Old/New Testament
9 Og þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar _, þá er skipun konungs og lagaboði hans skyldi fullnægt, þann dag er óvinir Gyðinga höfðu vonað að fá yfirbugað þá, en nú þvert á móti Gyðingar sjálfir skyldu yfirbuga fjendur sína,
2 þá söfnuðust Gyðingar saman í borgum sínum um öll skattlönd Ahasverusar konungs til þess að leggja hendur á þá, er þeim leituðu tjóns. Og enginn fékk staðist fyrir þeim, því að ótti við þá var kominn yfir allar þjóðir.
3 Og allir höfðingjar skattlandanna og jarlarnir og landstjórarnir og embættismenn konungs veittu Gyðingum lið, því að ótti við Mordekai var yfir þá kominn.
4 Því að Mordekai var mikill orðinn við hirð konungs, og orðstír hans fór um öll skattlöndin, því að maðurinn Mordekai varð æ voldugri og voldugri.
5 Og Gyðingar unnu á óvinum sínum með sverði, drápu þá og tortímdu þeim, og fóru þeir með hatursmenn sína eftir geðþekkni sinni.
6 Og í borginni Súsa drápu Gyðingar og tortímdu fimm hundruðum manns.
7 Og þeir drápu Parsandata, Dalfón, Aspata,
8 Pórata, Adalja, Arídata,
9 Parmasta, Arísaí, Arídaí og Vajesata,
10 tíu sonu Hamans Hamdatasonar, fjandmanns Gyðinga. En eigi lögðu þeir hendur á fjármuni manna.
11 Þennan sama dag var tala þeirra, sem vegnir höfðu verið í borginni Súsa, flutt konungi.
12 Og konungur sagði við Ester drottningu: "Í borginni Súsa hafa Gyðingar drepið og tortímt fimm hundruð manns og tíu sonu Hamans. Hvað munu þeir hafa gjört í öðrum skattlöndum konungs? Og hver er bæn þín? Hún skal veitast þér. Og hvers beiðist þú frekar? Það skal í té látið."
13 Þá mælti Ester: "Ef konunginum þóknast svo, þá sé Gyðingum, þeim sem eru í borginni Súsa, leyft að fara hinu sama fram á morgun sem í dag, og þá tíu sonu Hamans festi menn á gálga."
14 Og konungur bauð að svo skyldi gjöra, og fyrirskipun var útgefin í Súsa, og synir Hamans tíu voru festir á gálga.
15 Og Gyðingar í Súsa söfnuðust og saman hinn fjórtánda dag adarmánaðar og drápu þrjú hundruð manns í Súsa. En eigi lögðu þeir hendur á fjármuni þeirra.
16 En aðrir Gyðingar, þeir er bjuggu í skattlöndum konungs, söfnuðust saman og vörðu líf sitt með því að hefna sín á óvinum sínum og drepa sjötíu og fimm þúsundir meðal fjandmanna sinna _ en eigi lögðu þeir hendur á fjármuni þeirra _
17 hinn þrettánda dag adarmánaðar, og þeir tóku sér hvíld hinn fjórtánda og gjörðu hann að veislu- og gleðidegi.
18 En Gyðingar þeir, sem bjuggu í Súsa, höfðu safnast saman bæði hinn þrettánda og hinn fjórtánda mánaðarins, og tóku þeir sér hvíld hinn fimmtánda og gjörðu hann að veislu- og gleðidegi.
19 Fyrir því halda Gyðingar í sveitunum, þeir er búa í sveitaþorpunum, hinn fjórtánda dag adarmánaðar sem gleði-, veislu- og hátíðisdag og senda þá hver öðrum matgjafir.
20 Mordekai skrásetti þessa viðburði og sendi bréf til allra Gyðinga í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs, bæði nær og fjær,
21 til þess að gjöra þeim að skyldu að halda árlega helgan fjórtánda og fimmtánda dag adarmánaðar _
22 eins og dagana, sem Gyðingar fengu hvíld frá óvinum sínum, og mánuðinn, er hörmung þeirra snerist í fögnuð og hryggð þeirra í hátíðisdag _ með því að gjöra þá að veisludögum og fagnaðar og senda þá hver öðrum matgjafir og fátækum ölmusu.
