Síðari bók konunganna 4-6
Icelandic Bible
4 Ein af konum spámannasveinanna kallaði til Elísa og mælti: "Þjónn þinn, maðurinn minn, er dáinn, og þú veist, að þjónn þinn óttaðist Drottin. Nú er lánssalinn kominn til að taka báða drengina mína sér að þrælum."
2 En Elísa sagði við hana: "Hvað á ég að gjöra fyrir þig? Seg þú mér, hvað þú átt til heima." Hún svaraði: "Ambátt þín á ekkert til heima, nema krús með olífuolíu."
3 Þá mælti hann: "Far þú þá og fá til láns ílát utan húss hjá öllum nágrönnum þínum, tóm ílát, og heldur fleiri en færri.
4 Gakk því næst inn og loka dyrunum á eftir þér og sonum þínum og hell í öll þessi ílát og set þau frá þér jafnóðum og þau fyllast."
5 Gekk hún þá burt frá honum. Og hún lokaði dyrunum á eftir sér og sonum sínum. Þeir báru að henni, en hún hellti í.
6 En er ílátin voru full, sagði hún við son sinn: "Fær mér enn ílát." Hann sagði við hana: "Það er ekkert ílát eftir." Þá hætti olífuolían að renna.
7 Fór hún þá og sagði guðsmanninum frá, en hann sagði: "Far þú nú og sel olíuna og gjald skuld þína, en haf til viðurlífis þér og sonum þínum það, sem afgangs verður."
8 Það bar til einn dag, að Elísa gekk yfir til Súnem. Þar var auðug kona, og lagði hún að honum að þiggja mat hjá sér. Og í hvert sinn, sem hann fór um, gekk hann þar inn til að matast.
9 Og hún sagði við mann sinn: "Heyrðu, ég sé að það er heilagur guðsmaður, sem stöðuglega fer um hjá okkur.
10 Við skulum gjöra lítið loftherbergi með múrveggjum og setja þangað rúm og borð og stól og ljósastiku, svo að hann geti farið þangað, þegar hann kemur til okkar."
11 Einn dag kom Elísa þar, gekk inn í loftherbergið og lagðist þar til svefns.
12 Síðan sagði hann við Gehasí, svein sinn: "Kalla þú á súnemsku konuna." Og hann kallaði á hana, og hún gekk fyrir hann.
13 Þá sagði hann við Gehasí: "Seg þú við hana: ,Þú hefir haft alla þessa fyrirhöfn fyrir okkur, hvað á ég að gjöra fyrir þig? Þarft þú að láta tala máli þínu við konung eða við hershöfðingjann?"` Hún svaraði: "Ég bý hér á meðal ættfólks míns."
14 Þá sagði Elísa við Gehasí: "Hvað á ég þá að gjöra fyrir hana?" Gehasí mælti: "Jú, hún á engan son, og maður hennar er gamall."
15 Þá sagði Elísa: "Kalla þú á hana." Og hann kallaði á hana, og hún nam staðar í dyrunum.
16 Þá mælti hann: "Að ári um þetta leyti munt þú faðma að þér son." En hún mælti: "Nei, herra minn, þú guðsmaður, skrökva þú eigi að ambátt þinni."
17 En konan varð þunguð og ól son næsta ár í sama mund, eins og Elísa hafði heitið henni.
18 Þegar sveinninn var kominn á legg, gekk hann einn dag til föður síns, út til kornskurðarmannanna.
19 Þá sagði hann við föður sinn: "Æ, höfuðið á mér, höfuðið á mér!" En faðir hans sagði við svein sinn: "Ber þú hann til móður sinnar."
20 Og hann tók hann og færði hann móður hans, og hann sat í kjöltu hennar til hádegis, þá dó hann.
21 Þá gekk hún upp, lagði hann í rekkju guðsmannsins, lokaði að honum og gekk burt.
22 Þá kallaði hún á mann sinn og sagði við hann: "Send þú mér einn af sveinunum og eina ösnu. Ég ætla sem skjótast að fara til fundar við guðsmanninn og koma síðan aftur."
23 En hann mælti: "Hvers vegna ætlar þú að fara til hans í dag? Það er hvorki tunglkomudagur né hvíldardagur." Hún mælti: "Það gjörir ekkert til!"
