Jobsbók 35-37
Icelandic Bible
35 Og Elíhú tók enn til máls og sagði:
2 Hyggur þú það vera rétt, kallar þú það "réttlæti mitt fyrir Guði,"
3 að þú spyr, hvað það stoði þig? "Hvaða gagn hefi ég af því, fremur en ef ég syndgaði?"
4 Ég ætla að veita þér andsvör í móti og vinum þínum með þér.
5 Horf þú á himininn og sjá, virtu fyrir þér skýin, sem eru hátt yfir þér.
6 Syndgir þú, hvað getur þú gjört honum? Og séu afbrot þín mörg, hvaða skaða gjörir þú honum?
7 Sért þú ráðvandur, hvað gefur þú honum, eða hvað þiggur hann af þinni hendi?
8 Mann, eins og þig, varðar misgjörð þín og mannsins barn ráðvendni þín.
9 Menn æpa að sönnu undan hinni margvíslegu kúgan, kveina undan armlegg hinna voldugu,
10 en enginn þeirra segir: "Hvar er Guð, skapari minn, sá er leiðir fram lofsöngva um nótt,
11 sem fræðir oss meira en dýr merkurinnar og gjörir oss vitrari en fugla loftsins?"
12 Þá æpa menn _ en hann svarar ekki _ undan drambsemi hinna vondu.
13 Nei, hégómamál heyrir Guð eigi, og hinn Almáttki gefur því engan gaum,
14 hvað þá, er þú segir, að þú sjáir hann ekki. Málið er lagt fram fyrir hann, og þú átt að bíða eftir honum.
15 En nú, af því að reiði hans hefir eigi refsað, á hann alls eigi að hafa vitað neitt um yfirsjónina!
16 En Job opnar munninn til að mæla hégóma, heldur langar ræður í vanhyggju sinni.
36 Og Elíhú hélt áfram og sagði:
2 Haf þolinmæði við mig enn stutta stund, að ég megi fræða þig, því að enn má margt segja Guði til varnar.
3 Ég ætla að sækja þekking mína langar leiðir og sanna, að skapari minn hafi á réttu að standa.
4 Því að vissulega fer ég eigi með ósannindi, maður með fullkominni þekking stendur frammi fyrir þér.
5 Sjá, Guð er voldugur, þó fyrirlítur hann engan, voldugur að andans krafti.
6 Hann viðheldur ekki lífi hins óguðlega, en veitir hinum voluðu rétt þeirra.
7 Hann hefir ekki augun af hinum réttláta, og hjá konungum í hásætinu lætur hann þá sitja að eilífu, til þess að þeir séu hátt upp hafnir.
8 Og þótt þeir verði viðjum reyrðir, veiddir í snörur eymdarinnar,
9 og hann setur þeim fyrir sjónir gjörðir þeirra og afbrot þeirra að þeir breyttu drambsamlega,
10 og hann opnar eyru þeirra fyrir umvönduninni og segir að þeir skuli snúa sér frá ranglæti, _
11 ef þeir þá hlýða og þjóna honum, þá eyða þeir dögum sínum í velgengni og árum sínum í unaði.
12 En hlýði þeir ekki, þá farast þeir fyrir skotvopnum, gefa upp andann í vanhyggju sinni.
13 Því að vonskufullir í hjarta ala þeir með sér reiði, hrópa eigi á hjálp, þegar hann fjötrar þá.
14 Önd þeirra deyr í æskublóma og líf þeirra eins og hórsveina.
15 En hann frelsar hinn bágstadda með bágindum hans og opnar eyru þeirra með þrengingunni.
16 Einnig þig ginnir hann út úr gini neyðarinnar út á víðlendi, þar sem engin þrengsli eru, og það sem kemur á borð þitt, er fullt af feiti.
17 En ef þú vinnur til dóms hins óguðlega, þá munu dómur og réttur hremma þig.
18 Lát því eigi reiðina ginna þig til spotts, og lát eigi stærð lausnargjaldsins tæla þig.
19 Mun hróp þitt koma þér úr nauðunum eða nokkur áreynsla krafta þinna?
20 Þráðu eigi nóttina, þá er þjóðir sópast burt af stöðvum sínum.
