Fyrra almenna bréf Péturs 3
Icelandic Bible
3 Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna,
2 þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.
3 Skart yðar sé ekki ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur,
4 heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs.
5 Þannig skreyttu sig einnig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs. Þær voru eiginmönnum sínum undirgefnar,
6 eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra. Og börn hennar eruð þér orðnar, er þér hegðið yður vel og látið ekkert skelfa yður.
7 Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.
8 Að lokum, verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir.
9 Gjaldið ekki illt fyrir illt eða illmæli fyrir illmæli, heldur þvert á móti blessið, því að þér eruð til þess kallaðir að erfa blessunina.
10 Sá sem vill elska lífið og sjá góða daga, haldi tungu sinni frá vondu og vörum sínum frá að mæla svik.
11 Hann sneiði hjá illu og gjöri gott, ástundi frið og keppi eftir honum.
12 Því að augu Drottins eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra. En auglit Drottins er gegn þeim, sem illt gjöra.
13 Hver er sá, er mun gjöra yður illt, ef þér kappkostið það sem gott er?
14 En þótt þér skylduð líða illt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir. Hræðist eigi og skelfist eigi fyrir neinum.
15 En helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er.
16 En gjörið það með hógværð og virðingu, og hafið góða samvisku, til þess að þeir, sem lasta góða hegðun yðar sem kristinna manna, verði sér til skammar í því, sem þeir mæla gegn yður.
17 Því að það er betra, ef Guð vill svo vera láta, að þér líðið fyrir að breyta vel, heldur en fyrir að breyta illa.
18 Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda.
19 Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi.
20 Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar _ það er átta _ sálir í vatni.
21 Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists,
22 sem uppstiginn til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.
by Icelandic Bible Society