Síðari Samúelsbók 22
Icelandic Bible
22 Davíð flutti Drottni orð þessa ljóðs, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.
2 Hann mælti: Drottinn er bjarg mitt og vígi, hann er sá sem hjálpar mér.
3 Guð minn er hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín og hæli, frelsari minn, sem frelsar mig frá ofbeldi.
4 Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.
5 Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,
6 snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.
7 Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Í helgidómi sínum heyrði hann raust mína, óp mitt barst til eyrna honum.
8 Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður.
9 Reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.
10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.
11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.
12 Hann gjörði myrkrið í kringum sig að skýli, regnsortann og skýþykknið.
13 Frá ljómanum fyrir honum flugu hagl og eldglæringar.
14 Drottinn þrumaði af himni, hinn hæsti lét raust sína gjalla.
15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði þeim, lét eldingarnar leiftra og hræddi þá.
16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnum Drottins, fyrir andgustinum úr nösum hans.
17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.
18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.
19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.
20 Hann leiddi mig út á víðlendi, hann frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.
21 Drottinn fór með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna galt hann mér,
22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.
23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum og frá boðorðum hans hefi ég ekki vikið.
24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.
25 Drottinn galt mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.
26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,
27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.
28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir alla hrokafulla niðurlúta.
29 Já, þú ert lampi minn, Drottinn, Guð minn lýsir mér í myrkrinu.
30 Fyrir þína hjálp hleyp ég yfir virkisgrafir, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.
31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er skírt. Skjöldur er hann öllum þeim, sem leita hælis hjá honum.
32 Því að hver er Guð, nema Drottinn, og hver er hellubjarg, utan vor Guð?
33 Sá Guð, sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan.
34 Hann gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum.
35 Hann æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.
36 Þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.
37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum og ökklar mínir riðuðu ekki.
38 Ég elti óvini mína og náði þeim, og sneri ekki aftur fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.
39 Ég gjöreyddi þeim og molaði þá sundur, svo að þeir risu ekki upp framar og hnigu undir fætur mér.
40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.
41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, þeim eyddi ég, sem hata mig.
42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.
43 Ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem skarn á strætum.
44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna. Lýður, sem ég þekkti ekki, þjónar mér.
45 Framandi menn smjaðra fyrir mér, óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér.
46 Framandi menn dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.
47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns!
48 Þú Guð, sem veittir mér hefndir og braust þjóðir undir mig,
49 sem hreifst mig úr höndum óvina minna og hófst mig yfir mótstöðumenn mína. Frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.
50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.
51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.
by Icelandic Bible Society