24 Síðan söðlaði hún ösnuna og sagði við svein sinn: "Rektu nú hart! Linaðu eigi á, uns ég segi þér."
25 Síðan fór hún og kom til guðsmannsins á Karmelfjalli. En er guðsmaðurinn sá hana álengdar, sagði hann við Gehasí, svein sinn: "Þetta er konan frá Súnem!
26 Hlaup þú nú á móti henni og seg við hana: ,Hvernig líður þér, hvernig líður manni þínum, hvernig líður drengnum?"` Hún svaraði: "Okkur líður vel."
27 En er hún kom á fjallið til guðsmannsins, tók hún um fætur honum. Þá gekk Gehasí að og vildi hrinda henni frá. En guðsmaðurinn mælti: "Láttu hana vera, því að hún er harmþrungin mjög, og Drottinn hefir leynt mig því og eigi látið mig vita það."
28 Þá mælti hún: "Hefi ég beðið herra minn um son? Sagði ég ekki: ,Drag mig ekki á tálar?"`
29 Þá sagði hann við Gehasí: "Gyrð þú lendar þínar, tak staf minn í hönd þér og far af stað. Þó að einhver mæti þér, þá heilsaðu honum ekki, og þó að einhver heilsi þér, þá taktu ekki undir við hann, og legg staf minn yfir andlit sveinsins."
30 En móðir sveinsins mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, þá fer ég ekki frá þér." Stóð hann þá upp og fór með henni.
31 Gehasí var farinn á undan þeim og hafði lagt stafinn yfir andlit sveinsins, en þar var steinhljóð og ekkert lífsmark. Þá sneri hann við í móti honum og sagði honum svo frá: "Ekki vaknar sveinninn!"
32 Þegar Elísa kom inn í húsið, þá lá sveinninn dauður í rekkju hans.
33 Þá gekk hann inn og lokaði dyrunum að þeim báðum og bað til Drottins.
34 Síðan steig hann upp í og lagðist yfir sveininn, lagði sinn munn yfir hans munn, sín augu yfir hans augu og sínar hendur yfir hans hendur og beygði sig yfir hann. Hitnaði þá líkami sveinsins.
35 Þá kom hann aftur, gekk einu sinni aftur og fram um húsið, fór síðan upp og beygði sig yfir hann. Þá hnerraði sveinninn sjö sinnum. Því næst lauk hann upp augunum.
36 Þá kallaði Elísa á Gehasí og sagði: "Kalla þú á súnemsku konuna." Og hann kallaði á hana, og hún kom til hans. Þá sagði hann: "Tak við syni þínum!"
37 Þá kom hún og féll til fóta honum og laut til jarðar. Síðan tók hún son sinn og fór burt.
38 Elísa kom aftur til Gilgal meðan hallæri var í landinu. Og er spámannasveinarnir sátu frammi fyrir honum, sagði hann við svein sinn: "Settu upp stóra pottinn og sjóð rétt matar handa spámannasveinunum."
39 Þá gekk einn út í hagann að tína jurtir og fann villivafteinung og tíndi á honum yfirhöfn sína fulla af villi-agúrkum, fór síðan heim og brytjaði þær í matarpottinn, því að þeir þekktu þær ekki.
40 Síðan helltu þeir upp fyrir mennina til að eta. En er þeir brögðuðu á matnum, hljóðuðu þeir upp yfir sig og sögðu: "Dauðinn er í pottinum, þú guðsmaður!" og þeir gátu ekki etið það.
41 En hann mælti: "Komið með mjöl!" Og hann kastaði því í pottinn. Síðan sagði hann: "Hell nú upp fyrir fólkið, að það megi eta." Þá var ekkert skaðvænt í pottinum.
42 Maður kom frá Baal Salísa og færði guðsmanninum frumgróðabrauð, tuttugu byggbrauð og mulið korn í mal sínum. Og Elísa sagði: "Gefðu fólkinu það að eta."
43 En þjónn hans mælti: "Hvernig get ég borið þetta hundrað mönnum?" Hann svaraði: "Gefðu fólkinu það að eta. Því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa."
44 Þá lagði hann það fyrir þá, en þeir neyttu og gengu frá leifðu, eins og Drottinn hafði sagt.
