Lúkasarguðspjall 5
Icelandic Bible
5 Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.
2 Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín.
3 Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.
4 Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: "Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar."
5 Símon svaraði: "Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin."
6 Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.
7 Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.
8 Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: "Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður."
9 En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið.
10 Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: "Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða."
11 Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.
12 Svo bar við, er hann var í einni borginni, að þar var maður altekinn líkþrá. Hann sá Jesú, féll fram á ásjónu sína og bað hann: "Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."
13 Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!" Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin.
14 Og hann bauð honum að segja þetta engum. "En far þú," sagði hann, "sýn þig prestinum, og fórna fyrir hreinsun þína, eins og Móse bauð, þeim til vitnisburðar."
15 En fregnin um hann breiddist út því meir, og menn komu hópum saman til að hlýða á hann og læknast af meinum sínum.
16 En hann dró sig einatt í hlé til óbyggðra staða og var þar á bæn.
17 Dag nokkurn var hann að kenna. Þar sátu farísear og lögmálskennendur, komnir úr hverju þorpi í Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem, og kraftur Drottins var með honum til þess að lækna.
18 Komu þá menn með lama mann í rekkju og reyndu að bera hann inn og leggja hann fyrir framan Jesú.
19 En vegna mannfjöldans sáu þeir engin ráð til að komast inn með hann og fóru því upp á þak og létu hann síga í rekkjunni niður um helluþekjuna beint fram fyrir Jesú.
20 Og er hann sá trú þeirra, sagði hann: "Maður, syndir þínar eru þér fyrirgefnar."
21 Þá tóku fræðimennirnir og farísearnir að hugsa með sér: "Hver er sá, er fer með slíka guðlöstun? Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?"
22 En Jesús skynjaði gjörla hugsanir þeirra og sagði við þá: "Hvað hugsið þér í hjörtum yðar?
23 Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru þér fyrirgefnar,` eða segja: ,Statt upp og gakk`?
24 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér:" _ og nú talar hann við lama manninn _ "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín."
25 Jafnskjótt stóð hann upp frammi fyrir þeim, tók það, sem hann hafði legið á, fór heim til sín og lofaði Guð.
26 En allir voru furðu lostnir og lofuðu Guð. Og þeir urðu ótta slegnir og sögðu: "Óskiljanlegt er það, sem vér höfum séð í dag."
27 Eftir þetta fór hann út. Þá sá hann tollheimtumann, Leví að nafni, sitja hjá tollbúðinni og sagði við hann: "Fylg þú mér!"
28 Og hann stóð upp, yfirgaf allt og fylgdi honum.
29 Leví bjó honum veislu mikla í húsi sínu, og þar sat að borði með þeim mikill fjöldi tollheimtumanna og annarra.
30 En farísearnir og fræðimenn þeirra vönduðu um við lærisveina hans og sögðu: "Hvers vegna etið þér og drekkið með tollheimtumönnum og bersyndugum?"
31 Og Jesús svaraði þeim: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.
32 Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara til iðrunar."
33 En þeir sögðu við hann: "Lærisveinar Jóhannesar fasta oft og fara með bænir og eins lærisveinar farísea, en þínir eta og drekka."
34 Jesús sagði við þá: "Hvort getið þér ætlað brúðkaupsgestum að fasta, meðan brúðguminn er hjá þeim?
35 En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta á þeim dögum."
36 Hann sagði þeim einnig líkingu: "Enginn rífur bót af nýju fati og lætur á gamalt fat, því að bæði rífur hann þá nýja fatið og bótin af því hæfir ekki hinu gamla.
37 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir nýja vínið belgina og fer niður, en belgirnir ónýtast.
38 Nýtt vín ber að láta á nýja belgi.
39 Og enginn, sem drukkið hefur gamalt vín, vill nýtt, því að hann segir: ,Hið gamla er gott."`
by Icelandic Bible Society