Fyrra bréf Páls til Korin 1-4
Icelandic Bible
1 Páll, kallaður að Guðs vilja til að vera postuli Jesú Krists, og Sósþenes, bróðir vor, heilsa
2 söfnuði Guðs í Korintu, þeim sem helgaðir eru í Kristi Jesú, heilagir að köllun til, ásamt öllum þeim, sem alls staðar ákalla nafn Drottins vors Jesú Krists, sem er þeirra Drottinn og vor.
3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
4 Ávallt þakka ég Guði mínum yðar vegna fyrir þá náð, sem hann hefur gefið yður í Kristi Jesú.
5 Í honum eruð þér auðgaðir orðnir í öllu, í hvers konar ræðu og hvers konar þekkingu.
6 Vitnisburðurinn um Krist er líka staðfestur orðinn á meðal yðar,
7 svo að yður brestur ekki neina náðargjöf meðan þér væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists.
8 Hann mun og gjöra yður staðfasta allt til enda, óásakanlega á degi Drottins vors Jesú Krists.
9 Trúr er Guð, sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns Jesú Krists, Drottins vors.
10 En ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.
11 Því að mér hefur verið tjáð um yður, bræður mínir, af heimilismönnum Klóe, að þrætur eigi sér stað á meðal yðar.
12 Ég á við þetta, að sumir yðar segja: "Ég er Páls," og aðrir: "Ég er Apollóss," eða: "Ég er Kefasar," eða: "Ég er Krists."
13 Er þá Kristi skipt í sundur? Mun Páll hafa verið krossfestur fyrir yður? Eða eruð þér skírðir til nafns Páls?
14 Ég þakka Guði fyrir, að ég hef engan yðar skírt nema Krispus og Gajus,
15 til þess að enginn skuli segja, að þér séuð skírðir til nafns míns.
16 Jú, ég skírði líka Stefanas og heimamenn hans. Annars veit ég ekki til, að ég hafi skírt neinn annan.
17 Ekki sendi Kristur mig til að skíra, heldur til að boða fagnaðarerindið, _ og ekki með orðspeki, til þess að kross Krists missti ekki gildi sitt.
18 Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs.
19 Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra.
20 Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku?
21 Því þar eð heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð í speki hans, þóknaðist Guði að frelsa þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar.
22 Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki,
23 en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku,
24 en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs.
25 Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.
26 Bræður, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir.
27 En Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku, til að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða.
28 Og hið ógöfuga í heiminum og hið fyrirlitna hefur Guð útvalið, það sem ekkert er, til þess að gjöra að engu það, sem eitthvað er,
29 til þess að enginn maður skuli hrósa sér fyrir Guði.
30 Honum er það að þakka að þér eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn oss vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn.
31 Eins og ritað er: "Sá, sem hrósar sér, hrósi sér í Drottni."
2 Er ég kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom ég ekki með frábærri mælskusnilld eða speki.
2 Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist og hann krossfestan.
3 Og ég dvaldist á meðal yðar í veikleika, ótta og mikilli angist.
4 Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar,
5 til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.
6 Speki tölum vér meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar, sem að engu verða,
7 heldur tölum vér leynda speki Guðs, sem hulin hefur verið, en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað oss til dýrðar.
8 Enginn af höfðingjum þessarar aldar þekkti hana, því að ef þeir hefðu þekkt hana, hefðu þeir ekki krossfest Drottin dýrðarinnar.
9 En það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.
10 En oss hefur Guð opinberað hana fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.
11 Hver meðal manna veit hvað mannsins er, nema andi mannsins, sem í honum er? Þannig hefur heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs andi.
12 En vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið.
13 Enda tölum vér það ekki með orðum, sem mannlegur vísdómur kennir, heldur með orðum, sem andinn kennir, og útlistum andleg efni á andlegan hátt.
14 Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega.
15 En hinn andlegi dæmir um allt, en um hann sjálfan verður ekki dæmt af neinum.
16 Því að hver hefur þekkt huga Drottins, að hann geti frætt hann? En vér höfum huga Krists.
3 Ég gat ekki, bræður, talað við yður eins og við andlega menn, heldur eins og við holdlega, eins og við ómálga í Kristi.
2 Mjólk gaf ég yður að drekka, ekki fasta fæðu, því að enn þolduð þér það ekki. Og þér þolið það jafnvel ekki enn,
3 því að enn þá eruð þér holdlegir menn. Fyrst metingur og þráttan er á meðal yðar, eruð þér þá eigi holdlegir og hegðið yður á manna hátt?
