Síðari bók konunganna 7-9
Icelandic Bible
7 En Elísa mælti: "Heyrið orð Drottins. Svo segir Drottinn: Á morgun í þetta mund mun ein sea af fínu mjöli kosta einn sikil og tvær seur af byggi einn sikil í borgarhliði Samaríu."
2 Riddari sá, er konungur studdist við, svaraði þá guðsmanninum og mælti: "Þótt Drottinn gjörði raufar á himininn, hvernig mætti þetta verða?" Elísa svaraði: "Þú munt sjá það með eigin augum, en einskis af því neyta."
3 Fjórir menn líkþráir voru úti fyrir borgarhliði Samaríu. Sögðu þeir hver við annan: "Hví eigum vér að sitja hér, þangað til vér deyjum?
4 Ef vér segjum: ,Vér skulum fara inn í borgina,` þá er hungur í borginni og þá munum vér deyja þar, og ef vér sitjum hér kyrrir, munum vér og deyja. Skulum vér því fara yfir í herbúðir Sýrlendinga. Ef þeir láta oss lífi halda, þá lifum vér, en drepi þeir oss, þá deyjum vér."
5 Stóðu þeir síðan upp í rökkrinu til þess að fara yfir í herbúðir Sýrlendinga. En er þeir komu út að herbúðum Sýrlendinga, þá var þar enginn maður.
6 Drottinn hafði látið heyrast í herbúðir Sýrlendinga vagnagný og jódyn, gný af miklu herliði, svo að þeir sögðu hver við annan: "Sjá, Ísraelskonungur hefir leigt gegn oss konunga Hetíta og konunga Egyptalands til þess að ráðast á oss."
7 Þá hlupu þeir upp í rökkrinu og flýðu og létu eftir tjöld sín og hesta og asna _ herbúðirnar eins og þær voru _ og flýðu til þess að forða lífinu.
8 En er hinir líkþráu menn komu út að herbúðunum, gengu þeir inn í eitt tjaldið, átu og drukku, höfðu þaðan silfur, gull og klæði og gengu burt og fólu það. Síðan komu þeir aftur, gengu inn í annað tjald, höfðu og nokkuð þaðan, gengu burt og fólu.
9 Því næst sögðu þeir hver við annan: "Þetta er ekki rétt gjört af oss. Þessi dagur er dagur fagnaðartíðinda. En ef vér þegjum og bíðum þangað til í býti á morgun, þá mun það oss í koll koma. Vér skulum því fara og flytja tíðindin í konungshöllina."
10 Síðan fóru þeir, kölluðu til hliðvarða borgarinnar og sögðu þeim svo frá: "Vér komum í herbúðir Sýrlendinga. Þar var þá enginn maður, og engin mannsraust heyrðist, en hestar og asnar stóðu þar bundnir og tjöldin eins og þau voru."
11 Þá kölluðu hliðverðirnir og menn sögðu frá því inni í konungshöllinni.
12 Þá reis konungur upp um nóttina og sagði við menn sína: "Ég skal segja yður, hvað Sýrlendingar ætla nú að gjöra oss. Þeir vita, að vér sveltum. Hafa þeir því farið burt úr herbúðunum til þess að fela sig úti á mörkinni, með því að þeir hugsa: Þegar þeir fara út úr borginni, skulum vér taka þá höndum lifandi og brjótast inn í borgina."
13 Þá tók einn af mönnum hans til máls og sagði: "Taki menn fimm af hestunum, sem eftir eru. Fyrir þeim, sem hér eru eftir skildir, fer eins og fyrir öllum fjölda Ísraels, sem þegar er farinn veg allrar veraldar. Skulum vér senda þá til þess að vita, hvað um er að vera."
14 Tóku þeir þá tvo vagna með hestum fyrir. Sendi konungur þá á eftir her Sýrlendinga og sagði: "Farið og gætið að!"
15 Fóru þeir þá á eftir þeim alla leið til Jórdanar, og var allur vegurinn þakinn klæðum og vopnum, sem Sýrlendingar höfðu varpað frá sér, er þeir flýðu í ofboði. Sneru sendimennirnir þá við og fluttu konungi tíðindin.
16 Þá gekk lýðurinn út og rændi herbúðir Sýrlendinga, og fór þá svo, að ein sea af fínu mjöli kostaði einn sikil og tvær seur af byggi einn sikil, eins og Drottinn hafði sagt.
