Sakaría 1-7
Icelandic Bible
1 Á áttunda mánuði annars ríkisárs Daríusar kom orð Drottins til Sakaría spámanns Berekíasonar, Iddósonar, svo hljóðandi:
2 Drottinn var stórreiður feðrum yðar.
3 Seg því við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Snúið yður til mín _ segir Drottinn allsherjar _ þá mun ég snúa mér til yðar _ segir Drottinn allsherjar.
4 Verið ekki eins og feður yðar, sem hinir fyrri spámenn áminntu með svofelldum orðum: "Svo segir Drottinn allsherjar: Snúið yður frá yðar vondu breytni og frá yðar vondu verkum!" En þeir hlýddu ekki og gáfu engan gaum að mér _ segir Drottinn.
5 Feður yðar _ hvar eru þeir? Og spámennirnir _ geta þeir lifað eilíflega?
6 En orð mín og ályktanir, þau er ég bauð þjónum mínum, spámönnunum, að kunngjöra, hafa þau ekki náð feðrum yðar, svo að þeir sneru við og sögðu: "Eins og Drottinn allsherjar hafði ásett sér að gjöra við oss eftir breytni vorri og verkum vorum, svo hefir hann við oss gjört"?
7 Á tuttugasta og fjórða degi hins ellefta mánaðar, það er mánaðarins sebat, á öðru ríkisári Daríusar, kom orð Drottins til Sakaría spámanns Berekíasonar, Iddósonar, svo hljóðandi:
8 Ég sá sýn á náttarþeli: mann ríðandi á rauðum hesti, og hafði hann staðnæmst meðal mýrtustrjánna, sem eru í dalverpinu. Að baki honum voru rauðir, jarpir og hvítir hestar.
9 Og er ég spurði: "Hverjir eru þessir, herra minn?" svaraði engillinn mér, sá er við mig talaði: "Ég skal sýna þér, hverjir þeir eru."
10 Þá tók maðurinn, sem staðnæmst hafði meðal mýrtustrjánna, til máls og sagði: "Þessir eru þeir, sem Drottinn hefir sent til þess að fara um jörðina."
11 Þá svöruðu þeir engli Drottins, er staðnæmst hafði meðal mýrtustrjánna, og sögðu: "Vér höfum farið um jörðina, og sjá, öll jörðin er í ró og kyrrð."
12 Þá svaraði engill Drottins og sagði: "Drottinn allsherjar, hversu lengi á því fram að fara, að þú miskunnir þig ekki yfir Jerúsalem og Júdaborgir, er þú hefir nú reiður verið í sjötíu ár?"
13 Þá svaraði Drottinn englinum, er við mig talaði, blíðum orðum og huggunarríkum,
14 og engillinn sem við mig talaði, sagði við mig: "Kunngjör og seg: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég brenn af mikilli vandlæting vegna Jerúsalem og Síonar
15 og ég er stórreiður hinum andvaralausu heiðingjum, sem juku á bölið, þá er ég var lítið eitt reiður.
16 Fyrir því segir Drottinn svo: Ég sný mér aftur að Jerúsalem með miskunnsemi. Hús mitt skal verða endurreist í henni _ segir Drottinn allsherjar _ og mælivaður skal þaninn verða yfir Jerúsalem.
17 Kunngjör enn fremur og seg: Svo segir Drottinn allsherjar: Enn skulu borgir mínar fljóta í gæðum, og enn mun Drottinn hugga Síon og enn útvelja Jerúsalem."
2 Og ég hóf upp augu mín og sá, hvar fjögur horn voru.
2 Þá spurði ég engilinn, sem við mig talaði: "Hvað merkja þessi?" Hann svaraði mér: "Þetta eru hornin, sem tvístrað hafa Júda, Ísrael og Jerúsalem."
3 Því næst lét Drottinn mig sjá fjóra smiði,
4 og er ég spurði: "Hvað ætla þessir að gjöra?" svaraði hann á þessa leið: "Þetta eru hornin, sem tvístruðu Júda svo, að enginn bar höfuð hátt, en þessir eru komnir til þess að skelfa þau, til þess að varpa niður hornum þeirra þjóða, er hófu horn gegn Júdalandi til þess að tvístra því."