5 Naaman, hershöfðingi Sýrlandskonungs, var í miklum metum hjá herra sínum og í hávegum hafður, því að undir forustu hans hafði Drottinn veitt Sýrlendingum sigur. Var maðurinn hinn mesti kappi, en líkþrár.
2 Sýrlendingar höfðu farið herför í smáflokkum og haft burt af Ísraelslandi unga stúlku. Þjónaði hún konu Naamans.
3 Hún sagði við húsmóður sína: "Ég vildi óska að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu. Hann mundi losa hann við líkþrána."
4 Þá fór Naaman og sagði herra sínum frá á þessa leið: "Svo og svo hefir stúlkan frá Ísraelslandi talað."
5 Þá mælti Sýrlandskonungur: "Far þú, ég skal senda Ísraelskonungi bréf." Lagði Naaman þá af stað og tók með sér tíu talentur silfurs, sex þúsund sikla gulls og tíu alklæðnaði.
6 Hann færði Ísraelskonungi bréfið, er var á þessa leið: "Þegar bréf þetta kemur þér í hendur, þá skalt þú vita, að ég hefi sent til þín Naaman þjón minn, og skalt þú losa hann við líkþrá hans."
7 En er Ísraelskonungur hafði lesið bréfið, reif hann klæði sín og mælti: "Er ég þá Guð, er deytt geti og lífgað, fyrst hann gjörir mér orð um að losa mann við líkþrá hans? Megið þér þar sjá og skynja, að hann leitar saka við mig."
8 En er Elísa, guðsmaðurinn, frétti, að Ísraelskonungur hefði rifið klæði sín, sendi hann til konungs og lét segja honum: "Hví rífur þú klæði þín? Komi hann til mín, þá skal hann komast að raun um, að til er spámaður í Ísrael."
9 Þá kom Naaman með hesta sína og vagna og nam staðar úti fyrir húsdyrum Elísa.
10 Þá sendi Elísa mann til hans og lét segja honum: "Far og lauga þig sjö sinnum í Jórdan, þá mun hold þitt komast í samt lag og þú munt hreinn verða!"
11 Þá varð Naaman reiður og gekk burt og mælti: "Ég hugði þó, að hann mundi koma út til mín og ganga að mér og ákalla nafn Drottins, Guðs síns, veifa hendinni í áttina til helgistaðarins og koma þannig líkþránni burt.
12 Eru ekki Abana og Farfar, fljótin hjá Damaskus, betri en allar ár í Ísrael? Gæti ég ekki laugað mig í þeim og orðið hreinn?" Sneri hann sér þá við og hélt burt í reiði.
13 Þá gengu þjónar hans til hans, töluðu til hans og sögðu: "Ef spámaðurinn hefði skipað þér eitthvað erfitt, mundir þú þá ekki hafa gjört það? Hve miklu fremur þá, er hann hefir sagt þér: ,Lauga þig og munt þú hreinn verða`?"
14 Þá fór hann ofan eftir og dýfði sér sjö sinnum niður í Jórdan, eins og guðsmaðurinn hafði sagt. Varð þá hold hans aftur sem hold á ungum sveini, og hann varð hreinn.
15 Þá hvarf hann aftur til guðsmannsins og allt hans föruneyti, og er hann kom þangað, gekk hann fyrir hann og mælti: "Nú veit ég, að enginn Guð er til í neinu landi nema í Ísrael, og þigg nú gjöf af þjóni þínum."
16 En Elísa mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er ég þjóna: Ég tek ekki við neinu!" Og þótt hann legði að honum að taka við því, þá færðist hann undan.
17 Þá mælti Naaman: "Ef ekki, þá lát þó gefa þjóni þínum mold á tvo múla, því að þjónn þinn mun eigi framar færa brennifórnir og sláturfórnir neinum guðum öðrum en Drottni.
18 Það eitt verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum: Þegar herra minn gengur í musteri Rimmons til þess að biðjast þar fyrir, og hann þá styðst við hönd mína, svo að ég fell fram í musteri Rimmons, þegar hann fellur fram í musteri Rimmons, _ það verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum."
19 En Elísa mælti til hans: "Far þú í friði." En er Naaman var kominn spölkorn frá honum,
20 þá sagði Gehasí, sveinn Elísa, guðsmannsins, við sjálfan sig: "Sjá, herra minn hefir hlíft Naaman þessum sýrlenska og ekki þegið af honum það, sem hann kom með. Svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal ég hlaupa á eftir honum og þiggja eitthvað af honum."
