Síðari Kroníkubók 19
Icelandic Bible
19 Jósafat Júdakonungur sneri við heim til sín til Jerúsalem, heill á húfi.
2 Þá gekk Jehú sjáandi Hananíson fyrir hann og mælti til Jósafats konungs: "Hjálpar þú hinum óguðlegu og elskar þú þá, er hata Drottin? Sakir þessa liggur á þér reiði Drottins.
3 Þó er nokkuð gott fundið í fari þínu, því að þú hefir útrýmt asérunum úr landinu og beint huga þínum að því að leita Guðs."
4 En Jósafat dvaldist í Jerúsalem nokkurn tíma. Síðan fór hann aftur um meðal lýðsins frá Beerseba allt til Efraímfjalla og sneri heim til Drottins, Guðs feðra þeirra.
5 Hann skipaði og dómara í landinu, í öllum víggirtum borgum í Júda, í hverri borg.
6 Og hann sagði við dómarana: "Gætið að, hvað þér gjörið, því að eigi dæmið þér í umboði manna, heldur Drottins, og hann er með yður í dómum.
7 Veri þá ótti Drottins yfir yður, hafið gát á breytni yðar, því að hjá Drottni, Guði vorum, er ekkert ranglæti eða manngreinarálit, né mútur þegnar."
8 En einnig í Jerúsalem skipaði Jósafat menn af levítunum og prestunum og ætthöfðingjum Ísraels til þess að gegna dómarastörfum Drottins og réttarþrætum Jerúsalembúa.
9 Og hann lagði svo fyrir þá: "Svo skuluð þér breyta í ótta Drottins, með trúmennsku og af heilum hug.
10 Og í hverri þrætu, er kemur fyrir yður frá bræðrum yðar, þeim er búa í borgum sínum, hvort sem það er vígsök eða um lögmál eða boðorð eða lög eða ákvæði, þá skuluð þér vara þá við, svo að þeir verði ekki sekir við Drottin, og reiði komi yfir yður og bræður yðar. Svo skuluð þér breyta, að þér verðið ekki sekir.
11 En Amarja höfuðprestur skal vera fyrir yður í öllum málefnum Drottins, og Sebadja Ísmaelsson, höfðingi Júda ættar, í öllum málefnum konungs, og levítana hafið þér fyrir starfsmenn. Gangið öruggir til starfa. Drottinn mun vera með þeim, sem góður er."
by Icelandic Bible Society