Fjórða bók Móse 17-19
Icelandic Bible
17 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Tala þú við Ísraelsmenn og fá hjá þeim tólf stafi, einn staf hjá ættkvísl hverri, hjá öllum höfuðsmönnum ættkvísla þeirra. Rita þú nafn hvers eins á staf hans.
3 En nafn Arons skalt þú rita á staf Leví, því að einn stafur skal vera fyrir höfuð ættkvíslar þeirra.
4 Og þú skalt leggja þá niður í samfundatjaldinu, fyrir framan sáttmálið, þar sem ég á samfundi við yður.
5 Og það skal verða, að stafur þess manns, sem ég kýs, skal laufgast, að ég megi hefta kurr Ísraelsmanna, er þeir mögla í gegn yður."
6 Móse talaði við Ísraelsmenn, og allir höfuðsmenn þeirra fengu honum stafi, hver höfðingi einn staf eftir ættkvíslum þeirra, tólf stafi alls, og var stafur Arons meðal stafa þeirra.
7 Og Móse lagði stafina fram fyrir Drottin í sáttmálstjaldinu.
8 Er Móse gekk inn í sáttmálstjaldið daginn eftir, sjá, þá var stafur Arons, stafur Levíættar, laufgaður. Voru blöð sprottin á honum, blóm sprungin út og bar hann fullvaxnar möndlur.
9 Bar Móse nú alla stafina út frá augliti Drottins til allra Ísraelsmanna, svo að þeir sæju þá, og tóku þeir hver sinn staf.
10 Þá sagði Drottinn við Móse: "Ber staf Arons inn aftur fram fyrir sáttmálið, að hann sé þar geymdur til tákns fyrir þá, sem óhlýðnir eru, og kurr þeirra gegn mér taki enda, ella munu þeir deyja."
11 Og Móse gjörði svo, hann gjörði svo sem Drottinn bauð honum.
12 En Ísraelsmenn sögðu við Móse: "Sjá, vér förumst, það er úti um oss, það er úti um oss alla!
13 Hver sem kemur nærri, hver sem kemur nærri búð Drottins, týnir lífi. Munum vér þá allir farast?"
18 Drottinn sagði við Aron: "Þú og synir þínir og ættleggur feðra þinna með þér skulu sæta hegningu fyrir það, sem brotið er á móti helgidóminum, og þú og synir þínir með þér skuluð sæta hegningu fyrir það, sem yður verður á í prestsembætti yðar.
2 Þú skalt taka með þér bræður þína, kynkvísl Leví, ættkvísl föður þíns. Þeir skulu vera þér við hönd og þjóna þér, þegar þú og synir þínir með þér eruð frammi fyrir sáttmálstjaldinu.
3 Og þeir skulu gegna því, er við þarf við þína þjónustu og við þjónustu alls tjaldsins. Þó skulu þeir eigi koma nærri hinum helgu áhöldum né altarinu, ella munu þeir deyja, bæði þeir og þér.
4 Og þeir skulu vera þér við hönd og annast það, sem annast þarf við samfundatjaldið, alla þjónustu við tjaldið, en eigi skal óvígður maður koma til yðar.
5 En þér skuluð annast það, sem annast þarf í helgidóminum og við altarið, svo að eigi komi reiði framar yfir Ísraelsmenn.
6 Og sjá, ég hefi tekið bræður yðar, levítana, úr Ísraelsmönnum sem gjöf yður til handa, sem þá, er gefnir hafa verið Drottni, til þess að gegna þjónustu við samfundatjaldið.
7 En þú og synir þínir með þér skuluð annast prestsembætti yðar í öllum þeim hlutum, er varða altarið og þjónustuna fyrir innan fortjaldið, þar skuluð þér gegna þjónustu. Ég fel yður prestdóminn og veiti yður þá þjónustu að gjöf. Komi nokkur annar þar nærri, skal hann lífi týna."
8 Drottinn sagði við Aron: "Sjá, ég gef þér það, sem varðveitast á af fórnargjöfum mínum. Af öllum helgigjöfum Ísraelsmanna gef ég þér og sonum þínum þær í þeirra hlut. Er það ævinleg skyldugreiðsla.
9 Þetta skal heyra þér af hinum háhelgu gjöfum, að því fráteknu, sem brenna skal: Allar fórnargjafir þeirra, bæði matfórnir, syndafórnir og sektarfórnir, er þeir færa mér í bætur. Eru þær háhelgar, og skulu heyra þér og sonum þínum.
