Esrabók 8-10
Icelandic Bible
8 Þessir eru ætthöfðingjar þeirra _ og þetta er ættarskrá þeirra _ er fóru með mér heim frá Babýlon, þá er Artahsasta konungur sat að völdum:
2 Af niðjum Pínehasar: Gersóm. Af niðjum Ítamars: Daníel. Af niðjum Davíðs: Hattús,
3 sonur Sekanja. Af niðjum Parós: Sakaría og með honum skráðir af karlmönnum 150.
4 Af niðjum Pahat-Móabs: Eljehóenaí Serajason og með honum 200 karlmenn.
5 Af niðjum Sattú: Sekanja Jahasíelsson og með honum 300 karlmenn.
6 Af niðjum Adíns: Ebed Jónatansson og með honum fimm tugir karlmanna.
7 Af niðjum Elams: Jesaja Ataljason og með honum sjö tugir karlmanna.
8 Af niðjum Sefatja: Sebadía Míkaelsson og með honum átta tugir karlmanna.
9 Af niðjum Jóabs: Óbadía Jehíelsson og með honum 218 karlmenn.
10 Af niðjum Baní: Selómít Jósifjason og með honum 160 karlmenn.
11 Af niðjum Bebaí: Sakaría Bebaíson og með honum 28 karlmenn.
12 Af niðjum Asgads: Jóhanan Hakkatansson og með honum 110 karlmenn.
13 Af niðjum Adóníkams, síðkomnir, og þessi voru nöfn þeirra: Elífelet, Jeíel og Semaja, og með þeim 60 karlmenn.
14 Af niðjum Bigvaí: Útaí og Sabbúd og með þeim 70 karlmenn.
15 Ég safnaði þeim saman við fljótið, sem rennur um Ahava, og lágum vér þar í tjöldum í þrjá daga. En er ég hugði að fólkinu og prestunum, þá fann ég þar engan af niðjum Leví.
16 Þá sendi ég eftir Elíeser, Aríel, Semaja, Elnatan, Jaríb, Elnatan, Natan, Sakaría og Mesúllam, ætthöfðingjum, og Jójaríb og Elnatan, kennurum,
17 og bauð þeim að fara til Íddós, höfðingja í Kasifjabyggð, og lagði þeim orð í munn, er þeir skyldu flytja Íddó, bræðrum hans og musterisþjónunum í Kasifjabyggð, til þess að þeir mættu útvega oss þjónustumenn í musteri Guðs vors.
18 Og með því að hönd Guðs vors hvíldi náðarsamlega yfir oss, þá færðu þeir oss vel kunnandi mann af niðjum Mahelí Levísonar, Ísraelssonar, og Serebja og sonu hans og bræður _ átján alls,
19 og Hasabja og með honum Jesaja af niðjum Merarí, bræður hans og sonu þeirra _ tuttugu alls,
20 og af musterisþjónunum, sem Davíð og höfðingjar hans höfðu sett til að þjóna levítunum: tvö hundruð og tuttugu musterisþjóna. Þeir voru allir nefndir með nafni.
21 Og ég lét boða þar föstu við fljótið Ahava, til þess að vér skyldum auðmýkja oss fyrir Guði vorum til að biðja hann um farsællega ferð fyrir oss, börn vor og allar eigur vorar.
22 Því að ég fyrirvarð mig að biðja konung um herlið og riddara til verndar fyrir óvinum á leiðinni. Því að vér höfum sagt konungi: "Hönd Guðs vors hvílir yfir öllum þeim, sem leita hans, þeim til góðs, en máttur hans og reiði yfir öllum þeim, sem yfirgefa hann."
23 Vér föstuðum því og báðum Guð um þetta, og hann bænheyrði oss.
24 Síðan valdi ég tólf úr af prestahöfðingjunum og Serebja, Hasabja og með þeim tíu af bræðrum þeirra,
25 og vó þeim út silfrið og gullið og áhöldin _ gjöfina til húss Guðs vors, er konungur og ráðgjafar hans og höfðingjar hans og allir Ísraelsmenn, þeir er þar voru, höfðu gefið.
26 Og þannig vó ég í hendur þeirra sex hundruð og fimmtíu talentur í silfri, hundrað talentur í silfuráhöldum, hundrað talentur í gulli.
