Síðari Samúelsbók 7-10
Icelandic Bible
7 Svo bar til, þá er konungur sat í höll sinni _ en Drottinn hafði þá veitt honum frið fyrir öllum óvinum hans allt í kring _,
2 að konungur sagði við Natan spámann: "Sjá, ég bý í höll af sedrusviði, en örk Guðs býr undir tjalddúk."
3 Natan svaraði konungi: "Far þú og gjör allt, sem þér er í hug, því að Drottinn er með þér."
4 En hina sömu nótt kom orð Drottins til Natans, svohljóðandi:
5 "Far og seg þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn: Ætlar þú að reisa mér hús til að búa í?
6 Ég hefi ekki búið í húsi, síðan ég leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag, heldur ferðaðist ég í tjaldi og búð.
7 Alla þá stund, er ég hefi um farið meðal Ísraelsmanna, hefi ég þá sagt nokkurt orð í þá átt við nokkurn af dómurum Ísraels, er ég setti til að vera hirða lýðs míns, Ísraels: ,Hví reisið þér mér ekki hús af sedrusviði?`
8 Nú skalt þú svo segja þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég tók þig úr haglendinu, frá hjarðmennskunni, og setti þig höfðingja yfir lýð minn, Ísrael.
9 Ég hefi verið með þér í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur, og upprætt alla óvini þína fyrir þér. Ég mun gjöra nafn þitt sem nafn hinna mestu manna, sem á jörðinni eru,
10 og fá lýð mínum Ísrael stað og gróðursetja hann þar, svo að hann geti búið á sínum stað og geti verið öruggur framvegis. Níðingar skulu ekki þjá hann framar eins og áður,
11 frá því er ég setti dómara yfir lýð minn Ísrael, og ég vil veita þér frið fyrir öllum óvinum þínum. Og Drottinn boðar þér, að hann muni reisa þér hús.
12 Þegar ævi þín er öll og þú leggst hjá feðrum þínum, mun ég hefja son þinn eftir þig, þann er frá þér kemur, og staðfesta konungdóm hans.
13 Hann skal reisa hús mínu nafni, og ég mun staðfesta konungsstól hans að eilífu.
14 Ég vil vera honum faðir, og hann skal vera mér sonur, svo að þótt honum yfirsjáist, þá mun ég hirta hann með manna vendi og manns barna höggum,
15 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka, eins og ég tók hana frá fyrirrennara þínum.
16 Hús þitt og ríki skal stöðugt standa fyrir mér að eilífu. Hásæti þitt skal vera óbifanlegt að eilífu."
17 Natan flutti Davíð öll þessi orð og sagði honum sýn þessa alla.
18 Þá gekk Davíð konungur inn og settist niður frammi fyrir Drottni og mælti: "Hver er ég, Drottinn Guð, og hvað er hús mitt, að þú skulir hafa leitt mig til þessa?
19 Og þér nægði það eigi, Drottinn Guð, heldur hefir þú og fyrirheit gefið um hús þjóns þíns langt fram í aldir, og það meira að segja á mannlegan hátt, Drottinn Guð.
20 En hvað má Davíð enn við þig mæla? Þú þekkir sjálfur þjón þinn, Drottinn Guð!
21 Sakir þjóns þíns og að þínum vilja hefir þú gjört þetta, að boða þjóni þínum alla þessa miklu hluti.
22 Fyrir því ert þú mikill, Drottinn Guð, því að enginn er sem þú, og enginn er Guð nema þú samkvæmt öllu því, er vér höfum heyrt með eyrum vorum.
23 Og hvaða þjóð önnur á jörðinni jafnast við þína þjóð, Ísrael, að Guð hafi framgengið og endurleyst hana sér að eignarlýð og aflað sér frægðar? Þú gjörðir fyrir þá þessa miklu hluti og hræðilegu, að stökkva burt þjóðum og guðum þeirra undan þínu fólki, sem þú hafðir endurleyst af Egyptalandi.
24 Þú hefir gjört lýð þinn Ísrael að þínum lýð um aldur og ævi, og þú, Drottinn, gjörðist Guð þeirra.
25 Og lát þú, Drottinn Guð, fyrirheit það, er þú hefir gefið um þjón þinn og um hús hans, stöðugt standa um aldur og ævi, og gjör þú svo sem þú hefir heitið.
26 Þá mun nafn þitt mikið verða að eilífu og hljóða svo: Drottinn allsherjar, Guð yfir Ísrael _ og hús þjóns þíns Davíðs mun stöðugt standa fyrir þér.
27 Því að þú, Drottinn allsherjar, Guð Ísraels, hefir birt þjóni þínum þetta: ,Ég mun reisa þér hús.` Fyrir því hafði þjónn þinn djörfung til að bera þessa bæn fram fyrir þig.