10 Þú skalt eta þær á háhelgum stað. Allt karlkyn skal eta þær. Skulu þær vera þér heilagar.
11 Og þetta skal heyra þér sem fórnargjöf af öðrum gjöfum þeirra, af öllum veififórnum Ísraelsmanna: Ég gef þér þær, og sonum þínum og dætrum með þér. Er það ævinleg skyldugreiðsla. Allir hreinir menn í húsi þínu skulu eta þær.
12 Allt hið besta af olíunni og allt hið besta af aldinleginum og korninu, frumgróðann af því _ það er þeir gefa Drottni _ það hefi ég gefið þér.
13 Frumgróðinn af öllu því, er vex í landi þeirra og þeir færa Drottni, skal heyra þér. Allir hreinir menn í húsi þínu skulu eta hann.
14 Sérhver hlutur bannfærður í Ísrael skal heyra þér.
15 Allt það sem opnar móðurlíf, af öllu holdi, er menn færa Drottni, hvort heldur er menn eða skepnur, skal heyra þér. Þó skalt þú leysa láta frumburði manna, og frumburði óhreinna dýra skalt þú og leysa láta.
16 Og að því er snertir lausnargjald þeirra, þá skalt þú láta leysa þá, úr því þeir eru mánaðargamlir, eftir mati þínu, með fimm siklum, eftir helgidómssikli, tuttugu gerur í sikli.
17 En frumburði af nautum, sauðum eða geitum skalt þú ekki leysa láta. Þeir eru heilagir. Blóði þeirra skalt þú stökkva á altarið, og mörinn úr þeim skalt þú brenna sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.
18 En kjötið af þeim skal heyra þér. Það skal heyra þér, eins og veifibringan og hægra lærið.
19 Allar fórnargjafir af helgigjöfunum, sem Ísraelsmenn færa Drottni, hefi ég gefið þér og sonum þínum og dætrum með þér. Er það ævinleg skyldugreiðsla. Það er ævinlegur sáttmáli, helgaður með salti, fyrir augliti Drottins fyrir þig og niðja þína ásamt þér."
20 Drottinn sagði við Aron: "Þú skalt ekkert óðal eignast í landi þeirra og ekki eiga hlutskipti meðal þeirra. Ég er hlutskipti þitt og óðal þitt meðal Ísraelsmanna.
21 Og sjá, ég gef levítunum alla tíund í Ísrael til eignar fyrir þjónustuna, er þeir inna af hendi, þjónustuna við samfundatjaldið.
22 Og Ísraelsmenn skulu eigi framar koma nærri samfundatjaldinu, svo að þeir baki sér ekki synd og deyi.
23 Heldur skulu levítarnir gegna þjónustu við samfundatjaldið, og skulu sæta hegningu fyrir það, sem þeim verður á. Skal það vera ævarandi lögmál hjá yður frá kyni til kyns, en þeir skulu ekki eiga óðul meðal Ísraelsmanna.
24 Því að tíund Ísraelsmanna, er þeir færa Drottni að fórnargjöf, hefi ég gefið levítunum til eignar, þess vegna hefi ég sagt þeim, að þeir skuli ekki eiga óðul meðal Ísraelsmanna."
25 Drottinn talaði við Móse og sagði:
26 "Þú skalt tala við levítana og segja við þá: Þegar þér meðtakið tíundina frá Ísraelsmönnum, er ég hefi gefið yður til eignar og þeir skulu greiða yður, þá skuluð þér færa Drottni fórnargjöf af henni, tíund af tíundinni.
27 Og þessi fórnargjöf yðar skal reiknast yður sem væri það korn af láfanum eða gnótt úr vínþrönginni.
28 Þannig skuluð og þér færa Drottni fórnargjöf af allri þeirri tíund, er þér meðtakið frá Ísraelsmönnum, og af henni skuluð þér fá Aroni presti fórnargjöf Drottins.
29 Af öllu því, sem yður gefst, skuluð þér færa Drottni fórnargjöf, af öllu hinu besta af því, helgigjöfina, sem af því skal fram bera.
30 Og þú skalt segja við þá: Þegar þér hafið fram borið hið besta af því, þá skal hitt reiknast levítunum sem afurðir úr láfanum eða afurðir úr vínþrönginni.
31 Þér megið eta það hvar sem þér viljið, bæði þér og skyldulið yðar, því að það eru laun yðar fyrir þjónustu yðar við samfundatjaldið.