17 En konungur setti riddarann, er hann hafði stuðst við, til að gæta hliðsins, og tróð lýðurinn hann undir í hliðinu, svo að hann beið bana samkvæmt því orði guðsmannsins, er hann hafði talað, þá er konungur fór ofan til hans.
18 Því að þegar guðsmaðurinn sagði við konunginn: "Í þetta mund á morgun munu tvær seur af byggi kosta einn sikil og ein sea af fínu mjöli einn sikil í Samaríuhliði,"
19 þá svaraði riddarinn guðsmanninum og sagði: "Sjá, þótt Drottinn gjörði raufar á himininn, hvernig mætti slíkt verða?" En Elísa svaraði: "Þú munt sjá það með eigin augum, en einskis af því neyta."
20 Og svo fór fyrir honum. Lýðurinn tróð hann undir í hliðinu, svo að hann beið bana.
8 Elísa talaði við konuna, er soninn átti, sem hann hafði lífgað, á þessa leið: "Tak þig upp og far burt með fólk þitt og sest þú að einhvers staðar erlendis, því að Drottinn kallar sjö ára hallæri yfir landið, og er það þegar komið."
2 Þá tók konan sig upp og gjörði eins og guðsmaðurinn sagði, fór burt með fólk sitt og dvaldist sjö ár í Filistalandi.
3 Að sjö árunum liðnum kom konan aftur heim frá Filistalandi og lagði af stað til þess að biðja konung ásjár um hús sitt og akra.
4 Konungur var þá að tala við Gehasí, þjón guðsmannsins, og sagði: "Seg mér af öllum stórmerkjunum, sem Elísa hefir gjört."
5 Og er hann var að segja konungi, hvernig hann hefði lífgað hinn dána, þá kom konan, er soninn átti, sem hann hafði lífgað, og bað konung ásjár um hús sitt og akra. Þá sagði Gehasí: "Minn herra konungur! Þetta er konan, og þetta er sonur hennar, sá er Elísa lífgaði."
6 Konungur spurði konuna, og sagði hún honum frá. Fékk konungur henni einn af hirðmönnunum og sagði við hann: "Sjá þú um, að hún fái aftur allt, sem hún á, svo og allan afrakstur akranna frá þeim degi, er hún fór úr landi, allt til þessa dags."
7 Elísa kom til Damaskus. Þá lá Benhadad Sýrlandskonungur sjúkur. Og er honum var sagt: "Guðsmaðurinn er kominn hingað,"
8 þá sagði konungur við Hasael: "Tak með þér gjöf nokkra og far til fundar við guðsmanninn og lát hann ganga til frétta við Drottin, hvort ég muni aftur heill verða af sjúkleik þessum."
9 Hasael fór þá til fundar við hann og tók með sér gjöf nokkra, alls konar gersemar úr Damaskus, klyfjar á fjörutíu úlfalda. Og er hann kom, gekk hann fyrir hann og mælti: "Sonur þinn, Benhadad Sýrlandskonungur, sendir mig til þín og lætur spyrja: ,Mun ég aftur heill verða af sjúkleik þessum?"`
10 Elísa svaraði honum: "Far og seg honum: ,Víst munt þú heill verða,` þótt Drottinn hafi birt mér, að hann muni deyja."
11 Og guðsmaðurinn starði fram fyrir sig og skelfdist harla mjög og grét.
12 Þá sagði Hasael: "Hví grætur þú, herra minn?" Hann svaraði: "Af því að ég veit, hvílíkt böl þú munir búa Ísraelsmönnum. Þú munt leggja eld í víggirtar borgir þeirra, drepa æskumenn þeirra með sverði, slá ungbörnum þeirra niður við og rista á kvið þungaðar konur þeirra."
13 Hasael svaraði: "Hvað er þjónn þinn, hundurinn sá, að hann megi vinna slík stórvirki?" Þá mælti Elísa: "Drottinn hefir sýnt mér þig svo sem konung yfir Sýrlandi."
14 Síðan fór Hasael burt frá Elísa, og er hann kom til herra síns, sagði konungur við hann: "Hvað sagði Elísa við þig?" Hann svaraði: "Hann sagði mér að þú mundir áreiðanlega heill verða."
15 En daginn eftir tók Hasael ábreiðu, dýfði henni í vatn og breiddi hana yfir andlit honum, svo að hann kafnaði. Og Hasael tók ríki eftir hann.
16 Á fimmta ríkisári Jórams Akabssonar Ísraelskonungs varð Jóram Jósafatsson konungur í Júda.
