Prédikarinn 5-8
Icelandic Bible
5 Vertu ekki of munnhvatur, og hjarta þitt hraði sér ekki að mæla orð frammi fyrir Guði, því að Guð er á himnum, en þú á jörðu, ver því eigi margorður.
2 Því að draumar koma, þar sem áhyggjurnar eru miklar, og heimskutal, þar sem mörg orð eru viðhöfð.
3 Þegar þú gjörir Guði heit, þá fresta þú eigi að efna það, því að hann hefir eigi velþóknun á heimskingjum. Efn það er þú heitir.
4 Betra er að þú heitir engu en að þú heitir og efnir ekki.
5 Leyf eigi munni þínum að baka líkama þínum sekt og seg eigi við sendiboðann: Það var fljótfærni! Hvers vegna á Guð að reiðast tali þínu og skemma verk handa þinna?
6 Því að þar sem mikið er um drauma og orð, þar er og mikill hégómi. Óttastu heldur Guð!
7 Sjáir þú hinn snauða undirokaðan og að rétti og réttlæti er rænt í héraðinu, þá furða þú þig ekki á því athæfi, því að hár vakir yfir háum og hinn hæsti yfir þeim öllum.
8 Konungur, sem gefinn er fyrir jarðyrkju, er í alla staði ávinningur fyrir land.
9 Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum, og sá sem elskar auðinn, hefir ekki gagn af honum. Einnig það er hégómi.
10 Þar sem eigurnar vaxa, þar fjölgar og þeim er eyða þeim, og hvaða ábata hefir eigandinn af þeim annan en að horfa á þær?
11 Sætur er svefninn þeim sem erfiðar, hvort sem hann etur lítið eða mikið, en offylli hins auðuga lætur hann eigi hafa frið til að sofa.
12 Til er slæmt böl, sem ég hefi séð undir sólinni: auður sem eigandinn varðveitir sjálfum sér til ógæfu.
13 Missist þessi auður fyrir slys, og hafi eigandinn eignast son, þá verður ekkert til handa honum.
14 Eins og hann kom af móðurlífi, svo mun hann nakinn fara burt aftur eins og hann kom, og hann mun ekkert á burt hafa fyrir strit sitt, það er hann taki með sér í hendi sér.
15 Einnig það er slæmt böl: Með öllu svo sem hann kom mun hann aftur fara, og hvaða ávinning hefir hann af því, að hann stritar út í veður og vind?
16 Auk þess elur hann allan aldur sinn í myrkri og við sorg og mikla gremju og þjáning og reiði.
17 Sjá, það sem ég hefi séð, að er gott og fagurt, það er, að maðurinn eti og drekki og njóti fagnaðar af öllu striti sínu, því er hann streitist við undir sólinni alla ævidaga sína, þá er Guð gefur honum, því að það er hlutdeild hans.
18 Og þegar Guð gefur einhverjum manni ríkidæmi og auðæfi og gjörir hann færan um að njóta þess og taka hlutdeild sína og að gleðjast yfir starfi sínu, þá er og það Guðs gjöf.
19 Því að slíkur maður hugsar ekki mikið um ævidaga lífs síns, meðan Guð lætur hann hafa nóg að sýsla við fögnuð hjarta síns.
6 Til er böl, sem ég hefi séð undir sólinni, og það liggur þungt á mönnunum:
2 Þegar Guð gefur einhverjum manni ríkidæmi, auðæfi og heiður, svo að hann skortir ekkert af því er hann girnist, en Guð gjörir hann ekki færan um að njóta þess, heldur nýtur annar maður þess _ það er hégómi og vond þjáning.
3 Þótt einhver eignaðist hundrað börn og lifði mörg ár, og ævidagar hans yrðu margir, en sál hans mettaðist ekki af gæðum og hann fengi heldur enga greftrun, þá segi ég: Ótímaburðurinn er sælli en hann.
