Fyrsta bók Móse 1-3
Icelandic Bible
1 Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.
2 Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum.
3 Guð sagði: "Verði ljós!" Og það varð ljós.
4 Guð sá, að ljósið var gott, og Guð greindi ljósið frá myrkrinu.
5 Og Guð kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur.
6 Guð sagði: "Verði festing milli vatnanna, og hún greini vötn frá vötnum."
7 Þá gjörði Guð festinguna og greindi vötnin, sem voru undir festingunni, frá þeim vötnum, sem voru yfir henni. Og það varð svo.
8 Og Guð kallaði festinguna himin. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn annar dagur.
9 Guð sagði: "Safnist vötnin undir himninum í einn stað, svo að þurrlendið sjáist." Og það varð svo.
10 Guð kallaði þurrlendið jörð, en safn vatnanna kallaði hann sjó. Og Guð sá, að það var gott.
11 Guð sagði: "Láti jörðin af sér spretta græn grös, sáðjurtir og aldintré, sem hvert beri ávöxt eftir sinni tegund með sæði í á jörðinni." Og það varð svo.
12 Jörðin lét af sér spretta græn grös, jurtir með sæði í, hverja eftir sinni tegund, og aldintré með sæði í sér, hvert eftir sinni tegund. Og Guð sá, að það var gott.
13 Það varð kveld og það varð morgunn, hinn þriðji dagur.
14 Guð sagði: "Verði ljós á festingu himinsins, að þau greini dag frá nóttu og séu til tákns og til að marka tíðir, daga og ár.
15 Og þau séu ljós á festingu himinsins til að lýsa jörðina." Og það varð svo.
16 Guð gjörði tvö stóru ljósin: hið stærra ljósið til að ráða degi og hið minna ljósið til að ráða nóttu, svo og stjörnurnar.
17 Og Guð setti þau á festingu himinsins, að þau skyldu lýsa jörðinni
18 og ráða degi og nóttu og greina sundur ljós og myrkur. Og Guð sá, að það var gott.
19 Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fjórði dagur.
20 Guð sagði: "Vötnin verði kvik af lifandi skepnum, og fuglar fljúgi yfir jörðina undir festingu himinsins."
21 Þá skapaði Guð hin stóru lagardýr og allar hinar lifandi skepnur, sem hrærast og vötnin eru kvik af, eftir þeirra tegund, og alla fleyga fugla eftir þeirra tegund. Og Guð sá, að það var gott.
22 Og Guð blessaði þau og sagði: "Frjóvgist og vaxið og fyllið vötn sjávarins, og fuglum fjölgi á jörðinni."
23 Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fimmti dagur.
24 Guð sagði: "Jörðin leiði fram lifandi skepnur, hverja eftir sinni tegund: fénað, skriðkvikindi og villidýr, hvert eftir sinni tegund." Og það varð svo.
25 Guð gjörði villidýrin, hvert eftir sinni tegund, fénaðinn eftir sinni tegund og alls konar skriðkvikindi jarðarinnar eftir sinni tegund. Og Guð sá, að það var gott.
26 Guð sagði: "Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni."
27 Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.
28 Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: "Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni."
29 Og Guð sagði: "Sjá, ég gef ykkur alls konar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og alls konar tré, sem bera ávöxtu með sæði í. Það sé ykkur til fæðu.
30 Og öllum villidýrum og öllum fuglum loftsins og öllum skriðkvikindum á jörðinni, öllu því, sem hefir lifandi sál, gef ég öll grös og jurtir til fæðu." Og það varð svo.
31 Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn sjötti dagur.
2 Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði.
2 Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört.
3 Og Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Guð af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört.
4 Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar, er þau voru sköpuð.
5 Þegar Drottinn Guð gjörði jörðina og himininn, var enn alls enginn runnur merkurinnar til á jörðinni, og engar jurtir spruttu enn á mörkinni, því að Drottinn Guð hafði ekki enn látið rigna á jörðina og engir menn voru til þess að yrkja hana,
6 en þoku lagði upp af jörðinni, og vökvaði hún allt yfirborð jarðarinnar.
7 Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.
8 Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað.
9 Og Drottinn Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af, og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og skilningstréð góðs og ills.
10 Fljót rann frá Eden til að vökva aldingarðinn, og þaðan kvíslaðist það og varð að fjórum stórám.
11 Hin fyrsta heitir Píson; hún fellur um allt landið Havíla, þar sem gullið fæst.
12 Og gull lands þess er gott. Þar fæst bedolakharpeis og sjóamsteinar.
13 Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland.
14 Þriðja stóráin heitir Kíddekel. Hún fellur fyrir vestan Assýríu. Fjórða stóráin er Efrat.
15 Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.
16 Og Drottinn Guð bauð manninum og sagði: "Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild,
17 en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja."
18 Drottinn Guð sagði: "Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi."
19 Þá myndaði Drottinn Guð af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og lét þau koma fyrir manninn til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldi vera nafn þeirra.
20 Og maðurinn gaf nafn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar. En meðhjálp fyrir mann fann hann enga við sitt hæfi.
21 Þá lét Drottinn Guð fastan svefn falla á manninn. Og er hann var sofnaður, tók hann eitt af rifjum hans og fyllti aftur með holdi.
22 Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu, er hann hafði tekið úr manninum, og leiddi hana til mannsins.
23 Þá sagði maðurinn: "Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin."
24 Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.
25 Og þau voru bæði nakin, maðurinn og kona hans, og blygðuðust sín ekki.
3 Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem Drottinn Guð hafði gjört. Og hann mælti við konuna: "Er það satt, að Guð hafi sagt: ,Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum`?"
2 Þá sagði konan við höggorminn: "Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta,
3 en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, ,af honum,` sagði Guð, ,megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja."`
4 Þá sagði höggormurinn við konuna: "Vissulega munuð þið ekki deyja!
5 En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills."
6 En er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át.
7 Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur.
8 En er þau heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum, þá reyndi maðurinn og kona hans að fela sig fyrir Drottni Guði millum trjánna í aldingarðinum.
9 Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: "Hvar ertu?"
10 Hann svaraði: "Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég er nakinn, og ég faldi mig."
11 En hann mælti: "Hver hefir sagt þér, að þú værir nakinn? Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?"
12 Þá svaraði maðurinn: "Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át."
13 Þá sagði Drottinn Guð við konuna: "Hvað hefir þú gjört?" Og konan svaraði: "Höggormurinn tældi mig, svo að ég át."
14 Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: "Af því að þú gjörðir þetta, skalt þú vera bölvaður meðal alls fénaðarins og allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skalt þú skríða og mold eta alla þína lífdaga.
15 Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess."
16 En við konuna sagði hann: "Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér."
17 Og við manninn sagði hann: "Af því að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af því tré, sem ég bannaði þér, er ég sagði: ,Þú mátt ekki eta af því,` þá sé jörðin bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga.
18 Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar.
19 Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!"
20 Og maðurinn nefndi konu sína Evu, því að hún varð móðir allra, sem lifa.
21 Og Drottinn Guð gjörði manninum og konu hans skinnkyrtla og lét þau klæðast þeim.
22 Drottinn Guð sagði: "Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!"
23 Þá lét Drottinn Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af.
24 Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré.
by Icelandic Bible Society