Jobsbók 3-4
Icelandic Bible
3 Loks lauk Job upp munni sínum og bölvaði fæðingardegi sínum.
2 Hann tók til máls og sagði:
3 Farist sá dagur, sem ég fæddist á, og nóttin, sem sagði: Sveinbarn er getið!
4 Sá dagur verði að myrkri, Guð á hæðum spyrji ekki eftir honum, engin dagsbirta ljómi yfir honum.
5 Myrkur og niðdimma heimti hann aftur, skýflókar leggist um hann, dagmyrkvar skelfi hann.
6 Sú nótt _ myrkrið hremmi hana, hún gleðji sig eigi meðal ársins daga, hún komi eigi í tölu mánaðanna.
7 Sjá, sú nótt verði ófrjó, ekkert fagnaðaróp heyrist á henni.
8 Þeir sem bölva deginum, formæli henni, _ þeir sem leiknir eru í að egna Levjatan.
9 Myrkvist stjörnur aftureldingar hennar, vænti hún ljóss, en það komi ekki, og brágeisla morgunroðans fái hún aldrei litið,
10 af því að hún lokaði eigi fyrir mér dyrum móðurlífsins og byrgði ei ógæfuna fyrir augum mínum.
11 Hví dó ég ekki í móðurkviði, _ andaðist jafnskjótt og ég var kominn af móðurlífi?
12 Hvers vegna tóku kné á móti mér og hví voru brjóst til handa mér að sjúga?
13 Því þá lægi ég nú og hvíldist, væri sofnaður og hefði frið
14 hjá konungum og ráðherrum jarðarinnar, þeim er reistu sér hallir úr rústum,
15 eða hjá höfðingjum, sem áttu gull, þeim er fylltu hús sín silfri.
16 Eða ég væri ekki til eins og falinn ótímaburður, eins og börn, sem aldrei hafa séð ljósið.
17 Í gröfinni hætta hinir óguðlegu hávaðanum, og þar hvílast hinir örmagna.
18 Bandingjarnir hafa þar allir ró, heyra þar eigi köll verkstjórans.
19 Smár og stór eru þar jafnir, og þrællinn er þar laus við húsbónda sinn.
20 Hví gefur Guð ljós hinum þjáðu og líf hinum sorgbitnu?
21 þeim sem þrá dauðann, en hann kemur ekki, sem grafa eftir honum ákafara en eftir fólgnum fjársjóðum,
22 þeim sem mundu gleðjast svo, að þeir réðu sér ekki fyrir kæti, fagna, ef þeir fyndu gröfina;
23 _ þeim manni, sem enga götu sér og Guð hefir girt inni?
24 Því að andvörp eru orðin mitt daglegt brauð, og kvein mitt úthellist sem vatn.
25 Því að óttaðist ég eitthvað, þá hitti það mig, og það sem ég hræddist, kom yfir mig.
26 Ég mátti eigi næðis njóta, eigi friðar, eigi hvíldar, þá kom ný mæða.
4 Þá svaraði Elífas frá Teman og mælti:
2 Munt þú taka því illa, þótt maður dirfist að yrða á þig? Og þó, hver fær orða bundist?
3 Sjá, þú hefir áminnt marga, og magnþrota hendur hefir þú styrkt.
4 Þann sem hrasaði, reistu orð þín á fætur, og hnígandi hnén gjörðir þú stöðug.
5 En nú, þegar það kemur yfir þig, gefst þú upp, þegar það nær þér sjálfum, missir þú móðinn.
6 Er ekki guðhræðsla þín athvarf þitt og þitt grandvara líferni von þín?
7 Hugsaðu þig um: Hver er sá, er farist hafi saklaus, og hvar hefir hinum réttvísu verið tortímt?
8 Að því, er ég hefi séð: Þeir sem plægðu rangindi og sáðu óhamingju, þeir einir hafa uppskorið það.
9 Fyrir andgusti Guðs fórust þeir, fyrir reiðiblæstri hans urðu þeir að engu.
10 Öskur ljónsins og rödd óargadýrsins, _ tennur ljónshvolpanna eru brotnar sundur.
11 Ljónið ferst, af því að það vantar bráð, og hvolpar ljónynjunnar tvístrast.
12 En til mín laumaðist orð, og eyra mitt nam óminn af því _
13 í heilabrotunum, sem nætursýnirnar valda, þá er þungur svefnhöfgi er fallinn yfir mennina.
14 Ótti kom yfir mig og hræðsla, svo að öll bein mín nötruðu.
15 Og vindgustur straukst fram hjá andliti mínu, hárin risu á líkama mínum.
16 Þarna stóð það _ útlitið þekkti ég ekki _, einhver mynd fyrir augum mínum, ég heyrði ymjandi rödd:
17 "Er maðurinn réttlátur fyrir Guði, nokkur mannkind hrein fyrir skapara sínum?
18 Sjá, þjónum sínum treystir hann ekki, og hjá englum sínum finnur hann galla,
19 hvað þá hjá þeim, sem búa í leirhúsum, þeim sem eiga rót sína að rekja til moldarinnar, sem marðir eru sundur sem mölur væri.
20 Milli morguns og kvelds eru þeir molaðir sundur, án þess að menn gefi því gaum, tortímast þeir gjörsamlega.
21 Tjaldstaginu er kippt upp, þeir deyja, og það í vanhyggju sinni."
by Icelandic Bible Society