Fyrra bréf Páls til Korin 9-11
Icelandic Bible
9 Er ég ekki frjáls? Er ég ekki postuli? Hef ég ekki séð Jesú, Drottin vorn? Eruð þér ekki verk mitt, sem ég hef unnið fyrir Drottin?
2 Þótt ekki væri ég postuli fyrir aðra, þá er ég það fyrir yður. Þér eruð staðfesting Drottins á postuladómi mínum.
3 Þetta er vörn mín gagnvart þeim, sem dæma um mig.
4 Höfum vér ekki rétt til að eta og drekka?
5 Höfum vér ekki rétt til að ferðast um með kristna eiginkonu, alveg eins og hinir postularnir og bræður Drottins og Kefas?
6 Eða erum við Barnabas þeir einu, sem eru ekki undanþegnir því að vinna?
7 Hver tekst nokkurn tíma herþjónustu á hendur á sjálfs sín mála? Hver plantar víngarð og neytir ekki ávaxtar hans? Hver gætir hjarðar og neytir ekki af mjólk hjarðarinnar?
8 Tala ég þetta á mannlegan hátt, eða segir ekki einnig lögmálið það?
9 Ritað er í lögmáli Móse: "Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir." Hvort lætur Guð sér annt um uxana?
10 Eða segir hann það ekki að öllu leyti vor vegna? Jú, vor vegna stendur skrifað, að sá sem plægir og sá sem þreskir eigi að gjöra það með von um hlutdeild í uppskerunni.
11 Ef vér nú höfum sáð hjá yður því, sem andlegt er, er það þá of mikið að vér uppskerum hjá yður það, sem líkamlegt er?
12 Ef aðrir hafa þennan rétt hjá yður, höfum vér hann þá ekki miklu fremur? En vér höfum ekki hagnýtt oss þennan rétt, heldur sættum oss við allt, til þess að tálma ekki fagnaðarerindinu um Krist.
13 Vitið þér ekki, að þeir, sem vinna við helgidóminn, lifa af því, sem kemur úr helgidóminum, og þeir, sem starfa við altarið, taka hlut með altarinu?
14 Þannig hefur Drottinn einnig fyrirskipað að þeir, sem prédika fagnaðarerindið, skuli lifa af fagnaðarerindinu.
15 En ég hef ekki hagnýtt mér neitt af þessu og ég skrifa þetta ekki heldur til þess, að svo verði við mig gjört. Mér væri betra að deyja, _ enginn skal ónýta það, sem ég hrósa mér af.
16 Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.
17 Því að gjöri ég þetta af frjálsum vilja, þá fæ ég laun, en gjöri ég það tilknúður, þá hefur mér verið trúað fyrir ráðsmennsku.
18 Hver eru þá laun mín? Að ég boða fagnaðarerindið án endurgjalds og hagnýti mér ekki það, sem ég á rétt á.
19 Þótt ég sé öllum óháður, hef ég gjört sjálfan mig að þræli allra, til þess að ávinna sem flesta.
20 Ég hef verið Gyðingunum sem Gyðingur, til þess að ávinna Gyðinga. Þeim, sem eru undir lögmálinu, hef ég verið eins og sá, sem er undir lögmálinu, enda þótt ég sjálfur sé ekki undir lögmálinu, til þess að ávinna þá, sem eru undir lögmálinu.
21 Hinum lögmálslausu hef ég verið sem lögmálslaus, þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs, heldur bundinn lögmáli Krists, til þess að ávinna hina lögmálslausu.
22 Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina óstyrku. Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra.
23 Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því.
24 Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau.
25 Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan.
26 Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær.
27 Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.
10 Ég vil ekki, bræður, að yður skuli vera ókunnugt um það, að feður vorir voru allir undir skýinu og fóru allir yfir um hafið.
2 Allir voru skírðir til Móse í skýinu og hafinu.
3 Allir neyttu hinnar sömu andlegu fæðu
4 og drukku allir hinn sama andlega drykk. Þeir drukku af hinum andlega kletti, sem fylgdi þeim. Kletturinn var Kristur.
5 En samt hafði Guð enga velþóknun á flestum þeirra og þeir féllu í eyðimörkinni.
6 Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og þeir urðu sólgnir í það.
7 Verðið ekki skurðgoðadýrkendur, eins og nokkrir þeirra. Ritað er: "Lýðurinn settist niður til að eta og drekka, og þeir stóðu upp til að leika."
8 Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi.
9 Freistum ekki heldur Drottins, eins og nokkrir þeirra freistuðu hans, þeir biðu bana af höggormum.
10 Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra mögluðu, þeir fórust fyrir eyðandanum.
11 Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.
12 Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.
13 Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.
14 Fyrir því, mínir elskuðu, flýið skurðgoðadýrkunina.
15 Ég tala til yðar sem skynsamra manna. Dæmið þér um það, sem ég segi.
16 Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists?
17 Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði.
