Esekíel 46-48
Icelandic Bible
46 Svo segir Drottinn Guð: Hlið innri forgarðsins, það er snýr í austur, skal lokað vera sex virku dagana, en hvíldardaginn skal opna það og tunglkomudaginn skal opna það.
2 Og landshöfðinginn skal koma að utan og ganga inn um forsal hliðsins og nema staðar við dyrastafi hliðsins. Þá skulu prestarnir bera fram brennifórn hans og heillafórn, en hann skal falla fram á þröskuldi hliðsins og ganga síðan út aftur, og hliðinu skal ekki loka til kvelds.
3 Og landslýðurinn skal falla fram fyrir auglit Drottins við dyr þessa hliðs á hvíldardögum og tunglkomudögum.
4 Brennifórnin, sem landshöfðinginn á að færa Drottni, skal vera: Á hvíldardegi sex sauðkindur gallalausar og einn hrútur gallalaus,
5 og auk þess í matfórn ein efa með hverjum hrút, og með sauðkindunum slík matfórn, er hann vill sjálfur gefa, og ein hín af olíu með hverri efu.
6 Á tunglkomudögum skal hún vera ungneyti gallalaust og sex sauðkindur og einn hrútur, allt gallalaust.
7 Og hann skal láta fram bera efu með uxanum og efu með hrútnum í matfórn og með sauðkindunum svo sem hann má af hendi láta, og hín af olíu með hverri efu.
8 Þegar landshöfðinginn gengur inn, skal hann ganga inn um forsal hliðsins og fara sömu leið út aftur.
9 Og þegar landslýðurinn gengur fram fyrir Drottin á löghátíðunum, þá skal sá, er inn hefir gengið um norðurhliðið til þess að falla fram, aftur út fara um suðurhliðið, og sá, er inn hefir gengið um suðurhliðið, skal aftur út fara um norðurhliðið. Enginn skal aftur út fara um það hlið, sem hann hefir inn gengið, heldur skal hann út fara um það hlið, sem gegnt honum er.
10 Og landshöfðinginn skal ganga inn mitt á meðal þeirra, þegar þeir ganga inn, og fara út, þegar þeir fara út.
11 Á hátíðum og löghelgum skal matfórnin vera efa með uxanum og efa með hrútnum, og með sauðkindunum slíkt, er hann vill sjálfur gefa, og hín af olíu með hverri efu.
12 Og þegar landshöfðinginn ber fram sjálfviljafórn, brennifórn eða heillafórn sem sjálfviljafórn Drottni til handa, þá skal upp ljúka fyrir honum því hliðinu, sem í austur snýr. Síðan skal hann bera fram brennifórn sína og heillafórn, eins og hann er vanur að gjöra á hvíldardögum, og ganga síðan út, og þegar hann er farinn út, skal loka hliðinu á eftir honum.
13 Á degi hverjum skal hann láta fram bera ársgamla sauðkind gallalausa í brennifórn Drottni til handa, á hverjum morgni skal hann fram bera hana.
14 Og sem matfórn skal hann fram bera með henni á hverjum morgni 1/6 efu og 1/3 hínar af olíu til þess að væta með mjölið, sem matfórn Drottni til handa. Skal það vera stöðug skyldugreiðsla.
15 Og þannig skulu þeir fram bera sauðkindina og matfórnina og olíuna á hverjum morgni sem stöðuga brennifórn.
16 Svo segir Drottinn Guð: Ef landshöfðinginn gefur einhverjum sona sinna nokkuð af óðali sínu að gjöf, þá skal það tilheyra sonum hans. Það er erfðaeign þeirra.
17 En gefi hann einhverjum þjónustumanna sinna nokkuð af óðali sínu að gjöf, þá skal hann halda því til lausnarársins. Þá skal það hverfa aftur til landshöfðingjans. En óðal sona hans skal haldast í eign þeirra.
18 Og ekki má landshöfðinginn taka neitt af óðali lýðsins og veita honum með því yfirgang. Af sinni eigin eign verður hann að veita sonum sínum arfleifð, til þess að enginn af lýð mínum verði flæmdur burt frá eign sinni."