4 Þegar einn segir: "Ég er Páls," en annar: "Ég er Apollóss," eruð þér þá ekki eins og hverjir aðrir menn?
5 Hvað er þá Apollós? Já, hvað er þá Páll? Þjónar, sem hafa leitt yður til trúar, og það eins og Drottinn hefur gefið hvorum um sig.
6 Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.
7 Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur.
8 Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði.
9 Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.
10 Eftir þeirri náð, sem Guð hefur veitt mér, hef ég eins og vitur húsameistari lagt grundvöll, er annar byggir ofan á. En sérhver athugi, hvernig hann byggir.
11 Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur.
12 En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm,
13 þá mun verk hvers um sig verða augljóst. Dagurinn mun leiða það í ljós, af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er.
14 Ef nú verk einhvers fær staðist, það er hann byggði ofan á, mun hann taka laun.
15 Ef verk einhvers brennur upp, mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann frelsaður verða, en þó eins og úr eldi.
16 Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður?
17 Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun Guð eyða honum, því að musteri Guðs er heilagt, og þér eruð það musteri.
18 Enginn dragi sjálfan sig á tálar. Ef nokkur þykist vitur yðar á meðal í þessum heimi, verði hann fyrst heimskur til þess að hann verði vitur.
19 Því að speki þessa heims er heimska hjá Guði. Ritað er: Hann er sá, sem grípur hina vitru í slægð þeirra.
20 Og aftur: Drottinn þekkir hugsanir vitringanna, að þær eru hégómlegar.
21 Fyrir því stæri enginn sig af mönnum. Því að allt er yðar,
22 hvort heldur er Páll, Apollós eða Kefas, heimurinn, líf eða dauði, hið yfirstandandi eða hið komandi, allt er yðar.
23 En þér eruð Krists og Kristur Guðs.
4 Þannig líti menn á oss svo sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.
2 Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr.
3 En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af yður eða af mannlegu dómþingi. Ég dæmi mig ekki einu sinni sjálfur.
4 Ég er mér ekki neins ills meðvitandi, en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig.
5 Dæmið því ekki fyrir tímann, áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós, sem í myrkrinu er hulið, og opinbera ráð hjartnanna. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði, sem hann á skilið.
6 En þetta hef ég yðar vegna, bræður, heimfært til sjálfs mín og Apollóss, til þess að þér af okkar dæmi mættuð læra regluna: "Farið ekki lengra en ritað er," _ og til þess að enginn yðar hroki sér upp einum í vil, öðrum til niðrunar.
7 Því að hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?
8 Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og ég vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum vera konungar með yður!
9 Mér virðist Guð hafa sett oss postulana sísta allra, eins og dauðadæmda á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum.
10 Vér erum heimskir sökum Krists, en þér vitrir fyrir samfélag yðar við Krist! Vér erum veikir, en þér sterkir, þér eruð í hávegum hafðir, en vér óvirtir.
11 Allt til þessarar stundar þolum vér hungur, þorsta og klæðleysi, oss er misþyrmt, vér höfum engan samastað,
12 og vér stöndum í erfiði og verðum að vinna með eigin höndum.
13 Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, lastaðir áminnum vér. Vér erum orðnir eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa.
14 Ekki rita ég þetta til þess að gjöra yður kinnroða, heldur til að áminna yður eins og elskuleg börn mín.
15 Enda þótt þér hefðuð tíu þúsund fræðara í Kristi, þá hafið þér þó eigi marga feður. Ég hef í Kristi Jesú fætt yður með því að flytja yður fagnaðarerindið.
16 Ég bið yður: Verið eftirbreytendur mínir.
17 Þess vegna sendi ég Tímóteus til yðar, sem er elskað og trútt barn mitt í Drottni. Hann mun minna yður á vegu mína í Kristi, eins og ég kenni alls staðar í hverjum söfnuði.
18 En nokkrir hafa gjörst hrokafullir, rétt eins og ég ætlaði ekki að koma til yðar,
19 en ég mun brátt koma til yðar, ef Drottinn vill, og mun ég þá kynna mér, ekki orð hinna stærilátu, heldur kraft þeirra.
20 Því að Guðs ríki er ekki fólgið í orðum, heldur í krafti.
21 Hvað viljið þér? Á ég að koma til yðar með hirtingarvönd eða í kærleika og hógværðar anda?
by Icelandic Bible Society