23 Og Gyðingar lögleiddu að gjöra það, er þeir höfðu upp byrjað og Mordekai hafði skrifað þeim.
24 Með því að Haman Hamdatason Agagíti, fjandmaður allra Gyðinga, hafði hugsað það ráð upp gegn Gyðingum að eyða þeim og varpað púr, það er hlutkesti, til að afmá þá og eyða þeim,
25 en konungur hafði fyrirskipað með bréfi, þá er Ester gekk fyrir hann, að hið vonda ráð, er hann hafði upphugsað gegn Gyðingum, skyldi honum sjálfum í koll koma og hann og synir hans skyldu festir á gálga,
26 fyrir því voru þessir dagar kallaðir púrím, eftir orðinu púr. Þess vegna _ vegna allra orða þessa bréfs, bæði vegna þess, er þeir sjálfir höfðu séð, og hins, er þeir höfðu orðið fyrir _
27 gjörðu Gyðingar það að skyldu og lögleiddu það sem venju, er eigi mætti út af bregða, bæði fyrir sig og niðja sína og alla þá, er sameinuðust þeim, að halda þessa tvo daga helga árlega, samkvæmt fyrirskipuninni um þá og á hinum ákveðna tíma,
28 og að þessara daga skyldi verða minnst og þeir helgir haldnir af hverri kynslóð og hverri ætt, í hverju skattlandi og í hverri borg, svo að þessir púrímdagar skyldu eigi líða undir lok meðal Gyðinga og minning þeirra aldrei í gleymsku falla hjá niðjum þeirra.
29 Og Ester drottning, dóttir Abíhaíls, og Mordekai Gyðingur rituðu bréf og beittu þar öllu valdi sínu til þess að gjöra að lögum þetta annað bréf um púrím.
30 Og hann sendi bréf til allra Gyðinga í skattlöndin hundrað tuttugu og sjö, um allt ríki Ahasverusar, friðar- og sannleiksorð,
31 til þess að lögleiða þessa púrímdaga á hinum ákveðna tíma, eins og Mordekai Gyðingur og Ester drottning höfðu lögleitt þá fyrir þá, eins og þeir höfðu lögleitt ákvæðin um föstur og harmakvein, er þeim skyldi fylgja, fyrir sig og niðja sína.
32 Og skipun Esterar gjörði púrímákvæði þessi að lögum, og var hún rituð í bók.
10 Og Ahasverus konungur lagði skatt á landið og eyjar hafsins.
2 En öll verk máttar hans og hreysti og lýsing á vegsemd Mordekai, þeirri er konungur hóf hann til, það er ritað í Árbókum Medíu- og Persíukonunga.
7 Þá spurði æðsti presturinn: "Er þessu svo farið?"
2 Stefán svaraði: "Heyrið mig, bræður og feður. Guð dýrðarinnar birtist föður vorum, Abraham, er hann var enn í Mesópótamíu, áður en hann settist að í Haran,
3 og sagði við hann: ,Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu til landsins, sem ég mun vísa þér á.`
4 Þá fór hann burt úr Kaldealandi og settist að í Haran. En eftir lát föður hans leiddi Guð hann þaðan til þessa lands, sem þér nú byggið.
5 Ekki gaf hann honum óðal hér, ekki eitt fótmál. En hann hét honum að gefa honum landið til eignar og niðjum hans eftir hann, þótt hann væri enn barnlaus.
6 Guð sagði, að niðjar hans mundu búa sem útlendingar í ókunnu landi og verða þjáðir og þrælkaðir í fjögur hundruð ár.
7 ,En þjóðina, sem þrælkar þá, mun ég dæma,` sagði Guð, ,og eftir það munu þeir fara þaðan og þjóna mér á þessum stað.`
8 Þá gaf hann honum sáttmála umskurnarinnar. Síðan gat Abraham Ísak og umskar hann á áttunda degi, og Ísak gat Jakob og Jakob ættfeðurna tólf.
9 Og ættfeðurnir öfunduðu Jósef og seldu hann til Egyptalands. En Guð var með honum,
10 frelsaði hann úr öllum þrengingum hans og veitti honum hylli og visku í augum Faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann skipaði hann höfðingja yfir Egyptaland og yfir allt sitt hús.
11 Nú kom hallæri á öllu Egyptalandi og Kanaan og mikil þrenging, og feður vorir höfðu ekki lífsbjörg.
12 En er Jakob heyrði, að korn væri til á Egyptalandi, sendi hann feður vora þangað hið fyrra sinn.
13 Og í síðara skiptið gaf Jósef sig fram við bræður sína, og Faraó varð kunn ætt Jósefs.
14 En Jósef sendi eftir Jakobi föður sínum og öllu ættfólki sínu, sjötíu og fimm manns,
15 og Jakob fór suður til Egyptalands. Þar andaðist hann og feður vorir.
16 Þeir voru fluttir til Síkem og lagðir í grafreitinn, er Abraham hafði keypt fyrir silfur af sonum Hemors í Síkem.
17 Nú tók að nálgast sá tími, er rætast skyldi fyrirheitið, sem Guð hafði gefið Abraham. Fólkið hafði vaxið og margfaldast í Egyptalandi.
18 ,Þá hófst til ríkis þar annar konungur, er eigi vissi skyn á Jósef.`
19 Hann beitti kyn vort slægð og lék feður vora illa. Hann lét þá bera út ungbörn sín, til þess að þjóðin skyldi eigi lífi halda.
20 Um þessar mundir fæddist Móse og var forkunnar fríður. Þrjá mánuði var hann fóstraður í húsi föður síns.
21 En er hann var út borinn, tók dóttir Faraós hann og fóstraði sem sinn son.
by Icelandic Bible Society