19 Því næst leiddi hann mig gegnum ganginn, sem liggur fast við hliðið, til hinna heilögu herbergja, sem ætluð eru prestunum og vita í norður. En þar var rúm í ysta horni mót vestri.
20 Og hann sagði við mig: "Þetta er staðurinn, þar sem prestarnir skulu sjóða sektarfórnina og syndafórnina, og þar sem þeir skulu baka matfórnina, til þess að þeir þurfi ekki að bera það út í ytri forgarðinn og þann veg helga lýðinn."
21 Og hann leiddi mig út í ytri forgarðinn og lét mig ganga í gegn, út í fjögur horn forgarðsins, og sjá, lítill forgarður var í hverju horni forgarðsins.
22 Í fjórum hornum forgarðsins voru aftur minni forgarðar, fjörutíu álnir á lengd og þrjátíu álnir á breidd. Voru þeir allir fjórir jafnir að máli.
23 Og í þeim var múrveggur allt í kring, allt í kring í þeim fjórum, og eldstór voru gjörðar neðan til við múrveggina allt í kring.
24 Og hann sagði við mig: "Þetta eru eldhúsin, þar sem þjónustumenn musterisins skulu sjóða sláturfórnir lýðsins."
47 Nú leiddi hann mig aftur að musterisdyrunum. Þá sá ég að vatn spratt upp undan þröskuldi hússins mót austri, því að framhlið musterisins vissi til austurs. Og vatnið rann niður undan suðurhlið musterisins, sunnanvert við altarið.
2 Síðan leiddi hann mig út um norðurhliðið og fór með mig í kring að utanverðu að ytra hliðinu, sem snýr í austurátt. Þá sá ég að vatn vall upp undan suðurhliðinni.
3 Maðurinn gekk nú í austur með mælivað í hendi sér og mældi þúsund álnir. Og hann lét mig vaða yfir um vatnið, og tók það mér í ökkla.
4 Þessu næst mældi hann þúsund álnir og lét mig vaða yfir um vatnið, tók vatnið mér þá til knés. Þá mældi hann enn þúsund álnir og lét mig vaða yfir um, tók vatnið mér þá í mjöðm.
5 Þá mældi hann enn þúsund álnir. Var þá vatnið orðið að fljóti, svo að ég mátti ekki yfir það komast, því að vatnið var of djúpt, var orðið sundvatn, óvætt fljót.
6 Hann sagði þá við mig: "Hefir þú séð þetta, mannsson?" Og hann leiddi mig aftur upp á fljótsbakkann.
7 Og er ég kom þangað aftur, sá ég mjög mörg tré á fljótsbökkunum beggja vegna.
8 Þá sagði hann við mig: "Þetta vatn rennur út á austurhéraðið og þaðan ofan á sléttlendið, og þegar það fellur í Dauðahafið, í salt vatnið, verður vatnið í því heilnæmt.
9 Og allar lifandi skepnur, allt sem hrærist, fær nýtt fjör alls staðar þar sem fljótið kemur, og fiskurinn mun verða mjög mikill, því að þegar þetta vatn kemur þangað, verður vatnið í því heilnæmt, og allt lifnar við, þar sem fljótið kemur.
10 Og fiskimenn munu standa við það frá En Gedí alla leið til En Eglaím, og vötn þess munu verða veiðistöðvar, þar sem net verða lögð. Og fiskurinn í því mun verða mjög mikill, eins og í hafinu mikla.
11 En pyttirnir og síkin þar hjá munu ekki vera heilnæm, þau eru ætluð til saltfengjar.
12 En meðfram fljótinu, á bökkunum beggja vegna, munu upp renna alls konar aldintré. Laufblöð þeirra munu ekki visna og ávextir þeirra ekki dvína. Á hverjum mánuði munu þau bera nýja ávöxtu, af því að vötnin, sem þau lifa við, koma frá helgidóminum. Og ávextir þeirra munu hafðir verða til matar og laufblöð þeirra til lyfja."