4 Því að hann er kominn í hégóma og fer burt í myrkur, og nafn hans er myrkri hulið.
5 Hann hefir ekki heldur séð sólina né þekkt hana, hann hefir meiri ró en hinn.
6 Og þótt hann lifi tvenn þúsund ár, en njóti einskis fagnaðar, fer ekki allt sömu leiðina?
7 Allt strit mannsins er fyrir munn hans, og þó seðst girndin aldrei.
8 Því að hvaða yfirburði hefir spekingurinn fram yfir heimskingjann? hvaða yfirburði hinn snauði, er kann að ganga frammi fyrir þeim sem lifa?
9 Betri er sjón augnanna en reik girndarinnar. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.
10 Það sem við ber, hefir fyrir löngu hlotið nafn sitt, og það er ákveðið, hvað menn eiga að verða, og maðurinn getur ekki deilt við þann sem honum er máttkari.
11 Og þótt til séu mörg orð, sem auka hégómann _ hvað er maðurinn að bættari?
12 Því að hver veit, hvað gott er fyrir manninn í lífinu, alla daga hans fánýta lífs, er hann lifir sem skuggi? Því að hver segir manninum, hvað bera muni við eftir hans dag undir sólinni?
7 Betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur.
2 Betra er að ganga í sorgarhús en að ganga í veislusal, því að það eru endalok sérhvers manns, og sá sem lifir, hugfestir það.
3 Betri er hryggð en hlátur, því að þegar andlitið er dapurt, líður hjartanu vel.
4 Hjarta spekinganna er í sorgarhúsi, en hjarta heimskingjanna í gleðihúsi.
5 Betra er að hlýða á ávítur viturs manns en á söng heimskra manna.
6 Því að hlátur heimskingjans er eins og þegar snarkar í þyrnum undir potti. Einnig það er hégómi.
7 Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja, og mútur spilla hjartanu.
8 Betri er endir máls en upphaf, betri er þolinmóður maður en þóttafullur.
9 Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast, því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.
10 Seg ekki: Hvernig stendur á því, að hinir fyrri dagar voru betri en þessir? Því að eigi er það af skynsemi, að þú spyr um það.
11 Speki er eins góð og óðal, og ávinningur fyrir þá sem sólina líta.
12 Því að spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu, en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.
13 Skoða þú verk Guðs. Hver getur gjört það beint, er hann hefir gjört bogið?
14 Ver þú í góðu skapi á hinum góða degi, og hugleið þetta á hinum vonda degi: Guð hefir gjört þennan alveg eins og hinn, til þess að maðurinn verði einskis vísari um það sem síðar kemur.
15 Allt hefi ég séð á mínum fánýtu ævidögum: Margur réttlátur maður ferst í réttlæti sínu, og margur guðlaus maður lifir lengi í illsku sinni.
16 Ver þú ekki of réttlátur og sýn þig ekki frábærlega vitran _ hví vilt þú tortíma sjálfum þér?
17 Breyttu eigi of óguðlega og ver þú eigi heimskingi _ hví vilt þú deyja áður en þinn tími er kominn?
18 Það er gott, að þú sért fastheldinn við þetta, en sleppir þó ekki hendinni af hinu, því að sá sem óttast Guð, kemst hjá því öllu.
19 Spekin veitir vitrum manni meiri kraft en tíu valdhafar, sem eru í borginni.
20 Enginn réttlátur maður er til á jörðinni, er gjört hafi gott eitt og aldrei syndgað.
21 Gef þú heldur ekki gaum öllum þeim orðum sem töluð eru, til þess að þú heyrir eigi þjón þinn bölva þér.
22 Því að þú ert þér þess meðvitandi, að þú hefir og sjálfur oftsinnis bölvað öðrum.