27 Auk þess tuttugu gullkönnur, þúsund daríka virði, og tvö ker af gullgljáum góðum eiri, dýrmæt sem gull.
28 Og ég sagði við þá: "Þér eruð helgaðir Drottni, og áhöldin eru heilög, og silfrið og gullið eru sjálfviljagjöf til Drottins, Guðs feðra yðar.
29 Gætið því þessa og varðveitið það, þar til er þér vegið það aftur út í augsýn prestahöfðingjanna og levítanna og ætthöfðingja Ísraels í Jerúsalem í herbergi musteris Drottins."
30 Síðan tóku prestarnir og levítarnir við silfrinu og gullinu og áhöldunum eftir vigt til þess að flytja það til Jerúsalem, til musteris Guðs vors.
31 Því næst lögðum vér upp frá fljótinu Ahava hinn tólfta dag hins fyrsta mánaðar og héldum til Jerúsalem, og hönd Guðs vors hvíldi yfir oss, svo að hann frelsaði oss undan valdi óvina og stigamanna.
32 Og vér komum til Jerúsalem og dvöldumst þar í þrjá daga.
33 En á fjórða degi var silfrið og gullið og áhöldin vegin út í musteri Guðs vors í hendur Meremóts prests Úríasonar, _ og með honum var Eleasar Pínehasson, og með þeim voru levítarnir Jósabad Jesúason og Nóadja Binnúíson _
34 allt saman með tölu og vigt. Og öll vigtin var þá skrifuð upp.
35 Þeir er heim komu úr herleiðingunni, þeir hernumdu, er aftur sneru, færðu Ísraels Guði brennifórnir: tólf naut fyrir allan Ísrael, níutíu og sex hrúta, sjötíu og sjö lömb, tólf hafra í syndafórn _ allt sem brennifórn Drottni til handa.
36 Og þeir fengu jörlum konungs og landstjórunum í héraðinu hinumegin Fljóts konungsboðin, og þeir aðstoðuðu lýðinn og musteri Guðs.
9 Þegar þessu var lokið, komu höfðingjarnir til mín og sögðu: "Ísraelslýður og prestarnir og levítarnir hafa ekki haldið sér frá hinum heiðnu íbúum landsins, sem skylt hefði verið vegna viðurstyggða þeirra, frá Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum, Ammónítum, Móabítum, Egyptum og Amórítum,
2 því að þeir hafa tekið sér og sonum sínum konur af dætrum þeirra, og þannig hefir hinn heilagi ættstofn haft mök við hina heiðnu íbúa landsins, og hafa höfðingjarnir og yfirmennirnir gengið á undan í þessu tryggðrofi."
3 Þegar ég heyrði þetta, reif ég kyrtil minn og yfirhöfn mína, reytti hár mitt og skegg og sat agndofa.
4 Þá söfnuðust til mín allir þeir, er óttuðust orð Ísraels Guðs, út af tryggðrofi hinna hernumdu, en ég sat agndofa allt til kveldfórnar.
5 En er að kveldfórninni var komið, stóð ég upp frá föstu minni og reif um leið enn að nýju kyrtil minn og yfirhöfn mína. Síðan féll ég á kné, fórnaði höndum til Drottins, Guðs míns,
6 og sagði: "Guð minn, ég fyrirverð mig og blygðast mín að hefja auglit mitt til þín, ó minn Guð! Því að misgjörðir vorar eru vaxnar oss yfir höfuð og sekt vor orðin svo mikil, að hún nær til himins.
7 Allt frá dögum feðra vorra fram á þennan dag höfum vér verið í mikilli sekt, og vegna misgjörða vorra höfum vér verið ofurseldir, konungar vorir og prestar vorir, í hendur konunga heiðinna landa, undir sverðin, til herleiðingar, til ráns og til háðungar, eins og enn í dag á sér stað.
8 En nú höfum vér um örskamma stund hlotið miskunn frá Drottni, Guði vorum, með því að hann lét oss eftir verða leifar, er af komust, og veitti oss bólfestu á sínum heilaga stað, til þess að Guð vor léti gleðina skína úr augum vorum og veitti oss ofurlítinn nýjan lífsþrótt í ánauð vorri.
