Add parallel Print Page Options

25 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: "Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"

26 Jesús sagði við hann: "Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?"

27 Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig."

28 Jesús sagði við hann: "Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa."

29 En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: "Hver er þá náungi minn?"

30 Því svaraði Jesús svo: "Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona.

31 Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá.

32 Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá.

33 En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann,

34 gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann.

35 Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.`

36 Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?"

37 Hann mælti: "Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum." Jesús sagði þá við hann: "Far þú og gjör hið sama."

Read full chapter