17 Hann var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem.
18 Hann fetaði í fótspor Ísraelskonunga, eins og Akabs ætt gjörði, því að hann var kvæntur dóttur Akabs. Þannig gjörði hann það, sem illt var í augum Drottins.
19 En Drottinn vildi ekki afmá Júda, vegna Davíðs þjóns síns, samkvæmt því, er hann hafði heitið honum, að gefa honum ávallt lampa fyrir augliti hans.
20 Á hans dögum brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og tóku konung yfir sig.
21 Þá fór Jóram með öllu vagnliðinu yfir til Saír. Hann tók sig upp um nóttina og barði á Edómítum, sem héldu honum í herkví, svo og á foringjum vagnliðsins, og flýði liðið til heimkynna sinna.
22 Þannig brutust Edómítar undan yfirráðum Júda, og er svo enn í dag. Þá braust og Líbna undan um sama leyti.
23 Það sem meira er að segja um Jóram og allt sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.
24 Og Jóram lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs. Og Ahasía sonur hans tók ríki eftir hann.
25 Á tólfta ríkisári Jórams Akabssonar Ísraelskonungs tók ríki Ahasía, Jóramsson Júdakonungs.
26 Ahasía var tuttugu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og ríkti hann eitt ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí Ísraelskonungs.
27 Hann fetaði í fótspor Akabs ættar og gjörði það sem illt var í augum Drottins, eins og ætt Akabs, því að hann var í mægðum við ætt Akabs.
28 Ahasía fór herför með Jóram Akabssyni í móti Hasael Sýrlandskonungi til Ramót í Gíleað, en Sýrlendingar særðu Jóram.
29 Þá sneri Jóram konungur aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er Sýrlendingar höfðu veitt honum við Rama, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. En Ahasía Jóramsson Júdakonungur fór ofan til Jesreel til þess að vitja um Jóram Akabsson, af því að hann var sjúkur.
9 Elísa spámaður kallaði einn af spámannasveinunum og sagði við hann: "Gyrð þú lendar þínar, tak þessa flösku af olífuolíu með þér og far til Ramót í Gíleað.
2 Og er þú ert þangað kominn, skalt þú svipast þar um eftir Jehú Jósafatssyni, Nimsísonar. Gakk síðan til hans og bið hann standa upp frá félögum sínum og far með hann inn í innsta herbergið.
3 Því næst skalt þú hella olífuolíunni yfir höfuð honum og segja: ,Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael.` Opna þú síðan dyrnar og flýt þér burt og dvel eigi."
4 Fór þá sveinninn, sveinn spámannsins, til Ramót í Gíleað.
5 En er hann kom þangað, sátu herforingjarnir þar saman. Og hann mælti: "Ég á erindi við þig, herforingi!" Jehú svaraði: "Við hvern af oss?" Hann svaraði: "Við þig, herforingi!"
6 Þá stóð hann upp og gekk inn í húsið. Og hann hellti olíu yfir höfuð honum og sagði við hann: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég smyr þig til konungs yfir lýð Drottins, yfir Ísrael.
7 Þú skalt útrýma ætt Akabs, herra þíns, svo að ég fái þann veg komið fram hefndum á Jesebel fyrir blóð þjóna minna, spámannanna, og fyrir blóð allra þjóna Drottins.
8 Já, öll ætt Akabs skal fyrirfarast, og ég mun uppræta fyrir Akabsætt hvern karlmann, bæði þræl og frelsingja í Ísrael.
9 Og ég mun fara með ætt Akabs eins og með ætt Jeróbóams Nebatssonar og ætt Basa Ahíasonar.
10 En Jesebel skulu hundar eta í landareign Jesreelborgar, og enginn skal jarða hana." Síðan lauk hann upp hurðinni og flýtti sér burt.
11 En er Jehú kom út til þjóna herra síns, sögðu þeir við hann: "Er nokkuð að? Hvers vegna er þessi vitfirringur til þín kominn?" Hann svaraði þeim: "Þér þekkið manninn og tal hans."
12 Þá sögðu þeir: "Það er ósatt mál! Seg oss það." Þá sagði hann: "Svo og svo hefir hann við mig talað og sagt: ,Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael."`
13 Þá tóku þeir í skyndi hver sína yfirhöfn og lögðu fyrir fætur honum á sjálfar tröppurnar, þeyttu lúðurinn og hrópuðu: "Jehú er konungur orðinn!"
14 Þannig hóf Jehú Jósafatsson, Nimsísonar, samsæri gegn Jóram, en Jóram og allur Ísrael hafði varið Ramót í Gíleað fyrir Hasael Sýrlandskonungi.