13 Svo segir Drottinn Guð: Þetta eru takmörkin, og innan þeirra skuluð þér skipta yður niður á landið eftir tólf ættkvíslum Ísraels, þó skal Jósef fá tvo hluti.
14 Þér skuluð fá landið til eignar, einn jafnt sem annar, með því að ég hét eitt sinn með eiði að gefa feðrum yðar það, og því skal land þetta falla yður til erfða.
15 Þetta skulu vera takmörk landsins að norðanverðu: Frá hafinu mikla í áttina til Hetlón, þangað er leið liggur til Hamat,
16 Sedad, Beróta, Sibraím, sem liggur á milli Damaskuslands og Hamatlands, til Hasar Enón, sem liggur á landamærum Havrans.
17 Takmörkin skulu þannig liggja frá hafinu til Hasar Enón, en Damaskusland liggur lengra til norðurs. Þetta er norðurhliðin.
18 Og austurhliðin: Frá Hasar Enón, sem liggur milli Havran og Damaskus, allt að eystra hafinu, er Jórdan takmarkalína milli Gíleaðs og Ísraelslands, allt til Tamar. Þetta er austurhliðin.
19 Og suðurhliðin gegnt hádegisstað: Frá Tamar alla leið til Meríbótvatna við Kades, að Egyptalandsá og þaðan til hafsins mikla. Þetta er suðurhliðin gegnt hádegisstað.
20 Og vesturhliðin: Hafið mikla ræður þar takmörkum allt þangað til komið er þar gegnt, er leið liggur til Hamat. Þetta er vesturhliðin.
21 Þér skuluð skipta þessu landi meðal yðar eftir ættkvíslum Ísraels.
22 Skuluð þér skipta því með hlutkesti til arfleifðar meðal yðar og þeirra útlendra manna, er búa meðal yðar og getið hafa sonu meðal yðar. Þá skuluð þér álíta innborna Ísraelsmenn, með yður skulu þeir varpa hlutum um arfleifð meðal ættkvísla Ísraels.
23 Þér skuluð fá hverjum útlendum manni arfleifð í þeirri ættkvísl, þar sem hann býr _ segir Drottinn Guð.
48 Og þetta eru nöfn ættkvíslanna: Yst í norðri, frá hafinu í áttina til Hetlón þangað að, er leið liggur til Hamat, og þaðan til Hasar Enón, _ er þá Damaskusland fyrir norðan, fram með Hamat _, og fær hver land frá austri til vesturs: Dan, einn landshluti.
2 Og meðfram Dans landi, frá austri til vesturs: Asser, einn landshluti.
3 Og meðfram Assers landi, frá austri til vesturs: Naftalí, einn landshluti.
4 Og meðfram Naftalí landi, frá austri til vesturs: Manasse, einn landshluti.
5 Og meðfram Manasse landi, frá austri til vesturs: Efraím, einn landshluti.
6 Og meðfram Efraíms landi, frá austri til vesturs: Rúben, einn landshluti.
7 Og meðfram Rúbens landi, frá austri til vesturs: Júda, einn landshluti.
8 Meðfram Júda landi, frá austri til vesturs, skal landið, er þér færið að fórnargjöf, sem þér skuluð láta af hendi, liggja, 25.000 álnir á breidd og jafnt að lengd hlutum ættkvíslanna, frá austri til vesturs, og helgidómurinn skal vera í því miðju.
9 En landið, er þér skuluð helga Drottni, er 25.000 álnir á lengd og 20.000 álnir á breidd.
10 Og þeim, sem nú skal greina, skal hin heilaga fórnargjöf tilheyra: prestunum landspilda 25.000 álna að norðanverðu, 10.000 álna að vestanverðu, 10.000 álna að austanverðu og 25.000 álna að sunnanverðu. Og helgidómur Drottins skal vera á henni miðri.
11 Vígðu prestunum, niðjum Sadóks, þeim er gætt hafa þjónustu minnar, sem eigi gengu afleiðis, þá er aðrir Ísraelsmenn gengu afleiðis, svo sem og levítarnir hafa gengið afleiðis,
12 þeim skal það tilheyra sem hluti af fórnargjöf landsins, sem háheilagt land, við hliðina á landi levítanna,
13 en levítunum skal tilheyra jafnstórt land og prestanna: 25.000 álnir á lengd og 10.000 álnir á breidd, alls 25.000 álnir á lengd og 20.000 álnir á breidd.