9 Því að ánauðugir erum vér. Þó hefir Guð vor eigi yfirgefið oss í ánauð vorri, heldur hagað því svo, að vér fundum náð fyrir augliti Persakonunga, svo að þeir veittu oss nýjan lífsþrótt til að koma upp musteri Guðs vors og reisa það úr rústum og útvega oss umgirtan bústað í Júda og Jerúsalem.
10 Og hvað eigum vér nú að segja, Guð vor, eftir allt þetta? Því að vér höfum yfirgefið boðorð þín,
11 sem þú hefir fyrir oss lagt fyrir munn þjóna þinna, spámannanna, er þú sagðir: ,Landið, er þér haldið inn í til þess að taka það til eignar, er óhreint land vegna saurugleika hinna heiðnu landsbúa, vegna viðurstyggða þeirra, er þeir í saurgun sinni hafa fyllt það með landshornanna milli.
12 Fyrir því skuluð þér hvorki gefa dætur yðar sonum þeirra né taka dætur þeirra sonum yðar að konum, og um aldur og ævi skuluð þér ekki leitast við að efla farsæld þeirra og velgengni, til þess að þér eflist og fáið að njóta landsins gæða og megið láta börnum yðar það eftir í arf um aldur og ævi.`
13 Og eftir allt það, sem yfir oss er komið vegna vondra verka vorra og vorrar miklu sektar _ því að þú, Guð vor, hefir vægt oss og ekki hegnt oss, svo sem vér áttum skilið fyrir misgjörð vora, og veitt oss slíkar leifar _
14 ættum vér þá enn að nýju að brjóta boðorð þín og mægjast við þær þjóðir, sem aðhafast slíkar svívirðingar? Mundir þú eigi reiðast oss, þar til er vér værum gjöreyddir, svo að engar leifar væru eftir né nokkrir þeir, er undan hefðu komist?
15 Drottinn, Ísraels Guð, þú ert réttlátur! Vér erum eftir skildir sem leifar, er undan hafa komist, svo sem sjá má þann dag í dag. Sjá, vér stöndum frammi fyrir þér í sekt vorri, því að það er eigi unnt að standast fyrir þér vegna þessa."
10 Meðan Esra baðst þannig fyrir og bar fram játning sína grátandi og knéfallandi frammi fyrir musteri Guðs, safnaðist til hans mjög mikill skari Ísraelsmanna, karlar og konur og börn, því að fólkið grét hástöfum.
2 Þá tók Sekanja Jehíelsson, af niðjum Elams, til máls og sagði við Esra: "Vér höfum brotið á móti Guði vorum, þar sem vér höfum gengið að eiga útlendar konur af hinum heiðnu íbúum landsins. Þó er ekki öll von úti fyrir Ísrael í þessu efni.
3 Fyrir því skulum vér nú gjöra sáttmála við Guð vorn um að reka burt allar þessar konur og börn þau, er af þeim eru fædd, eftir ráðum herra míns og þeirra manna, er óttast boðorð Guðs vors, og það skal verða farið eftir lögmálinu.
4 Rís upp, því að mál þetta hvílir á þér, og vér munum styðja þig. Hertu nú upp hugann og framkvæmdu þetta."
5 Þá reis Esra upp og lét presta- og levítahöfðingjana og allan Ísrael vinna eið að því, að þeir skyldu hegða sér eftir þessu, og unnu þeir eiðinn.
6 Og Esra reis upp og gekk burt þaðan er hann hafði verið, fyrir framan musteri Guðs, og inn í herbergi Jóhanans Eljasíbssonar. Þar var hann um nóttina og neytti hvorki brauðs né drakk vatn, því að hann var hryggur yfir tryggðrofi hinna herleiddu.
7 Og menn létu boð út ganga um Júda og Jerúsalem til allra þeirra, er heim voru komnir úr herleiðingunni, að safnast saman í Jerúsalem.
8 Og hver sá, er eigi kæmi innan þriggja daga, samkvæmt ráðstöfun höfðingjanna og öldunganna _ allar eigur hans skyldu banni helgaðar og hann sjálfur rekinn úr söfnuði hinna herleiddu.
9 Þá söfnuðust allir Júdamenn og Benjamíns saman í Jerúsalem á þriðja degi, það var í níunda mánuðinum, á tuttugasta degi mánaðarins. Og allt fólkið sat á auða svæðinu fram undan musteri Guðs, skjálfandi út af þessu og af því að stórrigning var.