5 Og ég hóf upp augu mín og sá, hvar maður var. Hann hélt á mæliþræði í hendi sér.
6 Þá spurði ég: "Hvert ætlar þú?" Hann svaraði mér: "Að mæla Jerúsalem til þess að sjá, hve löng og hve breið hún er."
7 Þá gekk engillinn, er við mig talaði, allt í einu fram, og annar engill gekk fram á móti honum.
8 Við hann sagði hann: "Hlaup þú og tala þú svo til þessa unga manns: ,Jerúsalem skal liggja opin og ógirt sökum þess fjölda manna og skepna, sem í henni verða,
9 og ég sjálfur skal vera eins og eldveggur kringum hana _ segir Drottinn _ og ég skal sýna mig dýrlegan í henni."`
10 Upp, upp, flýið úr norðurlandinu _ segir Drottinn _ því að ég hefi tvístrað yður í allar áttir _ segir Drottinn.
11 Upp, forðið yður til Síonar, þér sem búið í Babýlon!
12 Svo segir Drottinn allsherjar, hinn vegsamlegi, sem hefir sent mig til þjóðanna sem rændu yður: Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn.
13 Því sjá, ég mun veifa hendi minni yfir þeim, og þá skulu þeir verða þrælum sínum að herfangi, og þér skuluð viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig.
14 Fagna þú og gleð þig, dóttirin Síon! Því sjá, ég kem og vil búa mitt í þér _ segir Drottinn.
15 Á þeim degi munu margar þjóðir ganga Drottni á hönd og verða hans lýður og búa mitt á meðal þín, og þú munt viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til þín.
16 Þá mun Drottinn taka Júda til eignar sem arfleifð sína í hinu heilaga landi og enn útvelja Jerúsalem.
17 Allt hold veri hljótt fyrir Drottni! Því að hann er risinn upp frá sínum heilaga bústað.
3 Því næst lét hann mig sjá Jósúa æðsta prest, þar sem hann stóð frammi fyrir engli Drottins og Satan honum til hægri handar til þess að ákæra hann.
2 En Drottinn mælti til Satans: "Drottinn ávíti þig, Satan! Drottinn, sem útvalið hefir Jerúsalem, ávíti þig! Er ekki þessi eins og brandur úr báli dreginn?"
3 Jósúa var í óhreinum klæðum, þar er hann stóð frammi fyrir englinum.
4 Þá tók engillinn til máls og mælti til þeirra, er stóðu frammi fyrir honum: "Færið hann úr hinum óhreinu klæðum!" Síðan sagði hann við hann: "Sjá, ég hefi burt numið misgjörð þína frá þér og læt nú færa þig í skrúðklæði."
5 Enn fremur sagði hann: "Látið hreinan ennidúk um höfuð hans!" Þá létu þeir hreinan ennidúk um höfuð hans og færðu hann í klæðin, en engill Drottins stóð hjá.
6 Og engill Drottins vitnaði fyrir Jósúa og sagði:
7 "Svo segir Drottinn allsherjar: Ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín, þá skalt þú og stjórna húsi mínu og gæta forgarða minna, og ég heimila þér að ganga meðal þessara þjóna minna."
8 Heyr, Jósúa æðsti prestur, þú og félagar þínir, sem sitja frammi fyrir þér, eru fyrirboðar þess, að ég læt þjón minn Kvist koma.
9 Því sjá, steinninn, sem ég hefi lagt frammi fyrir Jósúa _ sjö augu á einum steini _ sjá, ég gref á hann letur hans _ segir Drottinn allsherjar _ og tek burt á einum degi misgjörð þessa lands.
10 Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ munuð þér bjóða hver öðrum inn undir víntré og fíkjutré.
4 Þá vakti engillinn, er við mig talaði, mig aftur, eins og þegar maður er vakinn af svefni,
2 og sagði við mig: "Hvað sér þú?" Ég svaraði: "Ég sé ljósastiku, og er öll af gulli. Ofan á henni er olíuskál og á henni eru sjö lampar og sjö pípur fyrir lampana.
3 Og hjá ljósastikunni standa tvö olíutré, annað hægra megin við olíuskálina, hitt vinstra megin."
4 Þá tók ég til máls og sagði við engilinn, sem við mig talaði: "Hvað merkir þetta, herra minn?"
