Old/New Testament
1 Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4 Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
2 Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?
2 Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:
3 "Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."
4 Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.
5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:
6 "Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."
7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.
8 Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.
9 Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."
10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.
11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.
12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,
13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.
3 Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.
2 Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.
3 Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]
4 En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.
5 Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]
6 Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.
7 Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.
8 Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.
9 Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]
17 Þeir fóru nú um Amfípólis og Apollóníu og komu til Þessaloníku. Þar áttu Gyðingar samkundu.
2 Eftir venju sinni gekk Páll inn til þeirra, og þrjá hvíldardaga ræddi hann við þá og lagði út af ritningunum,
3 lauk þeim upp fyrir þeim og setti þeim fyrir sjónir, að Kristur átti að líða og rísa upp frá dauðum. Hann sagði: "Jesús, sem ég boða yður, hann er Kristur."
4 Nokkrir þeirra létu sannfærast og gengu til fylgis við Pál og Sílas, auk þess mikill fjöldi guðrækinna Grikkja og mikilsháttar konur eigi allfáar.
5 En Gyðingar fylltust afbrýði og fengu með sér götuskríl, æstu til uppþota og hleyptu borginni í uppnám. Þustu þeir að húsi Jasonar og vildu færa þá fyrir lýðinn.
6 En þegar þeir fundu þá ekki, drógu þeir Jason og nokkra bræður fyrir borgarstjórana og hrópuðu: "Mennirnir, sem komið hafa allri heimsbyggðinni í uppnám, þeir eru nú komnir hingað,
7 og Jason hefur tekið á móti þeim. Allir þessir breyta gegn boðum keisarans, því þeir segja, að annar sé konungur og það sé Jesús."
8 Og þeir vöktu óhug með fólkinu og einnig borgarstjórunum með þessum orðum.
9 Slepptu þeir ekki þeim Jasoni fyrr en þeir höfðu látið þá setja tryggingu.
10 En bræðurnir sendu þá Pál og Sílas þegar um nóttina til Beroju. Þegar þeir komu þangað, gengu þeir inn í samkunduhús Gyðinga.
11 Þeir voru veglyndari þar en í Þessaloníku. Þeir tóku við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.
12 Margir þeirra tóku trú og einnig Grikkir ekki allfáir, tignar konur og karlar.
13 En er Gyðingar í Þessaloníku fréttu, að Páll hefði einnig boðað orð Guðs í Beroju, komu þeir og hleyptu líka ólgu og æsingu í múginn þar.
14 Þá sendu bræðurnir jafnskjótt með Pál af stað til sjávar, en Sílas og Tímóteus urðu eftir.
15 Leiðsögumenn Páls fylgdu honum allt til Aþenu og sneru aftur með boð til Sílasar og Tímóteusar að koma hið bráðasta til hans.
by Icelandic Bible Society