21 Hélt Gehasí nú á eftir Naaman. En er Naaman sá mann koma hlaupandi á eftir sér, stökk hann af vagninum, gekk í móti honum og mælti: "Er nokkuð að?"
22 Gehasí svaraði: "Nei, en herra minn sendir mig og lætur segja þér: ,Rétt í þessu komu til mín frá Efraímfjöllum tveir sveinar af spámannasveinunum. Gef mér handa þeim talentu silfurs og tvo alklæðnaði."`
23 Naaman svaraði: "Gjör þú mér þann greiða að taka við tveimur talentum!" Og hann lagði að honum og batt tvær talentur silfurs í tvo sjóðu, svo og tvo alklæðnaði og fékk tveimur sveinum sínum, og báru þeir það fyrir honum.
24 En er þeir komu á hæðina, þá tók Gehasí við því af þeim, geymdi það í húsinu og lét mennina fara burt, og fóru þeir leiðar sinnar.
25 Síðan fór hann inn og gekk fyrir herra sinn. En Elísa sagði við hann: "Hvaðan kemur þú, Gehasí?" Hann svaraði: "Þjónn þinn hefir alls ekkert farið."
26 Og Elísa sagði við hann: "Ég fylgdi þér í anda, þegar maðurinn sneri frá vagni sínum í móti þér. Nú hefir þú fengið silfur og munt fá klæði, olíutré, víngarða, sauði og naut, þræla og ambáttir.
27 En líkþrá Naamans mun ávallt loða við þig og niðja þína." Gekk hann þá burt frá honum hvítur sem snjór af líkþrá.
6 Spámannasveinarnir sögðu við Elísa: "Húsrýmið, þar sem vér búum hjá þér, er of lítið fyrir oss.
2 Leyf oss að fara ofan að Jórdan og taka þar sinn bjálkann hver, til þess að vér getum gjört oss bústað." Hann mælti: "Farið þér!"
3 En einn af þeim mælti: "Gjör oss þann greiða að fara með þjónum þínum." Hann mælti: "Ég skal fara."
4 Síðan fór hann með þeim. Þegar þeir komu að Jórdan, tóku þeir að höggva tré.
5 En er einn þeirra var að fella bjálka, hraut öxin af skafti út á ána. Hljóðaði hann þá upp yfir sig og mælti: "Æ, herra minn _ og það var lánsöxi!"
6 Þá sagði guðsmaðurinn: "Hvar datt hún?" Og er hann sýndi honum staðinn, sneið hann af viðargrein, skaut henni þar ofan í ána og lét járnið fljóta.
7 Síðan sagði hann: "Náðu henni nú upp!" Þá rétti hann út höndina og náði henni.
8 Þegar Sýrlandskonungur átti í ófriði við Ísrael, ráðgaðist hann um við menn sína og mælti: "Á þeim og þeim stað skuluð þér leggjast í launsátur."
9 En guðsmaðurinn sendi til Ísraelskonungs og lét segja honum: "Varast þú að fara fram hjá þessum stað, því að Sýrlendingar liggja þar í launsátri."
10 Þá sendi Ísraelskonungur á þann stað, sem guðsmaðurinn hafði nefnt við hann. Varaði hann konung þannig við í hvert sinn, og gætti hann sín þar, og það oftar en einu sinni eða tvisvar.
11 Út af þessu varð Sýrlandskonungur órór í skapi, kallaði á menn sína og sagði við þá: "Getið þér ekki sagt mér, hver af vorum mönnum ljóstrar upp fyrirætlunum vorum við Ísraelskonung?"
12 Þá sagði einn af þjónum hans: "Því er eigi svo farið, minn herra konungur, heldur flytur Elísa spámaður, sem er í Ísrael, Ísraelskonungi þau orð, sem þú talar í svefnherbergi þínu."
13 Þá sagði hann: "Farið og vitið, hvar hann er, svo að ég geti sent menn og látið sækja hann." Var honum þá sagt, að hann væri í Dótan.
14 Þá sendi hann þangað hesta og vagna og mikinn her. Komu þeir þangað um nótt og slógu hring um borgina.