21 Gæt þín, snú þér eigi að ranglæti, því að það kýst þú heldur en að líða.
22 Sjá, Guð er háleitur í framkvæmdum máttar síns, hver er slíkur kennari sem hann?
23 Hver hefir fyrirskipað honum veg hans, og hver dirfist að segja: "Þú hefir gjört rangt"?
24 Minnstu þess, að þú vegsamir verk hans, það er mennirnir syngja um lofkvæði.
25 Allir menn horfa með fögnuði á það, dauðlegur maðurinn lítur það úr fjarska.
26 Já, Guð er mikill og vér þekkjum hann ekki, tala ára hans órannsakanleg.
27 Því að hann dregur upp vatnsdropana og lætur ýra úr þoku sinni,
28 regnið, sem skýin láta niður streyma, drjúpa yfir marga menn.
29 Og hver skilur útbreiðslu skýjanna og dunurnar í tjaldi hans?
30 Sjá, hann breiðir ljós sitt út kringum sig og hylur djúp hafsins.
31 Því að með því dæmir hann þjóðirnar, með því veitir hann fæðu í ríkum mæli.
32 Hendur sínar hylur hann ljósi og býður því út gegn fjandmanni sínum.
33 Þruma hans boðar komu hans, hans sem lætur reiði sína geisa gegn ranglætinu.
37 Já, yfir þessu titrar hjarta mitt og hrökkur upp úr stað sínum.
2 Heyrið, heyrið drunur raddar hans og hvininn, sem út fer af munni hans.
3 Undir öllum himninum lætur hann eldinguna þjóta og leiftur sitt út á jaðra jarðarinnar.
4 Á eftir því kemur öskrandi skrugga, hann þrumar með sinni tignarlegu raust og heldur eldingunum ekki aftur, þá er raust hans lætur til sín heyra.
5 Guð þrumar undursamlega með raust sinni, hann sem gjörir mikla hluti, er vér eigi skiljum.
6 Því að hann segir við snjóinn: "Fall þú á jörðina," og eins við hellirigninguna og hennar dynjandi helliskúrir.
7 Hann innsiglar hönd sérhvers manns, til þess að allir menn viðurkenni verk hans.
8 Þá fara villidýrin í fylgsni sín og hvílast í bælum sínum.
9 Stormurinn kemur úr forðabúrinu og kuldinn af norðanvindunum.
10 Fyrir andgust Guðs verður ísinn til, og víð vötnin eru lögð í læðing.
11 Hann hleður skýin vætu, tvístrar leifturskýi sínu víðsvegar.
12 En það snýst í allar áttir, eftir því sem hann leiðir það, til þess að það framkvæmi allt það er hann býður því, á yfirborði allrar jarðarinnar.
13 Hann lætur því ljósta niður, hvort sem það er til hirtingar eða til að vökva jörðina eða til að blessa hana.
14 Hlýð þú á þetta, Job, stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.
15 Skilur þú, hvernig Guð felur þeim hlutverk þeirra og lætur leiftur skýja sinna skína?
16 Skilur þú, hvernig skýin svífa, dásemdir hans, sem fullkominn er að vísdómi,
17 þú, sem fötin hitna á, þá er jörðin mókir í sunnanmollu?
18 Þenur þú út með honum heiðhimininn, sem fastur er eins og steyptur spegill?
19 Kenn oss, hvað vér eigum að segja við hann! Vér megnum ekkert fram að færa fyrir myrkri.
20 Á að segja honum, að ég ætli að tala? Eða hefir nokkur sagt, að hann óski að verða gjöreyddur?
21 Og nú sjá menn að sönnu ekki ljósið, sem skín skært að skýjabaki, en vindurinn þýtur áfram og sópar skýjunum burt.
22 Gullið kemur úr norðri, um Guð lykur ógurlegur ljómi.
23 Vér náum eigi til hins Almáttka, til hans, sem er mikill að mætti. En réttinn og hið fulla réttlæti vanrækir hann ekki.
24 Fyrir því óttast mennirnir hann, en hann lítur ekki við neinum sjálfbirgingum.
by Icelandic Bible Society