32 Og þér munuð ekki baka yður synd vegna þess, ef þér fram berið hið besta af því, og þá munuð þér eigi vanhelga helgigjafir Ísraelsmanna og eigi deyja."
19 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
2 "Þetta er ákvæði í lögmálinu, er Drottinn hefir boðið, er hann sagði: Seg við Ísraelsmenn, að þeir skuli færa þér rauða kvígu gallalausa, sem engin lýti hefir og ekki hefir verið leidd undir ok.
3 Skuluð þér fá hana Eleasar presti, og skal því næst færa hana út fyrir herbúðirnar og slátra henni í augsýn hans.
4 Og Eleasar prestur skal taka af blóði hennar með fingri sínum og stökkva sjö sinnum af blóði hennar mót framhlið samfundatjaldsins.
5 Síðan skal brenna kvíguna fyrir augum hans. Skal brenna bæði húðina, kjötið og blóðið, ásamt gorinu.
6 Þá skal prestur taka sedrusvið, ísópsvönd og skarlat og kasta á bálið, þar sem kvígan brennur.
7 Því næst skal prestur þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar. Þó skal prestur vera óhreinn til kvelds.
8 Sömuleiðis skal sá, sem brennir hana, þvo klæði sín í vatni og lauga líkama sinn í vatni. Hann skal og vera óhreinn til kvelds.
9 Síðan skal einhver, sem hreinn er, safna saman öskunni af kvígunni og láta hana á hreinan stað fyrir utan herbúðirnar, svo að hún sé geymd handa söfnuði Ísraelsmanna í hreinsunarvatn. Þetta er syndafórn.
10 En sá sem safnar saman öskunni af kvígunni, skal þvo klæði sín og vera óhreinn til kvelds. Þetta skal vera ævinlegt lögmál fyrir Ísraelsmenn og fyrir þá útlendinga, er dvelja meðal þeirra:
11 Sá sem snertir lík, af hvaða manni sem vera skal, hann skal vera óhreinn sjö daga.
12 Hann skal syndhreinsa sig með hreinsunarvatninu á þriðja degi og á sjöunda degi, og er þá hreinn. En ef hann syndhreinsar sig ekki á þriðja degi og á sjöunda degi, mun hann eigi hreinn verða.
13 Hver sem snertir dauðan mann, lík af dauðum manni, og syndhreinsar sig ekki, hann saurgar búð Drottins, og skal sá maður upprættur verða úr Ísrael. Af því að hreinsunarvatninu var ekki stökkt á hann, er hann óhreinn. Óhreinleiki hans loðir enn við hann.
14 Þetta skulu lög vera, þegar maður deyr í tjaldi: Hver sem inn í tjaldið gengur, og hver sem í tjaldinu er, skal vera óhreinn sjö daga.
15 Og hvert opið ílát, sem ekki er bundið yfir, skal vera óhreint.
16 Og hver sem úti á víðavangi snertir lík af vegnum manni eða látnum manni eða mannabein eða gröf, hann skal vera óhreinn sjö daga.
17 En handa þeim, er saurgað hefir sig, skal taka ösku af brenndu syndafórninni, láta hana í ker og hella yfir hana rennandi vatni.
18 Síðan skal hreinn maður taka ísópsvönd, dýfa í vatnið og stökkva á tjaldið og öll ílátin og á þá menn, sem þar voru inni, svo og á þann, er snert hefir mannabein eða lík af vegnum manni eða látnum eða gröf.
19 Og skal hinn hreini stökkva á hinn óhreina á þriðja degi og á sjöunda degi, og hann skal syndhreinsa hann á sjöunda degi. Því næst skal hann þvo klæði sín og lauga sig í vatni, og er hann þá hreinn að kveldi.
20 En ef einhver saurgar sig og syndhreinsar sig ekki, _ sá maður skal upprættur verða úr söfnuðinum, því að hann hefir saurgað helgidóm Drottins. Hreinsunarvatni hefir ekki verið stökkt á hann, hann er óhreinn.
21 Skal þetta vera yður ævinlegt lögmál. Sá sem stökkvir hreinsunarvatninu, skal þvo klæði sín, og sá sem snertir hreinsunarvatnið, skal vera óhreinn til kvelds.
22 Og allt það, sem hinn óhreini snertir, skal vera óhreint, og ef maður snertir hann, skal hann vera óhreinn til kvelds."
by Icelandic Bible Society