15 Þegar Elísa kom út árla næsta morgun, umkringdi her með hestum og vögnum borgina. Þá sagði sveinn hans við hann: "Æ, herra minn, hvað eigum við nú til bragðs að taka?"
16 Hann svaraði: "Óttast ekki, því að fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru."
17 Og Elísa gjörði bæn sína og mælti: "Drottinn, opna þú augu hans, svo að hann sjái." Þá opnaði Drottinn augu sveinsins, og sá hann þá, að fjallið var alþakið hestum og eldlegum vögnum hringinn í kringum Elísa.
18 Fóru Sýrlendingar nú niður í móti honum, en Elísa gjörði bæn sína til Drottins og mælti: "Slá fólk þetta með blindu." Þá sló hann það með blindu eftir beiðni Elísa.
19 Síðan sagði Elísa við þá: "Þetta er ekki vegurinn og þetta er ekki borgin. Komið með mér, ég skal fylgja yður til mannsins, sem þér leitið að." Og hann fór með þá til Samaríu.
20 En er þeir komu til Samaríu, mælti Elísa: "Drottinn, opna þú nú augu þeirra, svo að þeir sjái." Þá opnaði Drottinn augu þeirra, og þeir sáu, að þeir voru komnir inn í miðja Samaríu.
21 En er Ísraelskonungur sá þá, sagði hann við Elísa: "Faðir minn, á ég að höggva þá niður?"
22 En hann svaraði: "Eigi skalt þú höggva þá niður. Ert þú vanur að höggva þá niður, er þú hertekur með sverði þínu og boga? Set fyrir þá brauð og vatn, svo að þeir megi eta og drekka. Síðan geta þeir farið heim til herra síns."
23 Þá bjó hann þeim mikla máltíð, og þeir átu og drukku. Síðan lét hann þá í burt fara, og fóru þeir heim til herra síns. Upp frá þessu komu ránsflokkar Sýrlendinga eigi framar inn í land Ísraels.
24 Eftir þetta bar svo til, að Benhadad Sýrlandskonungur dró saman allan her sinn og fór og settist um Samaríu.
25 Þá varð hungur svo mikið í Samaríu, er þeir sátu um hana, að asnahöfuð kostaði áttatíu sikla silfurs og fjórðungur úr kab af dúfnadrit fimm sikla silfurs.
26 Þegar Ísraelskonungur var á gangi uppi á borgarveggnum, kallaði kona nokkur til hans og mælti: "Hjálpa þú, herra konungur!"
27 Hann mælti: "Ef Drottinn hjálpar þér ekki, hvaðan á ég þá að taka hjálp handa þér? Úr láfanum eða úr vínþrönginni?"
28 Og konungur sagði við hana: "Hvað viltu þá?" Hún svaraði: "Konan þarna sagði við mig: ,Sel fram son þinn og skulum við eta hann í dag, en á morgun skulum við eta minn son.`
29 Suðum við síðan minn son og átum hann. En er ég sagði við hana daginn eftir: ,Sel þú fram son þinn og skulum við eta hann,` þá fal hún son sinn."
30 Er konungur heyrði þessi ummæli konunnar, reif hann klæði sín þar sem hann stóð á múrnum. Sá þá lýðurinn, að hann hafði hærusekk á líkama sínum innstan klæða.
31 Þá sagði hann: "Guð gjöri mér hvað sem hann vill nú og síðar, ef höfuðið situr á Elísa Safatssyni til kvölds."
32 En Elísa sat í húsi sínu, og öldungarnir sátu hjá honum. Sendi þá konungur mann á undan sér, en áður en sendimaðurinn kom til hans, sagði Elísa við öldungana: "Vitið þér, að þessi morðhundur hefir sent hingað til þess að höggva af mér höfuðið? Gætið þess að loka dyrunum, þegar sendimaðurinn kemur, og standið fyrir hurðinni, svo að hann komist ekki inn. Heyrist ekki þegar fótatak húsbónda hans á eftir honum?"
33 Meðan hann var að segja þetta við þá, kom konungur þegar ofan til hans og mælti: "Sjá, hvílíka ógæfu Drottinn lætur yfir dynja. Hví skyldi ég lengur vona á Drottin?"
by Icelandic Bible Society