Matteusarguðspjall 15-17
Icelandic Bible
15 Nú komu til Jesú farísear og fræðimenn frá Jerúsalem og sögðu:
2 "Hvers vegna brjóta lærisveinar þínir erfikenning forfeðranna? Þeir taka ekki handlaugar, áður en þeir neyta matar."
3 Hann svaraði þeim: "Hvers vegna brjótið þér sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar yðar?
4 Guð hefur sagt: ,Heiðra föður þinn og móður,` og: ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.`
5 En þér segið: Hver sem segir við föður sinn eða móður: ,Það sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er musterisfé,`
6 hann á ekki að heiðra föður sinn [eða móður]. Þér ógildið orð Guðs með erfikenning yðar.
7 Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir:
8 Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.
9 Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar."
10 Og hann kallaði til sín mannfjöldann og sagði: "Heyrið og skiljið.
11 Ekki saurgar það manninn, sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn, sem út fer af munni."
12 Þá komu lærisveinar hans og sögðu við hann: "Veistu, að farísearnir hneyksluðust, þegar þeir heyrðu orð þín?"
13 Hann svaraði: "Sérhver jurt, sem faðir minn himneskur hefur eigi gróðursett, mun upprætt verða.
14 Látið þá eiga sig! Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju."
15 Þá sagði Pétur við hann: "Skýrðu fyrir oss líkinguna."
16 Hann svaraði: "Eruð þér líka skilningslausir ennþá?
17 Skiljið þér ekki, að allt sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni?
18 En það sem út fer af munni, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn.
19 Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi.
20 Þetta er það, sem saurgar manninn. En að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann."
21 Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar.
22 Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda."
23 En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum."
24 Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt."
25 Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!"
26 Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."
27 Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra."
28 Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.
29 Þaðan fór Jesús og kom að Galíleuvatni. Og hann gekk upp á fjall og settist þar.
30 Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans, og hann læknaði þá.
31 Fólkið undraðist, þegar það sá mállausa mæla, fatlaða heila, halta ganga og blinda sjá. Og þeir lofuðu Guð Ísraels.
32 Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði: "Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. Ég vil ekki láta þá fara fastandi frá mér, þeir gætu örmagnast á leiðinni."
33 Lærisveinarnir sögðu: "Hvar fáum vér nóg brauð til að metta allt þetta fólk hér í óbyggðum?"
34 Jesús spyr: "Hve mörg brauð hafið þér?" Þeir svara: "Sjö, og fáeina smáfiska."
35 Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina,
36 tók brauðin sjö og fiskana, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinunum, en lærisveinarnir fólkinu.
37 Allir neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur fullar.
38 En þeir, sem neytt höfðu, voru fjórar þúsundir karlmanna auk kvenna og barna.
39 Síðan lét hann fólkið fara, sté í bátinn og kom í Magadanbyggðir.
16 Þá komu farísear og saddúkear, vildu freista hans og báðu hann að sýna sér tákn af himni.
2 Hann svaraði þeim: "Að kvöldi segið þér: ,Það verður góðviðri, því að roði er á lofti.`
3 Og að morgni: ,Illviðri í dag, himinninn er rauður og þungbúinn.` Útlit loftsins kunnið þér að ráða, en ekki tákn tímanna.
4 Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar." Síðan skildi hann við þá og fór.
5 Þegar lærisveinarnir fóru yfir um vatnið, höfðu þeir gleymt að taka með sér brauð.
6 Jesús sagði við þá: "Gætið yðar, varist súrdeig farísea og saddúkea."
7 En þeir ræddu sín á milli, að þeir hefðu ekki tekið brauð.
8 Jesús varð þess vís og sagði: "Hvað eruð þér að tala um það, trúlitlir menn, að þér hafið ekki brauð?
9 Skynjið þér ekki enn? Minnist þér ekki brauðanna fimm handa fimm þúsundum og hve margar körfur þér tókuð saman?
10 Eða brauðanna sjö handa fjórum þúsundum og hve margar körfur þér tókuð saman?
11 Hvernig má það vera, að þér skynjið ekki, að ég var ekki að tala um brauð við yður. Varist súrdeig farísea og saddúkea."
12 Þá skildu þeir, að hann hafði ekki talað um að varast súrdeig í brauði, heldur kenningu farísea og saddúkea.
13 Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: "Hvern segja menn Mannssoninn vera?"
14 Þeir svöruðu: "Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum."
15 Hann spyr: "En þér, hvern segið þér mig vera?"
16 Símon Pétur svarar: "Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs."
17 Þá segir Jesús við hann: "Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum.
18 Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.
19 Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum."
20 Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum, að hann væri Kristur.
21 Upp frá þessu tók Jesús að sýna lærisveinum sínum fram á, að hann ætti að fara til Jerúsalem, líða þar margt af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi.
22 En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: "Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma."
23 Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: "Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er."
24 Þá mælti Jesús við lærisveina sína: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.
25 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.
26 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?
27 Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans.
28 Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu."
17 Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman.
2 Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós.
3 Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann.
4 Pétur tók til máls og sagði við Jesú: "Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."
5 Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!"
6 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög.
7 Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: "Rísið upp, og óttist ekki."
8 En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan.
9 Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: "Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum."
10 Lærisveinarnir spurðu hann: "Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?"
11 Hann svaraði: "Víst kemur Elía og færir allt í lag.
12 En ég segi yður: Elía er þegar kominn, og menn þekktu hann ekki, heldur gjörðu honum allt sem þeir vildu. Eins mun og Mannssonurinn píslir þola af hendi þeirra."
13 Þá skildu lærisveinarnir, að hann hafði talað við þá um Jóhannes skírara.
14 Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum
15 og sagði: "Herra, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn.
16 Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann."
17 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín."
18 Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu.
19 Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: "Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út?"
20 Hann svaraði þeim: "Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. [
21 En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.]"
22 Þegar þeir voru saman í Galíleu, sagði Jesús við þá: "Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur,
23 og þeir munu lífláta hann, en á þriðja degi mun hann upp rísa." Þeir urðu mjög hryggir.
24 Þá er þeir komu til Kapernaum, gengu menn þeir, sem heimta inn musterisgjaldið, til Péturs og spurðu: "Geldur meistari yðar eigi musterisgjaldið?"
25 Hann kvað svo vera. En er hann kom inn, tók Jesús fyrr til máls og mælti: "Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?"
26 "Af vandalausum," sagði Pétur. Jesús mælti: "Þá eru börnin frjáls.
27 En til þess vér hneykslum þá ekki, skaltu fara niður að vatni og renna öngli, taktu síðan fyrsta fiskinn, sem þú dregur, opna munn hans og muntu finna pening. Tak hann og greið þeim fyrir mig og þig."
by Icelandic Bible Society