.
37 Sá þar á móti, sem er staðfastur í hjarta sínu og óþvingaður, en hefur fullt vald á vilja sínum og hefur afráðið í hjarta sínu að hún verði áfram mey, gjörir vel.
38 Þannig gjöra þá báðir vel, sá sem kvænist mey sinni, og hinn, sem kvænist henni ekki, hann gjörir betur.
39 Konan er bundin, meðan maður hennar er á lífi. En ef maðurinn deyr, er henni frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins að það sé í Drottni.
40 Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er, það er mín skoðun. En ég þykist og hafa anda Guðs.
by Icelandic Bible Society