23 Allt þetta hefi ég rannsakað með speki. Ég hugsaði: Ég vil verða vitur, en spekin er fjarlæg mér.
24 Fjarlægt er það, sem er, og djúpt, já djúpt. Hver getur fundið það?
25 Ég sneri mér og beindi huga mínum að því að þekkja og rannsaka og leita visku og hygginda og að gera mér ljóst, að guðleysi er heimska og heimska vitleysa.
26 Og ég fann að konan er bitrari en dauðinn, því að hún er net og hjarta hennar snara, hendur hennar fjötrar. Sá sem Guði þóknast, kemst undan henni, en syndarinn verður fanginn af henni.
27 Sjá, þetta hefi ég fundið, segir prédikarinn, með því að leggja eitt við annað til þess að komast að hyggindum.
28 Það sem ég hefi stöðugt leitað að, en ekki fundið, það er þetta: Einn mann af þúsundi hefi ég fundið, en konu á meðal allra þessara hefi ég ekki fundið.
29 Sjá, þetta eitt hefi ég fundið, að Guð hefir skapað manninn beinan, en þeir leita margra bragða.
8 Hver er sem spekingurinn og hver skilur þýðingu hlutanna? Speki mannsins hýrgar andlit hans, og harkan í svipnum breytist.
2 Ég segi: Varðveit þú boð konungsins, og það vegna eiðsins við Guð.
3 Ver þú eigi fljótur til að ganga burt frá honum, gef þig eigi við illu málefni. Því að hann gjörir allt, sem hann vill,
4 af því að konungsorð er máttugt, og hver segir við hann: Hvað gjörir þú?
5 Sá sem varðveitir skipunina, mun ekki kenna á neinu illu, og hjarta viturs manns þekkir tíma og dóm.
6 Því að sérhvert fyrirtæki á sinn tíma og dóm, því að böl mannsins hvílir þungt á honum.
7 Hann veit ekki, hvað verða muni, því að hver segir honum, hvernig það muni verða?
8 Enginn maður ræður yfir vindinum, svo að hann geti stöðvað vindinn, og enginn maður hefir vald yfir dauðadeginum, og enginn fær sig lausan úr bardaganum, og óhæfan bjargar ekki þeim, er hana fremur.
9 Allt þetta hefi ég séð, og það með því að ég veitti athygli öllu því, sem gjörist undir sólinni, þegar einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.
10 Þá hefi ég séð óguðlega menn jarðaða, en þeir er gjört höfðu það sem rétt var, máttu fara burt frá hinum heilaga stað og gleymdust í borginni. Einnig það er hégómi.
11 Af því að dómi yfir verkum illskunnar er ekki fullnægt þegar í stað, þá svellur mönnum móður til þess að gjöra það sem illt er.
12 Syndarinn gjörir það sem illt er hundrað sinnum og verður samt gamall, þótt ég hins vegar viti, að guðhræddum mönnum, er óttast Guð, muni vel vegna.
13 En hinum guðlausa mun ekki vel vegna, og hann mun ekki verða langlífur fremur en skugginn, af því að hann óttast ekki Guð.
14 Það er hégómi, sem gjörist á jörðinni, að til eru réttlátir menn, sem verða fyrir því, er óguðlegir eiga skilið, og til eru óguðlegir menn, sem verða fyrir því, er réttlátir eiga skilið. Ég sagði: Einnig það er hégómi.
15 Fyrir því lofaði ég gleðina, því að ekkert betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður. Og það fylgi honum í striti hans um ævidagana, sem Guð hefir gefið honum undir sólinni.
16 Þegar ég lagði allan hug á að kynna mér speki og að sjá það starf, sem framið er á jörðinni _ því að hvorki dag né nótt kemur manni blundur á auga _
17 þá sá ég, að maðurinn getur ekki skilið til fulls allt Guðs verk, það verk sem gjörist undir sólinni, því að hversu mjög sem maðurinn gjörir sér far um að leita, fær hann þó ekki skilið það til fulls, og enda þótt spekingurinn hyggist að þekkja það, þá fær hann eigi skilið það til fulls.
by Icelandic Bible Society