5 Og engillinn, sem við mig talaði, svaraði og sagði við mig: "Veistu ekki, hvað þetta merkir?" Ég svaraði: "Nei, herra minn!"
6 Þá tók hann til máls og sagði við mig: "Þetta eru orð Drottins til Serúbabels: Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn! _ segir Drottinn allsherjar.
7 Hver ert þú, stóra fjall? Fyrir Serúbabel skalt þú verða að sléttu. Og hann mun færa út hornsteininn, og þá munu kveða við fagnaðaróp: Dýrlegur, dýrlegur er hann!"
8 Og orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:
9 Hendur Serúbabels hafa lagt grundvöll þessa húss, hendur hans munu og fullgjöra það. Og þá skaltu viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til yðar.
10 Því að allir þeir, sem lítilsvirða þessa litlu byrjun, munu horfa fagnandi á blýlóðið í hendi Serúbabels. Þessir sjö lampar eru augu Drottins, sem líta yfir gjörvalla jörðina.
11 Þá tók ég til máls og sagði við hann: "Hvað merkja þessi tvö olíutré, hægra og vinstra megin ljósastikunnar?"
12 Og ég tók annað sinn til máls og sagði við hann: "Hvað merkja þær tvær olíuviðargreinar, sem eru við hliðina á þeim tveimur gullpípum, sem láta olífuolíu streyma út úr sér?"
13 Þá sagði hann við mig: "Veistu ekki, hvað þær merkja?" Ég svaraði: "Nei, herra minn!"
14 Þá sagði hann: "Það eru þeir tveir smurðu, er standa frammi fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar."
5 Ég hóf aftur upp augu mín og sá bókrollu, sem var á flugi.
2 Þá sagði hann við mig: "Hvað sér þú?" Ég svaraði: "Ég sé bókrollu á flugi, tuttugu álna langa og tíu álna breiða."
3 Þá sagði hann við mig: "Þetta er bölvunin, sem út gengur yfir gjörvallt landið, því að sérhverjum sem stelur, verður samkvæmt henni sópað héðan, og sérhverjum sem meinsæri fremur, verður samkvæmt henni sópað héðan."
4 Ég hefi látið hana út ganga _ segir Drottinn allsherjar _ til þess að hún komi inn í hús þjófsins og inn í hús þess, sem meinsæri fremur við nafn mitt, og staðnæmist inni í húsi hans og eyði því bæði að viðum og veggjum.
5 Þessu næst gekk fram engillinn, er við mig talaði, og sagði við mig: "Hef upp augu þín og sjá, hvað þar kemur fram!"
6 Ég sagði: "Hvað er þetta?" Þá sagði hann: "Þetta er efan, sem kemur í ljós." Þá sagði hann: "Þetta er misgjörð þeirra í öllu landinu."
7 Þá lyftist allt í einu upp kringlótt blýlok, og sat þar kona ein niðri í efunni.
8 Þá sagði hann: "Þetta er Vonskan!" _ kastaði henni ofan í efuna og kastaði blýlokinu ofan yfir opið.
9 Síðan hóf ég upp augu mín og sá allt í einu tvær konur koma fram, og stóð vindur undir vængi þeim _ því að þær höfðu vængi sem storksvængi _ og hófu þær efuna upp milli jarðar og himins.
10 Þá sagði ég við engilinn, sem við mig talaði: "Hvert fara þær með efuna?"
11 Hann svaraði mér: "Þær ætla að reisa henni hús í Sínearlandi, og þegar það er búið, þá setja þær hana þar á sinn stað."
6 Ég hóf aftur upp augu mín og sá, hvar fjórir vagnar komu út á milli tveggja fjalla, en fjöllin voru eirfjöll.
2 Fyrir fyrsta vagninum voru rauðir hestar, fyrir öðrum vagninum svartir hestar,
3 fyrir þriðja vagninum voru hvítir hestar og fyrir fjórða vagninum rauðskjóttir hestar.
4 Þá tók ég til máls og sagði við engilinn, er við mig talaði: "Hvað merkir þetta, herra minn?"
5 Engillinn svaraði og sagði við mig: "Þetta eru þeir fjórir vindar himinsins. Þeir hafa gengið fyrir Drottin gjörvallrar jarðarinnar og eru nú að fara af stað.