10 Þá stóð Esra prestur upp og mælti til þeirra: "Þér hafið rofið tryggðir, með því að ganga að eiga útlendar konur, til þess að auka á sekt Ísraels.
11 Gjörið því játningu frammi fyrir Drottni, Guði feðra yðar, og gjörið hans vilja og skiljið yður frá hinum heiðnu íbúum landsins og frá hinum útlendu konum."
12 Og allur söfnuðurinn svaraði og sagði með hárri röddu: "Svo sem þú hefir sagt, þannig er oss skylt að breyta.
13 En fólkið er margt og rigningatími, svo að vér getum ekki staðið úti. Þetta er og meira en eins eða tveggja daga verk, því að vér höfum margfaldlega brotið í þessu efni.
14 Gangi því höfðingjar vorir fram fyrir allan söfnuðinn, og allir þeir í borgum vorum, er gengið hafa að eiga útlendar konur, skulu koma hver á tilteknum tíma, og með þeim öldungar hverrar borgar og dómarar hennar, þar til er þeir hafa snúið hinni brennandi reiði Guðs vors frá oss að því er mál þetta snertir."
15 Þeir Jónatan Asahelsson og Jahseja Tikvason einir mótmæltu þessu, og Mesúllam og Sabtaí levíti studdu þá.
16 Þeir, sem heim voru komnir úr herleiðingunni, gjörðu svo, og Esra prestur valdi sér menn, ætthöfðingja hinna einstöku ætta, og þá alla með nafni, og settust þeir á ráðstefnu hinn fyrsta dag hins tíunda mánaðar til þess að rannsaka málið.
17 Og þeir höfðu að öllu leyti útkljáð mál þeirra manna, er gengið höfðu að eiga útlendar konur, fyrir fyrsta dag hins fyrsta mánaðar.
18 Af niðjum prestanna fundust þessir, er gengið höfðu að eiga útlendar konur: Af niðjum Jósúa Jósadakssonar og bræðrum hans: Maaseja, Elíeser, Jaríb og Gedalja.
19 Lofuðu þeir með handsali að reka frá sér konur sínar og að fórna hrút vegna sektar sinnar.
20 Af niðjum Immers: Hananí og Sebadía.
21 Af afkomendum Haríms: Maaseja, Elía, Semaja, Jehíel og Úsía.
22 Af niðjum Pashúrs: Eljóenaí, Maaseja, Ísmael, Netaneel, Jósabad og Elasa.
23 Af levítunum: Jósabad, Símeí og Kelaja _ það er Kelíta, Petahja, Júda og Elíeser.
24 Af söngvurunum: Eljasíb. Af hliðvörðunum: Sallúm, Telem og Úrí.
25 Af Ísrael: Af niðjum Parós: Ramja, Jisía, Malkía, Míjamín, Eleasar, Malkía og Benaja.
26 Af niðjum Elams: Mattanja, Sakaría, Jehíel, Abdí, Jeremót og Elía.
27 Af niðjum Sattú: Eljóenaí, Eljasíb, Mattanja, Jeremót, Sabad og Asísa.
28 Af niðjum Bebaí: Jóhanan, Hananja, Sabbaí og Atlaí.
29 Af niðjum Baní: Mesúllam, Mallúk og Adaja, Jasúb, Seal, Jeramót.
30 Af niðjum Pahat Móabs: Adna, Kelal, Benaja, Maaseja, Mattanja, Besaleel, Binnúí og Manasse.
31 Niðjar Haríms: Elíeser, Jisía, Malkía, Semaja, Símeon,
32 Benjamín, Mallúk, Semarja.
33 Af niðjum Hasúms: Matnaí, Mattatta, Sabad, Elífelet, Jeremaí, Manasse, Símeí.
34 Af niðjum Baní: Maadaí, Amram, Úel,
35 Benaja, Bedja, Kelúhí,
36 Vanja, Meremót, Eljasíb,
37 Mattanja, Matnaí, Jaasaí,
38 Baní, Binnúí, Símeí,
39 Selemja, Natan, Adaja,
40 Maknadbaí, Sasaí, Saraí,
41 Asareel, Selemja, Semarja,
42 Sallúm, Amarja, Jósef.
43 Af niðjum Nebós: Jeíel, Mattija, Sabad, Sebína, Jaddaí, Jóel, Benaja.
by Icelandic Bible Society