28 Og nú, Drottinn Guð, þú ert Guð og þín orð eru sannleikur, og þú hefir gefið þjóni þínum þetta dýrlega fyrirheit.
29 Virst þú nú að blessa hús þjóns þíns, svo að það sé til að eilífu fyrir þínu augliti. Því að þú, Drottinn Guð, hefir fyrirheit gefið, og fyrir blessun þína mun hús þjóns þíns blessað verða að eilífu."
8 Eftir þetta vann Davíð sigur á Filistum og braut þá undir sig og tók tauma höfuðstaðarins úr höndum Filista.
2 Hann vann og sigur á Móabítum og mældi þá með vað, það er að segja, hann lét þá leggjast niður á jörðina og mældi tvo vaði til lífláts og eina vaðlengd til að halda lífi. Þannig urðu Móabítar skattskyldir þegnar Davíðs.
3 Davíð vann og sigur á Hadadeser Rehóbssyni, konungi í Sóba, þá er hann fór leiðangur til að ná aftur ríki við Efrat.
4 Vann Davíð af honum eitt þúsund og sjö hundruð riddara og tuttugu þúsundir fótgönguliðs. Lét Davíð skera sundur hásinarnar á öllum stríðshestunum og hélt aðeins hestum fyrir hundrað stríðsvagna eftir.
5 Og er Sýrlendingar frá Damaskus komu til liðs við Hadadeser, konung í Sóba, þá felldi Davíð tuttugu og tvö þúsund manns af Sýrlendingum.
6 Og Davíð setti landstjóra á Sýrlandi, því er kennt er við Damaskus, og urðu Sýrlendingar skattskyldir þegnar Davíðs. Þannig veitti Drottinn Davíð sigur, hvert sem hann fór.
7 Davíð tók og hina gullnu skjöldu, er þjónar Hadadesers höfðu borið, og flutti þá til Jerúsalem.
8 Auk þess tók Davíð konungur afar mikið af eir í Beta og Berótaj, borgum Hadadesers.
9 Þegar Tóú, konungur í Hamat, frétti að Davíð hefði lagt að velli allan her Hadadesers,
10 þá sendi Tóú Hadóram son sinn á fund Davíðs konungs til þess að heilsa á hann og árna honum heilla, er hann hafði barist við Hadadeser og unnið sigur á honum _ því að Tóú átti í ófriði við Hadadeser _, og hafði hann með sér gripi af silfri, gulli og eiri.
11 Gripina helgaði Davíð konungur einnig Drottni, ásamt silfri því og gulli, er hann hafði helgað frá öllum þeim þjóðum, er hann hafði undirokað:
12 frá Edóm, Móab, Ammónítum, Filistum, Amalek og af herfangi Hadadesers Rehóbssonar, konungs í Sóba.
13 Davíð jók orðstír sinn, þá er hann sneri aftur og hafði unnið sigur á Sýrlendingum, með því að vinna sigur á Edómítum í Saltdalnum, átján þúsund manns.
14 Og hann setti landstjóra í Edóm. Um allt Edóm setti hann landstjóra, og þannig urðu allir Edómítar þegnar Davíðs. En Drottinn veitti Davíð sigur, hvert sem hann fór.
15 Davíð ríkti yfir öllum Ísrael og lét alla þjóð sína njóta laga og réttar.
16 Jóab Serújuson var fyrir hernum, og Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari.
17 Sadók Ahítúbsson og Ahímelek Abjatarsson voru prestar og Seraja kanslari.
18 Benaja Jójadason var fyrir Kretum og Pletum, og synir Davíðs voru prestar.
9 Davíð sagði: "Er nú nokkur maður eftir orðinn af húsi Sáls? Honum vil ég miskunn auðsýna fyrir sakir Jónatans."
2 Af húsi Sáls var til maður, er Síba hét. Hann var kallaður á fund Davíðs. Og konungur sagði við hann: "Ert þú Síba?" Hann svaraði: "Þinn þjónn!"
3 Þá mælti konungur: "Er nokkur eftir af húsi Sáls, að ég megi auðsýna honum miskunn Guðs?" Síba sagði við konung: "Enn er á lífi sonur Jónatans og er lami á báðum fótum."
4 Þá sagði konungur við hann: "Hvar er hann?" Síba sagði við konung: "Hann er í húsi Makírs Ammíelssonar í Lódebar."
5 Þá sendi Davíð konungur og lét sækja hann í hús Makírs Ammíelssonar í Lódebar.
6 Og Mefíbóset Jónatansson, Sálssonar, gekk fyrir Davíð, féll fram á ásjónu sína og laut honum. Og Davíð sagði: "Mefíbóset!" Hann svaraði: "Hér er þjónn þinn."
7 Þá mælti Davíð til hans: "Ver þú óhræddur, því að ég vil auðsýna þér miskunn fyrir sakir Jónatans, föður þíns, og fá þér aftur allar jarðeignir Sáls forföður þíns, og þú skalt jafnan eta við mitt borð."
8 Þá laut hann og mælti: "Hvað er þjónn þinn þess, að þú skiptir þér af dauðum hundi, eins og mér?"