15 En síðan hafði Jóram konungur snúið aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er Sýrlendingar höfðu veitt honum, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. Jehú mælti: "Ef þér viljið fylgja mér, þá látið engan undan komast út úr borginni til þess að segja tíðindin í Jesreel."
16 Síðan steig Jehú á vagn sinn og hélt til Jesreel, því að þar lá Jóram, og Ahasía Júdakonungur var kominn þangað til að vitja um Jóram.
17 Varðmaður stóð uppi á turninum í Jesreel, og er hann sá flokk Jehú koma, sagði hann: "Ég sé flokk manna." Þá mælti Jóram: "Tak riddara og send móti þeim til þess að spyrja þá, hvort þeir fari með friði."
18 Riddarinn fór í móti honum og sagði: "Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði." Jehú svaraði: "Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér." Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: "Sendimaðurinn er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur."
19 Þá sendi hann annan riddara, og er hann kom til þeirra, sagði hann: "Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði." Jehú svaraði: "Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér."
20 Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: "Hann er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur. Er þar ekið, sem aki þar Jehú Nimsíson, því að hann ekur eins og vitlaus maður."
21 Þá bauð Jóram að beita fyrir vagn sinn. Og er beitt hafði verið fyrir vagn hans, fóru þeir Jóram Ísraelskonungur og Ahasía Júdakonungur af stað, hvor á sínum vagni. Fóru þeir í móti Jehú og hittu hann á landspildu Nabóts Jesreelíta.
22 En er Jóram sá Jehú, sagði hann: "Fer þú með friði, Jehú?" Hann svaraði: "Hvað er um frið að ræða, meðan Jesebel móðir þín heldur áfram með hórdóm sinn og hina margvíslegu töfra sína?"
23 Þá sneri Jóram við og lagði á flótta og kallaði til Ahasía: "Svik, Ahasía!"
24 En Jehú þreif boga sinn og skaut Jóram milli herða, svo að örin gekk í gegnum hjartað, og hné hann niður í vagni sínum.
25 Þá sagði hann við Bídkar, riddara sinn: "Tak hann og kasta honum á landspildu Nabóts Jesreelíta, því að þú manst víst, að ég og þú riðum báðir á eftir Akab föður hans, þá er Drottinn kvað upp þessi dómsorð gegn honum:
26 ,Sannarlega sá ég í gær blóð Nabóts og blóð barna hans, segir Drottinn, og mun ég launa þér á landspildu þessari, segir Drottinn.` Tak hann því og kasta honum á landspilduna eftir orði Drottins."
27 Þegar Ahasía Júdakonungur sá þetta, flýði hann í áttina til garðhússins. En Jehú elti hann og sagði: "Hann líka! Skjótið hann í vagninum!" Og þeir skutu hann á Gúr-stígnum, sem er hjá Jibleam. Og hann flýði til Megiddó og dó þar.
28 Síðan settu menn hans hann á vagn og fluttu hann til Jerúsalem og jörðuðu hann í gröf hans hjá feðrum hans í borg Davíðs.
29 En Ahasía hafði orðið konungur í Júda á ellefta ríkisári Jórams Akabssonar.
30 Nú kom Jehú til Jesreel. En er Jesebel frétti það, smurði hún sig í kringum augun skrýddi höfuð sitt og horfði út um gluggann.
31 Og er Jehú kom í hliðið, kallaði hún: "Hvernig líður Simrí, sem myrti herra sinn?"
32 En hann leit upp í gluggann og mælti: "Hver er með mér, hver?" Og er tveir eða þrír hirðmenn litu út til hans,
33 sagði hann: "Kastið henni ofan!" Og þeir köstuðu henni ofan, og slettist þá blóð hennar á vegginn og hestana, og tróðu þeir hana undir fótunum.
34 En hann gekk inn og át og drakk. Síðan sagði hann: "Lítið eftir þessari bölvuðu konu og jarðið hana, því að konungsdóttir er hún."
35 Þá fóru þeir til þess að jarða hana, en fundu ekkert af henni, nema hauskúpuna og fætur og hendur.
36 Og er þeir komu aftur og sögðu honum frá, mælti hann: "Rætast nú orð Drottins, þau er hann talaði fyrir munn þjóns síns Elía frá Tisbe: ,Á landareign Jesreelborgar skulu hundar eta hold Jesebelar,
37 og hræ Jesebelar skal liggja á landareign Jesreelborgar sem tað á túni, svo að menn skulu ekki geta sagt: Það er Jesebel."`
by Icelandic Bible Society