Önnur bók Móse 24
Icelandic Bible
24 Guð sagði við Móse: "Stíg upp til Drottins, þú og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels, og skuluð þér falla fram álengdar.
2 Móse einn skal koma í nálægð Drottins, en hinir skulu ekki nærri koma, og fólkið skal ekki heldur stíga upp með honum."
3 Og Móse kom og sagði fólkinu öll orð Drottins og öll lagaákvæðin. Svaraði þá fólkið einum munni og sagði: "Vér skulum gjöra allt það, sem Drottinn hefir boðið."
4 Og Móse skrifaði öll orð Drottins. En næsta morgun reis hann árla og reisti altari undir fjallinu og tólf merkissteina eftir tólf kynkvíslum Ísraels.
5 Síðan útnefndi hann unga menn af Ísraelsmönnum, og þeir færðu Drottni brennifórnir og slátruðu uxum til þakkarfórna.
6 Og Móse tók helming blóðsins og hellti því í fórnarskálarnar, en hinum helming blóðsins stökkti hann á altarið.
7 Því næst tók hann sáttmálsbókina og las upp fyrir lýðnum, en þeir sögðu: "Vér viljum gjöra allt það, sem Drottinn hefir boðið, og hlýðnast því."
8 Þá tók Móse blóðið, stökkti því á fólkið og sagði: "Þetta er blóð þess sáttmála, sem Drottinn hefir gjört við yður og byggður er á öllum þessum orðum."
9 Þá stigu þeir upp Móse og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels.
10 Og þeir sáu Ísraels Guð, og var undir fótum hans sem pallur væri, gjörður af safírhellum, og skær sem himinninn sjálfur.
11 En hann útrétti eigi hönd sína gegn höfðingjum Ísraelsmanna. Og þeir sáu Guð og átu og drukku.
12 Drottinn sagði við Móse: "Stíg upp á fjallið til mín og dvel þar, og skal ég fá þér steintöflur og lögmálið og boðorðin, er ég hefi skrifað, til þess að þú kennir þeim."
13 Þá lagði Móse af stað og Jósúa, þjónn hans, og Móse sté upp á Guðs fjall.
14 En við öldungana sagði hann: "Verið hér kyrrir, þar til er vér komum aftur til yðar, og sjá, Aron og Húr eru hjá yður. Hver sem mál hefir að kæra, snúi sér til þeirra."
15 Móse sté þá upp á fjallið, en skýið huldi fjallið.
16 Og dýrð Drottins hvíldi yfir Sínaífjalli, og skýið huldi það í sex daga, en á sjöunda degi kallaði hann á Móse mitt út úr skýinu.
17 Og dýrð Drottins var á að líta fyrir Ísraelsmenn sem eyðandi eldur á fjallstindinum.
18 En Móse gekk mitt inn í skýið og sté upp á fjallið, og var Móse á fjallinu í fjörutíu daga og fjörutíu nætur.
by Icelandic Bible Society