Sálmarnir 79-80
Icelandic Bible
79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.
2 Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.
3 Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.
4 Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
5 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?
6 Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.
7 Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.
8 Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.
9 Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.
10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.
11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,
12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.
13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.
80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.
2 Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.
3 Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!
4 Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
5 Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?
6 Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.
7 Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.
8 Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
9 Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,
10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.
11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.
12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.
13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?
14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.
15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa
16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.
17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.
18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,
19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.
20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
by Icelandic Bible Society