18 Lítið á Ísraelsþjóðina. Eiga þeir, sem fórnirnar eta, ekki hlut í altarinu?
19 Hvað segi ég þá? Að kjöt fórnað skurðgoðum sé nokkuð? Eða skurðgoð sé nokkuð?
20 Nei, heldur að það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði. En ég vil ekki, að þér hafið samfélag við illa anda.
21 Ekki getið þér drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda.
22 Eða eigum vér að reita Drottin til reiði? Munum vér vera máttugri en hann?
23 Allt er leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt, en ekki byggir allt upp.
24 Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.
25 Allt það, sem selt er á kjöttorginu, getið þér etið án nokkurra eftirgrennslana vegna samviskunnar.
26 Því að jörðin er Drottins og allt, sem á henni er.
27 Ef einhver hinna vantrúuðu býður yður og ef þér viljið fara, þá etið af öllu því, sem fyrir yður er borið, án eftirgrennslana vegna samviskunnar.
28 En ef einhver segir við yður: "Þetta er fórnarkjöt!" þá etið ekki, vegna þess, er gjörði viðvart, og vegna samviskunnar.
29 Samviskunnar, segi ég, ekki eigin samvisku, heldur samvisku hins. En hvers vegna skyldi frelsi mitt eiga að dæmast af samvisku annars?
30 Ef ég neyti fæðunnar með þakklæti, hvers vegna skyldi ég sæta lasti fyrir það, sem ég þakka fyrir?
31 Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.
32 Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar.
33 Ég fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og hygg ekki að eigin hag, heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir verði hólpnir.
11 Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.
2 Ég hrósa yður fyrir það, að þér í öllu minnist mín og haldið fast við kenningarnar, eins og ég flutti yður þær.
3 En ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.
4 Sérhver sá maður, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs og hefur á höfðinu, hann óvirðir höfuð sitt.
5 En sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt. Það er hið sama sem hún hefði látið krúnuraka sig.
6 Ef konan því vill ekki hylja höfuð sitt, þá láti hún klippa sig. En ef það er óvirðing fyrir konuna að láta klippa eða raka hár sitt, þá hafi hún á höfðinu.
7 Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt, því að hann er ímynd og vegsemd Guðs, en konan er vegsemd mannsins.
8 Því ekki er maðurinn af konunni kominn, heldur konan af manninum,
9 og ekki var heldur maðurinn skapaður vegna konunnar, heldur konan vegna mannsins.
10 Þess vegna á konan vegna englanna að bera tákn um yfirráð mannsins á höfði sér.
11 Þó er hvorki konan óháð manninum né maðurinn konunni í samfélaginu við Drottin,
12 því að eins og konan er komin af manninum, svo er og maðurinn fæddur af konunni, en allt er frá Guði.
13 Dæmið sjálfir: Sæmir það konu að biðja til Guðs berhöfðuð?
14 Kennir ekki sjálf náttúran yður, að ef karlmaður ber sítt hár, þá er það honum vansæmd,
15 en ef kona ber sítt hár, þá er það henni sæmd? Því að síða hárið er gefið henni í höfuðblæju stað.
16 En ætli nú einhver sér að gjöra þetta að kappsmáli, þá viti sá, að annað er ekki venja vor eða safnaða Guðs.
17 En um leið og ég áminni um þetta, get ég ekki hrósað yður fyrir samkomur yðar, sem eru fremur til ills en góðs.
18 Í fyrsta lagi heyri ég, að flokkadráttur eigi sér stað á meðal yðar, er þér komið saman á safnaðarsamkomum, og því trúi ég að nokkru leyti.
19 Víst verður að vera flokkaskipting á meðal yðar, til þess að þeir yðar þekkist úr, sem hæfir eru.
20 Þegar þér komið saman er það ekki til þess að neyta máltíðar Drottins,
21 því að við borðhaldið hrifsar hver sína máltíð, svo einn er hungraður, en annar drekkur sig ölvaðan.
22 Hafið þér þá ekki hús til að eta og drekka í? Eða fyrirlítið þér söfnuð Guðs og gjörið þeim kinnroða, sem ekkert eiga? Hvað á ég að segja við yður? Á ég að hæla yður fyrir þetta? Nei, ég hæli yður ekki.
23 Því að ég hef meðtekið frá Drottni það, sem ég hef kennt yður: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð,
24 gjörði þakkir, braut það og sagði: "Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu."
25 Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: "Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu."
26 Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.
27 Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins.
28 Hver maður prófi sjálfan sig og eti síðan af brauðinu og drekki af bikarnum.
29 Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms.
30 Fyrir því eru svo margir sjúkir og krankir á meðal yðar, og allmargir deyja.
31 Ef vér dæmdum um sjálfa oss, yrðum vér ekki dæmdir.
32 En fyrst Drottinn dæmir oss, þá er hann að aga oss til þess að vér verðum ekki dæmdir sekir ásamt heiminum.
33 Fyrir því skuluð þér bíða hver eftir öðrum, bræður mínir, þegar þér komið saman til að matast.
34 Ef nokkur er hungraður, þá eti hann heima, til þess að samkomur yðar verði yður ekki til dóms. Annað mun ég segja til um, þegar ég kem.
by Icelandic Bible Society