Fyrra bréf Páls til Þessa 4
Icelandic Bible
4 Að endingu biðjum vér yður, bræður, og áminnum í Drottni Jesú. Þér hafið numið af oss, hvernig yður ber að breyta og þóknast Guði, og þannig breytið þér líka. En takið enn meiri framförum.
2 Þér vitið, hver boðorð vér gáfum yður frá Drottni Jesú.
3 Það er vilji Guðs, að þér verðið heilagir. Hann vill, að þér haldið yður frá frillulífi,
4 að sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri,
5 en ekki í losta, eins og heiðingjarnir, er ekki þekkja Guð.
6 Og enginn skyldi gjöra bróður sínum rangt til né blekkja hann í slíkum sökum. Því að Drottinn hegnir fyrir allt þvílíkt, eins og vér höfum áður sagt yður og brýnt fyrir yður.
7 Ekki kallaði Guð oss til saurlifnaðar, heldur helgunar.
8 Sá, sem fyrirlítur þetta, fyrirlítur þess vegna ekki mann, heldur Guð, sem hefur gefið yður sinn heilaga anda.
9 En ekki hafið þér þess þörf, að ég skrifi yður um bróðurkærleikann, því Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan.
10 Það gjörið þér einnig öllum bræðrum í allri Makedóníu. En vér áminnum yður, bræður, að taka enn meiri framförum.
11 Leitið sæmdar í því að lifa kyrrlátu lífi og stunda hver sitt starf og vinna með höndum yðar, eins og vér höfum boðið yður.
12 Þannig hegðið þér yður með sóma gagnvart þeim, sem fyrir utan eru, og eruð upp á engan komnir.
13 Ekki viljum vér, bræður, láta yður vera ókunnugt um þá, sem sofnaðir eru, til þess að þér séuð ekki hryggir eins og hinir, sem ekki hafa von.
14 Því að ef vér trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þá, sem sofnaðir eru.
15 Því að það segjum vér yður, og það er orð Drottins, að vér, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en hinir sofnuðu.
16 Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa.
17 Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum vér vera með Drottni alla tíma.
18 Uppörvið því hver annan með þessum orðum.
by Icelandic Bible Society