6 Vagninn með svörtu hestunum fyrir var að fara til landsins norður frá, og hinir hvítu fóru á eftir þeim, en hinir skjóttu fóru til landsins suður frá."
7 Og hinir rauðu fóru út, og með því að þeir voru ráðnir í að halda af stað til þess að fara um jörðina, sagði hann: "Farið! Farið um jörðina!" Og þeir fóru um jörðina.
8 Þá kallaði hann á mig og sagði við mig: "Sjá, þeir sem fara til landsins norður frá, svala reiði minni við landið norður frá."
9 Orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:
10 Tak þú við gjöfum hinna herleiddu af hendi Heldaí, Tobía og Jedaja, og far þú sjálfur þann sama dag og gakk þú inn í hús Jósía Sefaníasonar, en þangað eru þeir komnir frá Babýlon.
11 Þar skalt þú taka silfur og gull og búa til kórónu og setja á höfuð Jósúa Jósadakssonar æðsta prests.
12 Og þú skalt mæla þannig til hans: Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, maður heitir Kvistur. Af hans rótum mun spretta, og hann mun byggja musteri Drottins.
13 Hann er sá sem byggja mun musteri Drottins, og hann mun tign hljóta, svo að hann mun sitja og drottna í hásæti sínu, og prestur mun vera honum til hægri handar, og friðarþel mun vera milli þeirra beggja.
14 En kórónan skal vera þeim Helem, Tobía, Jedaja og Hen Sefaníasyni til minningar í musteri Drottins.
15 Og þeir sem búa í fjarlægð, munu koma til að byggja musteri Drottins. Og þá munuð þér viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til yðar. Ef þér hlýðið röddu Drottins, Guðs yðar, þá mun þetta verða.
7 Á fjórða ríkisári Daríusar konungs kom orð Drottins til Sakaría. Á fjórða degi hins níunda mánaðar, í kislevmánuði,
2 sendu Betel Sareser og Regem Melek og menn hans sendimenn til þess að blíðka Drottin.
3 Þeir lögðu svolátandi fyrirspurn fyrir prestana, sem þjónuðu í húsi Drottins allsherjar, og fyrir spámennina: "Á ég að gráta og fasta í fimmta mánuðinum, eins og ég hefi gjört nú í mörg undanfarin ár?"
4 Þá kom orð Drottins allsherjar til mín, svo hljóðandi:
5 Tala þú til alls landslýðsins og til prestanna á þessa leið: Þar sem þér hafið fastað og kveinað í fimmta og sjöunda mánuðinum nú í sjötíu ár, hvort var það þá mín vegna, að þér föstuðuð?
6 Og er þér etið og drekkið, eruð það þá ekki þér, sem etið, og eruð það ekki þér, sem drekkið?
7 Eru þetta ekki þau orð, er Drottinn lét kunngjöra fyrir munn hinna fyrri spámanna, þá er Jerúsalem var byggð og naut friðar, ásamt borgunum umhverfis hana, og þá er Suðurlandið og sléttlendið voru byggð?
8 Þá kom orð Drottins til Sakaría, svo hljóðandi:
9 Svo segir Drottinn allsherjar: Dæmið rétta dóma og auðsýnið hver öðrum kærleika og miskunnsemi.
10 Veitið ekki ágang ekkjum og munaðarleysingjum, útlendingum né fátækum mönnum, og enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu.
11 En þeir vildu ekki gefa því gaum og þverskölluðust. Þeir gjörðu eyru sín dauf, til þess að þeir skyldu ekki heyra,
12 og þeir gjörðu hjörtu sín að demanti, til þess að þeir skyldu ekki heyra fræðsluna og orðin, sem Drottinn allsherjar sendi fyrir anda sinn, fyrir munn hinna fyrri spámanna, og það kom mikil reiði frá Drottni allsherjar.
13 Og eins og hann kallaði, en þeir heyrðu ekki, svo skulu þeir nú _ sagði Drottinn allsherjar _ kalla, en ég ekki heyra.
14 Og ég feyki þeim burt meðal allra þjóða, er þeir eigi hafa þekkt, og landið skal verða að auðn, þá er þeir eru burt farnir, svo að enginn fer þar um á leið fram eða aftur. Þannig gjörðu þeir unaðslegt land að auðn.
by Icelandic Bible Society