9 Síðan kallaði konungur á Síba, þjón Sáls, og mælti til hans: "Allt sem Sál átti, og allt sem hús hans átti gef ég syni herra þíns.
10 Skalt þú nú yrkja landið fyrir hann ásamt sonum þínum og þrælum og hirða af því, svo að sonur herra þíns hafi fæðu og megi eta. En Mefíbóset, sonur herra þíns, skal jafnan eta við mitt borð." Og Síba átti fimmtán sonu og tuttugu þræla.
11 Síba sagði við konung: "Þjónn þinn mun gjöra að öllu svo sem minn herra konungurinn hefir boðið þjóni sínum." Og Mefíbóset át við borð Davíðs, svo sem væri hann einn konungssona.
12 Mefíbóset átti ungan son, sem Míka hét. Allir sem bjuggu í húsi Síba, voru þjónar Mefíbósets.
13 En Mefíbóset bjó í Jerúsalem, því að hann át jafnan við borð konungs. Hann var haltur á báðum fótum.
10 Eftir þetta bar svo til, að konungur Ammóníta dó, og tók Hanún sonur hans ríki eftir hann.
2 Þá sagði Davíð: "Ég vil sýna Hanún Nahassyni vináttu, eins og faðir hans sýndi mér vináttu." Síðan sendi Davíð þjóna sína til að hugga hann eftir föðurmissinn. En er þjónar Davíðs komu í land Ammóníta,
3 þá sögðu höfðingjar Ammóníta við Hanún, herra sinn: "Hyggur þú, að Davíð vilji heiðra föður þinn, er hann gjörir menn á þinn fund til að hugga þig? Mun Davíð ekki hafa sent þjóna sína á þinn fund til þess að njósna í borginni og kanna hana og kollvarpa henni síðan?"
4 Þá lét Hanún taka þjóna Davíðs og raka af þeim hálft skeggið og skera af þeim klæðin til hálfs, upp á þjóhnappa, og lét þá síðan fara.
5 Davíð voru sögð þessi tíðindi, og sendi hann þá menn á móti þeim, _ því að mennirnir voru mjög svívirtir _, og konungur lét segja þeim: "Verið í Jeríkó, uns skegg yðar er vaxið, og komið síðan heim aftur."
6 En er Ammónítar sáu, að þeir höfðu gjört sig illa þokkaða hjá Davíð, sendu þeir menn og tóku á mála Sýrlendinga frá Bet Rehób og Sýrlendinga frá Sóba, tuttugu þúsundir fótgönguliðs, svo og konunginn í Maaka með þúsund manns, og tólf þúsund manns frá Tób.
7 En er Davíð frétti það, sendi hann Jóab af stað með allan herinn, það er að segja kappana.
8 Ammónítar fóru og út og fylktu liði sínu fyrir utan borgarhliðið, en Sýrlendingarnir frá Sóba og Rehób, svo og mennirnir frá Tób og Maaka, stóðu úti á víðavangi einir sér.
9 En er Jóab sá, að honum var búinn bardagi bæði að baki og að framan, valdi hann úr öllu einvalaliði Ísraels og fylkti því á móti Sýrlendingum.
10 Hitt liðið fékk hann Abísaí bróður sínum, og fylkti hann því á móti Ammónítum.
11 Og Jóab mælti: "Ef Sýrlendingar bera mig ofurliði, þá verður þú að hjálpa mér, en ef Ammónítar bera þig ofurliði, þá mun ég koma þér til hjálpar.
12 Vertu hughraustur, og sýnum nú af oss karlmennsku fyrir þjóð vora og borgir Guðs vors, en Drottinn gjöri það, sem honum þóknast."
13 Síðan lagði Jóab og liðið, sem með honum var, til orustu við Sýrlendinga, og þeir flýðu fyrir honum.
14 En er Ammónítar sáu, að Sýrlendingar flýðu, lögðu þeir og á flótta fyrir Abísaí og leituðu inn í borgina. En Jóab sneri heim frá Ammónítum og fór til Jerúsalem.
15 Þegar Sýrlendingar sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, söfnuðust þeir saman.
16 Og Hadadeser sendi boð og bauð út Sýrlendingum, sem voru hinumegin við Efrat, og þeir komu til Helam, og Sóbak, hershöfðingi Hadadesers, var fyrir þeim.
17 Og er Davíð var sagt frá því, þá safnaði hann saman öllum Ísrael, fór yfir Jórdan og kom til Helam. Sýrlendingar fylktu liði sínu í móti Davíð og börðust við hann.
18 En Sýrlendingar flýðu fyrir Ísrael, og Davíð felldi sjö hundruð vagnkappa og fjörutíu þúsund manns af Sýrlendingum. Hann særði og hershöfðingja þeirra, Sóbak, svo að hann dó þar.
19 En er konungarnir, sem voru lýðskyldir Hadadeser, sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, sömdu þeir allir frið við Ísrael og gjörðust lýðskyldir honum. Upp frá því þorðu Sýrlendingar ekki að veita Ammónítum lið.
by Icelandic Bible Society