14 Af því mega þeir ekkert selja og ekki farga neinu af því í skiptum, né heldur má þessi ágætasti hluti landsins ganga yfir í annarra eigu, því að hann er helgaður Drottni.
15 En þær 5.000 álnir, sem eftir eru af breiddinni meðfram 25.000 álnunum, eru óheilagt land handa borginni til ábúðar og beitilands, en borgin skal standa í þeim reit miðjum.
16 Og þetta er mál hennar: Norðurhliðin 4.500 álnir og suðurhliðin 4.500 álnir og austurhliðin 4.500 álnir og vesturhliðin 4.500 álnir.
17 Og útjörð borgarinnar skal vera 250 álnir til norðurs, 250 til suðurs, 250 til austurs og 250 til vesturs.
18 Og það sem eftir er af lengdinni meðfram hinni helgu fórnargjöf, 10.000 álnir til austurs og 10.000 álnir til vesturs, afurðir þess skulu vera íbúum borgarinnar til fæðslu.
19 Og hvað íbúa borgarinnar snertir, þá skulu byggja hana menn af öllum ættkvíslum Ísraels.
20 Alls skuluð þér láta af hendi sem fórnargjöf 25.000 álnir í ferhyrning: hina heilögu fórnargjöf ásamt landeign borgarinnar.
21 Það, sem eftir er, skal tilheyra landshöfðingjanum, beggja vegna við hina heilögu fórnargjöf og landeign borgarinnar, austur á bóginn meðfram 25.000 álnunum að austurtakmörkunum og vestur á bóginn meðfram 25.000 álnunum að vesturtakmörkunum, samsvarandi hlutum ættkvíslanna. Það tilheyrir landshöfðingjanum, og hin heilaga fórnargjöf og helgidómur musterisins skal vera í því miðju.
22 Og eignarland levítanna og eignarland borgarinnar skal liggja mitt inni í því, sem landshöfðingjanum tilheyrir. Milli Júda lands og Benjamíns lands skal það land liggja, er landshöfðingjanum tilheyrir.
23 En hinar ættkvíslirnar eru, frá austri til vesturs: Benjamín, einn landshluti.
24 Og meðfram Benjamínslandi, frá austri til vesturs: Símeon, einn landshluti.
25 Og meðfram Símeons landi, frá austri til vesturs: Íssakar, einn landshluti.
26 Og meðfram Íssakars landi, frá austri til vesturs: Sebúlon, einn landshluti.
27 Og meðfram Sebúlons landi, frá austri til vesturs: Gað, einn landshluti.
28 En meðfram Gaðs landi, að sunnanverðu, gegnt hádegisstað, skulu takmörkin liggja frá Tamar yfir Meríba-vötn við Kades til Egyptalandsár og þaðan til hafsins mikla.
29 Þetta er landið, sem þér skuluð úthluta ættkvíslum Ísraels til arfleifðar, og þetta eru hlutir þeirra _ segir Drottinn Guð.
30 Og þessi eru útgönguhlið borgarinnar, og eru hlið borgarinnar nefnd eftir ættkvíslum Ísraels: Á norðurhliðinni, sem er 4.500 álnir að máli,
31 eru þrjú hlið: Rúbenshlið eitt, Júdahlið eitt, Levíhlið eitt.
32 Á austurhliðinni, sem er 4.500 álnir, eru þrjú hlið: Jósefshlið eitt, Benjamínshlið eitt, Danshlið eitt.
33 Á suðurhliðinni, sem er 4.500 álnir að máli, eru þrjú hlið: Símeonshlið eitt, Íssakarshlið eitt, Sebúlonshlið eitt.
34 Og á vesturhliðinni, sem er 4.500 álnir, eru þrjú hlið: Gaðshlið eitt, Assershlið eitt, Naftalíhlið eitt.
by Icelandic Bible Society